Ég og Agnes hittum vinafólk okkar um daginn, par sem er um margt svipað og við, gæðafólk sem ég á mjög auðvelt með að hafa samskipti við. Ég man ekki nákvæmlega hvað við vorum að ræða en auðvitað var ég fljótlega búinn að lýsa því yfir að einhver kunningjakona okkar væri gríðarleg hæna* og að við aðrar kringumstæður væri ég örugglega búinn að gera mig líklegan við hana. Ég er fyndinn svo við hlógum öll að þessu öllu saman. Þangað til:
Hún: „Finnst þér hún líka svona rosalega falleg?“
Hann: „Nei, mér finnst það ekki. Hún er ekki mín týpa og ég hef bara aldrei hugsað um hana þannig og ...“
Svo hélt hann eitthvað áfram. Ég hætti að brosa og var næstum búinn að segja eitthvað. Ég sleppti því nú samt, þrátt fyrir að hann væri greinilega að tala með rassgatinu. Umrædd kona, hænan sum sé, er kona sem öllum** kynvísum*** karlmönnum þykir falleg og myndu vilja sofa hjá. Og ég veit fyrir víst að hann er þar engin undantekning. Af hverju neitaði hann þessu þá?
Ég hugsaði þetta mikið og ræddi síðan við Agnesi þegar heim var komið. Við erum vissulega mjög opin með svona hluti og sennilega opnari en flestir. Ég er ekki að segja að allir þurfi að tala svona opinskátt um skoðanir og langanir í sambandinu sínu en fjandinn hafi það, það getur ekki verið eðlilegt að ljúga. Af hverju sagði hann þá bara nei? Fljótlega kom afbrýðiskenningin upp á yfirborðið, að hann hefði viljað forðast að styggja konuna sína og særa og þess vegna valið auðveldu leiðina. Sem sagt:
Hún: „Finnst þér hún svona falleg?“
Hann: „Já, en ég ætla ekki að segja þér það svo þú verðir ekki sár og/eða reið.“
Ókei. Hverskonar rökleysa er þetta? Var hann sem sagt að gefa í skyn að tímapunkturinn þegar hann sendi henni SMS-ið: „VBMM?“**** hafi markað þann skurðpunkt í tíma að honum hætti að finnast konur fallegar. Já, allar nema sú sem fékk SMS-ið vitanlega. Það er óhugsandi, órökrétt, óhollt og ómannlegt. Auðvitað finnst okkur annað fólk aðlaðandi, skárra væri það nú. Rétt útgáfa hefði því átt að vera:
Hún: „Finnst þér hún falleg?“
Hann: „Já, mjög.“
Og búið spil.
Eða hvað? Nei alls ekki búið spil, við komumst að því þegar við krufum málið nær kjarnanum. Vandamálið liggur nefnilega ekki bara í svarinu heldur líka í spurningunni. „Finnst þér hún falleg,“ þýðir nefnilega ekki bara það, og þegar vel er að gáð var samtal þeirra í raun svona:
Hún: „Finnst þér hún falleg?“
Hann: „Já, mjög.“
Hún: „Fallegri en ég?“
Hann: „Nei það finnst mér ekki. Þar fyrir utan er það málinu alls kostar óviðkomandi, ég elska þig og er fullkomlega hamingjusamur með samband okkar eins og það er. Ég er bara að horfa í kringum mig.“
Þar að auki sé ég ekkert athugavert við það að konan mín hafi skoðun á og jafnvel langanir til annars fólks.
Kannski er þetta bara þægilegt, klippa út nokkrar óþarfar setningar og segja bara „réttu“ hlutina. En eitthvað segir mér að þetta skapi fleiri vandamál en það leysir og að afleiðingarnar séu sýnilegar um allt. Ég fyrir mína parta er í það minnsta ekki góður í að lesa milli línanna og sé ekki ástæðuna til þess að ætla öðru fólki að lesa milli minna lína. Þar að auki sé ég ekkert athugavert við það að konan mín hafi skoðun á og jafnvel langanir til annars fólks. Slíkt er fullkomlega mannlegt og ég áskil mér rétt til að gera slíkt hið sama. Þar að auki vil ég alls ekki að hún bæli tilfinningar sínar niður því þá væri hún að bæla sjálfa sig niður, hið sama sjálf og heillaði mig svo mikið að ég sendi henni VBMM? Að þessu sögðu hef ég nákvæmlega ekkert umburðarlyndi þegar kemur að undirferli. Ef framhjá mér væri haldið væru það svikin sem myndu ganga frá mér, ekki rangt typpi á röngum stað. Og þess vegna verður fólk að segja það sem það meinar, bæði þegar það spyr spurninga og eins þegar það svarar:
Hún: „Finnst þér hún fallegri en ég? Er það vegna þess að hún er grennri en ég og með síðara hár, kann að ganga á pinnahælum og slettir á spænsku? Myndirðu stinga af með henni norður í land, leigja hótelherbergi og hræra í hennar svita með þínum meðan þið drekkið kampavín úr flösku sem þú settir á VISA-kortið mitt? Myndirðu svo fara frá mér og börnunum okkar tveimur til þess að giftast henni og setjast að með henni í sumarhúsi á Grænhöfðaeyjum þar sem hún myndi aldrei klæðast öðru en strápilsi og kókoslaufum og syngja þig í svefn á hverju kvöldi?“
Hann: „Mér finnst hún gríðarlega falleg. Ef við hefðum aldrei kynnst væri ég örugglega með plan þess efnis að kynnast henni betur, enda þótt ég hafi engan sérstakan áhuga á spænsku eða háum hælum. Og ég væri meira en til í að stunda kynlíf með henni. En eins og staðan er núna í okkar lífi er ég fullkomlega hamingjusamur og dytti ekki í hug að fara á bak við þig. Ég hef enga þörf og engan áhuga á að særa þig. Við erum nefnilega frábært par og ég elska þig.
Eða:
Hún: „Finnst þér hún falleg?“
Hann: „Já. Mjög.“
*Hæna er húsvískt orðatiltæki, notað yfir fallega konu. Oft hlaðið losta, en aldrei sagt af vanvirðingu.
**Alhæfing. Ekkert endilega allir. En hún er raunhæna.
***Er PC að segja kynvís í dag? Erum við þessi venjulegu kannski ekkert vísari en villingarnir?
****Viltu byrja með mér?
Athugasemdir