Það var snemma að morgni 28. maí 1945 á Austur-Kínahafi. Á eyjunni Okinawa djúpt suður af meginlandi Japans hafði verið barist af grimmd í tæpa tvo mánuði. Lokakafli síðari heimsstyrjaldar var hafinn. Bandaríkjamenn voru fyrir löngu búnir að snúa vörn í sókn gegn Japönum og öllum mátti vera ljóst að það var bara tímaspursmál hvenær þeir knésettu keisaradæmið endanlega. Iðnaðarmáttur Bandaríkjanna var lykilatriði í velgengni þeirra. Ný herskip, sprengjuflugvélar og skriðdrekar streymdu á vígstöðvarnar en í Japan var allt í kaldakoli.
En Japanir brugðu sér þó hvorki við sár né bana. Þeir ætluðu að berjast til síðasta blóðdropa – bókstaflega! – fyrir ættjörð sína og keisarann. Á Okinawa höfðu Bandaríkjamenn sett á land ógrynni liðs sem strax í fyrstu atrennu var helmingi fjölmennara en japanska varnarliðið. Samt hvarflaði ekki að neinum japönskum dáta að gefast upp fyrir ofureflinu. Slíkt var talin þvílík vanvirða við heiður hugdjarfra Japana og skyldur að menn gengu glaðir til móts við dauða sinn frekar en að leggja niður vopn. Sú eina von sem keisaradæmið átti eftir var að harka varnarliðsins og kamikaze-árásir á skip innrásarliðsins myndu að lokum verða til þess að baráttuþrek Bandaríkjamanna minnkaði og þeir legðu á hilluna fyrirætlanir um innrás á japanska meginlandið.
Sjálfsmorðsárásir kamikaze-flugmanna frá japanska meginlandi voru einmitt sú helsta hætta sem steðjaði að bandarísku skipunum sem umkringdu Okinawa, því bæði japanski flotinn og hinn reglulegi flugher höfðu þegar verið gjörsigraðir. Og það var til að vara við kamikaze-flugvélum sem tveir bandarískir tundurspillar voru staddir um 60 kílómetra norðvestur af Okinawa á þessum fyrrnefnda maímorgni.
Tundurspillarnir hétu Lowry og Drexler, þeir höfðu öflugustu ratsjár sem Bandaríkjamenn réðu yfir og voru tilbúnir að senda fregnir af öllum japönskum flugferðum beint til herliðsins á Okinawa. Svo brá nú við í morgunsárið að ratsjár Lowrys og Drexlers greindu sex flugvélar sem stefndu á mikilli ferð á tundurspillana tvo. Það kom ekki á óvart, japanskar kamikaze-vélar réðust oft beint að ratsjárgæsluskipum. Áhafnir tundurspillanna bjuggust til varnar og kölluðu í skyndi til bandarískra orrustuvéla sem voru á varðflugi í nágrenninu. Japönsku vélarnar reyndust vera tveggja hreyfla Kawasaki Ki-45 orrustuvélar sem Bandaríkjamenn kölluðu Nick og voru mikið notaðar sem kamikaze-vélar á síðustu mánuðum stríðsins.
Það tókst orrusta, eins og svo oft. Á skammri stundu voru fjórar Kawasaki-vélar skotnar niður en ein náði að fljúga á fullri ferð á Drexler. Eldur braust út en tundurspillirinn tók að halla á stjórnborða en virtist þó ekki alvarlega skaddaður. Þá var aðeins ein kamikaze-vél eftir og hún smaug rétt yfir Drexler með tvær bandarískar Corsair-orrustuvélar á hælunum. Vélin var orðin verulega löskuð en á einhvern ótrúlegan hátt tókst flugmanninum að velta henni við í loftinu aðeins örfáa metra yfir sjávarmáli og skella síðan af öllu afli á aftari stromp Drexlers. Tundurspillirinn nötraði og á innan við mínútu steyptist hann á hvolf og sökk. Þetta gerðist svo hratt að mörgum úr áhöfn Drexlers auðnaðist ekki að sleppa frá borði heldur fóru niður með skipi sínu. Þar fórust 158 manns en 199 komust lífs af.
Það kom ekki í ljós fyrr en löngu seinna en bak við söguna af því þegar kamikaze-vélarnar sökktu Drexler var önnur saga, smærri í sniðum, vissulega, en á sinn hátt ekki síður átakanleg en örlög allra þeirra sem fórust með bandaríska tundurspillinum.
Og beinum nú athyglinni að einni kamikaze-vélinni. Kannski var það sú síðasta, sú sem varð banabiti Drexlers, en kannski var það ein af hinum sem hafði áður verið skotin niður. Við vitum það ekki. En hitt vitum við: Í flestum vélanna var aðeins einn flugmaður en í tveimur eða þremur var jafnframt loftskeytamaður, og í vélinni sem hér um ræðir hét loftskeytamaðurinn Hajime Fujii. Og það er af honum og konu hans og dætrum sem þessi saga er.
Fujii fæddist árið 1915. Hann var af bændafólki og foreldrar hans vonuðust til að hann myndi feta í fótspor þeirra. Fujii beit það hins vegar í sig að ganga í herinn. Á fjórða áratugnum færðust öfgafullir þjóðernissinnar í hernum sífellt í aukana í Japan og það varð metnaðarmál margra ungra manna að þjóna í hinum heilaga her, keisaranum til dýrðar. Hlýðni, harka og fórnarlund skyldu verða aðalsmerki japanska hersins sem sækja skyldi til sigurs um alla Asíu.
Árið 1931 byrjuðu Japanir að herja í Kína og þangað var Fujii mættur um tvítugt með stjörnur í augum yfir að fá að þjóna ættjörðinni. Þar særðist hann nokkuð illa á hendi og gat eftir það ekki valdið vopnum. Hann sneri því heim til Japans, flutti sig yfir í flugherinn og sá þar um að stappa stálinu í unga flugnema, blása þeim baráttuþreki í brjóst og kenna þeim þá algjöru hlýðni sem vígreifur hernaðarandinn krafðist. Og hernaðarandinn sprakk út þegar Japanir lögðu undir sig mikil lönd og margar eyjar á Kyrrahafi frá og með árinu 1941 og gengu á hólm við Bandaríkin.
Meðan Fujii lá á sjúkrahúsinu í Kína hafði hann kynnst ungri japanskri hjúkrunarkonu sem Fukoko hét. Þau gengu í hjónaband og það var mál manna að þau væru innilega ástfangin. Árið 1941 eignuðust þau dóttur sem skírð var Kazuko og 1943 aðra sem fékk nafnið Chieko. Enn herma heimildir að Fujii hafi þótt innilega vænt um dætur sínar.
En um það leyti sem seinni dóttir Fujiis kom í heiminn fór að halla undan fæti hjá Japan. Fujii hafði reyndar snemma byrjað að innræta flugnemum sínum að ef svo bæri undir í loftbardögum mættu þeir ekki hika við að skella vélum sínum utan í skip og aðrar vígvélar óvinarins og fórna þannig lífinu, það væri hreinlega skylda þeirra ef þeir sæju ekki önnur ráð til að sigra andstæðinginn. Og hann lét jafnan fylgja sögunni að sjálfur vonaðist hann til þess að fylgja þeim í dýrðardauða fyrir hina rísandi sól Japans.
En upp úr miðju ári 1944 voru Japönum flestar bjargir bannaðar. Fátt var eftir nýtilegra skipa og reyndir flugmenn týndu óðum tölunni. Flugvélar hins keisaralega flughers voru úrelt þing miðað við amerískar vélar sem fylltu himnana. Þá var farið að skipuleggja sjálfsmorðsárásirnar sem kenndar voru við hinn heilaga vind, kamikaze, og þær urðu reyndar hættulegasta vopn Japana þá mánuði sem eftir lifðu af stríðinu – fyrir utan þann ódrepandi baráttuanda að gefast aldrei upp.
Hajime Fujii var gerður að kennara í kamikaze-þjálfunarsveit. Sem fyrr var hans hlutverk að herða hina verðandi sjálfsmorðs-flugmenn í trúnni og kenna þeim að með hetjulund sinni og sjálfsfórn fyrir ættjörðina áynnu þeir sér eilífa dýrð í öðru lífi. Og ekki skorti sjálfboðaliða sem voru nógu gegnsósa af þeim rómantíska þjóðernisofsa, sem lengi hafði gegnsýrt japanskt þjóðfélag, til að stíga óhikað um borð í kamikaze-vélarnar og fljúga sínu hinstu ferð. Þar kom svo að Fujii vildi líka fá að ganga í sveitirnar og fórna lífinu fyrir herinn og keisarann. Honum mun hafa þótt ótækt að taka þátt í að senda æ fleiri unga menn af stað en geta ekki sjálfur fært hina æðstu fórn. Hann gat að vísu ekki stýrt flugvél vegna handarmeiðslanna en hann gat orðið loftskeytamaður sem fylgdu með í sumum kamikaze-vélanna.
Umsókn hans um að ganga í kamikaze-sveitirnar var hins vegar hafnað tvívegis. Honum var tjáð að hann hefði mikilvægu hlutverki að sinna sem hugmyndafræðilegur kennari ungu mannanna sem flugu kamikaze-vélunum, en einkum var bent á að hann ætti tvær ungar dætur og þær mætti ekki svipta föður sínum. Flestallir kamikaze-flugmennirnir voru um tvítugir, og ókvæntir og barnlausir. Fujii sagði sinni heittelskuðu Fukoko frá höfnuninni og virðist hafa harmað mjög hlutskipti sitt. Að minnsta kosti virðist hún hafa fengið samviskubit og ákveðið að leysa vandamál síns ástkæra eiginmanns með því að myrða dæturnar barnungu og svipti sig í leiðinni lífi.
Þetta var á nöturlegum vetrardegi í desember 1944 og Fukoko stökk út í kalda Arakawa-ána sem rennur um Tókíó og hafði bundið dæturnar fastar við sig. Hún skildi eftir sig bréf þar sem hún sagðist færa þessa fórn svo Fujii gæti orðið hamingjusamur í sinni væntanlegu sjálfsfórn sinni fyrir ættjörðina, og treysti því að þau myndu öll hittast hinum megin.
Öllum heimildum ber saman um að Fujii hafi harmað mjög andlát konu sinnar og dætra. Hann orti ljóð þar sem hann ávarpaði litlu stúlkurnar: „Þið dóuð með móður ykkar svo ég fái að gefa líf mitt fyrir land mitt … Ég er viss um að ég mun standa mig, svo kem ég til ykkar.“
Síðan skar Fujii í vísifingur sér og skrifaði með blóði sínu nýja umsókn um að fá að ganga í kamikaze-sveitirnar. Að þessu sinni var umsókn hans samþykkt.
Í fimm mánuði var Fujii í þjálfun fyrir sína hinstu flugferð. Ungu mönnunum í sveitinni fannst hann í senn hlýr og föðurlegur en þó einnig strangur og óhvikull í föðurlandsofsa sínum. Hann leyfði engum að efast um réttmæti fórnarinnar. En hann átti líka til að brosa og fara með notaleg gamanmál, það var eins og hann hlakkaði til að fá að fórna lífi sínu.
Svo fór hann í sína hinstu flugferð sem loftskeytamaður flugmannsins Akira Ogawa þann 28. maí 1945 og þeir flugu fram á tundurspillinn Drexler.
Og hvað? Er þetta falleg saga? Kannski alveg hrífandi? Fékk einhver tár í augun? Er þetta saga um ást út yfir gröf og dauða? Hrífst einhver af þeirri „fórn“ sem Fukoko færði er hún fórnaði dætrunum svo eiginmaðurinn gæti uppfyllt ættjarðarfórn sína?
Nei. Þetta er ógeðsleg saga. Fórn Fujiis var færð einstrengingslegum grimmdarköllum sem höfðu potað sér inn í stjórnkerfi Japans og höfðu kennt þjóðinni fasíska þjóðernisdýrkun til að halda völdum sínum. Hreint ekki ósvipaðir kallar ráða nú Íslamska ríkinu. Og fórn Fukokos var færð viðurstyggilegum heimskum manni sem hirti ekki um líf lítilla dætra sinna af því hann þurfti að deyja á altari grimmdar og ofbeldis.
Og hverju breytti þessi fórn? Í tíu þúsund kílómetra fjarlægð frá Okinawa, í smáþorpum og stórborgum Bandaríkjanna, stungu 158 póstburðarmenn dapurlegum bréfum frá flotanum niður í töskur sínar og töltu með þau til eiginkvenna eða foreldra 158 sjóliða; í Japan var ástvinum kamikaze-flugmannanna tilkynnt að þeir hefðu dáið hetjudauða í þágu keisara og ættjarðar og dýrð þeirra myndi aldrei gleymast. Annað gerðist ekki. Árásin á tundurspillinn Drexler skipti engu máli. Nýr tundurspillir var bara sendur á ratsjárvaktina. Bardagarnir á Okinawa héldu óhikað áfram. Enn krepptist að Japönum, þótt þeir beittu óbreyttum íbúum eyjarinnar óspart og miskunnarlaust fyrir sig í vörninni. Mánuði síðar lognaðist varnarliðið á Okinawa út af. Það var eiginlega enginn eftir, meira en 100.000 manns höfðu fallið. 12.000 Bandaríkjamenn féllu og fjölmargir særðust. Þúsundir dáta voru hroðalega farnir á sálinni. Okinawa sem verið hafði fögur og gróðursæl hitabeltiseyja var nú blóðugt drullusvað, alþakið brunnum líkamsleifum. Og Truman Bandaríkjaforseti heimilaði notkun atómsprengjunnar ekki síst til að koma í veg fyrir annað eins blóðbað við innrás á japanska meginlandið.
Athugasemdir