Eftir kreppuna hefur fjármagn til skóla minnkað ár frá ári. Sjálfsagt var það að einhverju leyti nauðsyn. En nú er kominn tími á að snúa þessari óheillaþróun til betri vegar. Mikið starf liggur því fyrir næstu ríkisstjórn með þetta að markmiði. Ég mun í þessum pistli skrifa um nokkur af þeim atriðum sem þarf að bæta.
Verkleg kennsla í raungreinum
Mikið hefur dregið úr verklegri kennslu raungreina á öllum skólastigum. Það er til skammar að það sé ekki meira gert til að kynna nemendum vísindalega hugsun og hugmyndir. Slík kennsla á tvímælalaust að vera aðalsmerki hvers skóla.
Í sjónvarpinu hefur hann Ævar sýnt okkur hvernig hægt er að kynna raungreinar fyrir börnum á skemmtilegan og fróðlegan máta. Bók hans um tilraunir er sérlega góð og til þess fallin að fá þau til að gera einfaldar tilraunir sjálf. Efnin og áhöldin, sem notuð eru, finnum við í næsta umhverfi okkar.
Flestir grunnskólar landsins eru illa búnir fyrir verklega kennslu raungreina. Að vísu var nokkru átaki hrint af stað fyrir einhverjum árum (kannski áratugum) þegar Ari Ólafsson, núverandi prófessor við HÍ, var fenginn til að kaupa inn, í miklu magni, tæki og efni til kennslunnar. Hann vann kauplistann með hjálp internetsins og leitaði eftir hagstæðustu tilboðum í hvert stykki. Með þessu var kostnaði haldið í lágmarki. Síðan útbjó hann vinnuseðla fyrir nemendur sem pössuðu við innkaupin og hentuðu tilraunum á þessu skólastigi.
Verklegri kennslu á framhaldsskólastigi er í dag þröngur stakkur búinn. Í mörgum skólum þurfa kennarar að vera með 24 til 30 nemendur í verklegum tímum. Hver heilvita maður sér að það er óviðunandi fyrirkomulag. Ofan á það bætist rýr tækjakostur margra skóla. Nokkrir skólar skera sig þó úr; þar er tækjakostur góður; oft er hægt að láta alla nemendur í hópnum gera sömu tilraun þar sem tveir til þrír vinna saman.
Iðnnám (á háskólastigi?)
Þann 17. maí s.l. birtist pistill í Stundinni eftir þrjá kennara við menntavísindasvið HÍ (Atla, Elsu og Jón Torfa). Þar viðruðu þau þær hugmyndir að flytja iðnnámið að stórum hluta upp á háskólastig. Miklar tækninýjungar hafa orðið í iðngreinum síðustu árin og því krefðist það betri grunnmenntunar. Á eftir pistlinum var gefinn kostur á því að gera athugasemdir við efni hans. Er skemmst frá að segja að umsagnirnar voru allar neikvæðar og sumir töldu þetta hreina ósvinnu. Það er sjálfsagt að ræða hugmyndina áfram, en þá þurfa fleiri aðilar að koma að umræðunni, svo sem iðngreinakennarar og atvinnurekendur. Ég er þeirrar skoðunar að meginhluti iðnnámsins eigi heima í framhaldsskólum, en hugsanlega mætti færa nokkra mjög sérhæfða þætti upp á háskólastigið. Hjá mörgum nemendum sem ljúka iðnnámi vaknar löngun til aukinnar menntunar og með réttu vali á áföngum í framhaldsskóla þá verða þeir vel í stakk búnir til að færa sig yfir á háskólastigið.
Mikið hefur verið rætt um finnsku leiðina í skólamálum. Í henni er gert ráð fyrir að þörfum allra sé sinnt þannig að þegar nemandinn lýkur skólagöngunni fari hann úr skólanum sáttur við sjálfan sig og umhverfið.
Þáttur foreldra
Að mínu viti er allt of mikið þrýst á nemendur að fara í bóklegt nám í framhaldsskóla. Þáttur foreldranna skiptir þar miklu máli. „Þú átt að verða háskólamenntaður eins og ég og mamma þín, enda er það hefð í ættunum okkar.“ Svo eru margir sem ekki hafa haft tök á að fara til náms þegar þeir voru ungir og nú á að láta drauma foreldranna rætast. Ýmsir kennarar hjálpa ötullega við þennan óeðlilega þrýsting.
Í dag er ástandið þannig í framhaldsskólunum að allt of margir nemendur falla brott eftir tveggja til fjögurra anna nám. Þeir hafa fallið og fallið í kjarnagreinunum: íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði. Margir þeirra yfirgefa skólann með mjög skerta sjálfsmynd og samfélagið missir oft á tíðum mikilvægan mannauð.
Leiðbeinendur og kennarar
Það er mikill skortur á kennurum í leik- og grunnskólum landsins. Á meðan slíkt varir en fáránlegt að krefjast fimm ára náms til að fólk fái réttindi sem kennarar. Þess þá heldur þegar launin eru alls ekki í samræmi við langt nám. Eðlilegast væri að veita fólki rétt til að kenna eftir þrjú ár. Þegar ásóknin í námið verður orðin það mikil að flestir kennarar verða með réttindi, þá má búast við að margir þeirra vilji bæta við sig í námi.
Eðlilegt er að að þeir sem sinna stjórnunarstörfum í leik- og grunnskólum landsins ljúki fimm ára námi.
Hallgrímur Hróðmarsson, fyrrum kennari – alltaf kennari.
Athugasemdir