Síðustu vikur hafa verið rosalegar þegar kemur að opinberum óheilindum. Skíturinn hefur flotið upp á öll möguleg yfirborð, á drullupollum, stórsjóm og stöðuvötnum, og almúginn haft unun af því að sjá stórskotaliðið rekið á gaddinn. Aflandsfélög eru tískan í dag eftir þennan umtalaða leka og allir sem hafa hærri en 700.000 króna mánaðatekjur virðast sjá sig knúna til þess að sverja af sér nokkur tengsl við slík félög. Og slatti af þeim þarf svo að éta það ofan í sig aftur. Vegna þess að fólk segir ósatt.
Eltingaleikurinn við forsætisráðherrann okkar fyrrverandi þarna um daginn var rosalegur. Á hann voru bornar sakir í stórkostlegu viðtali, sakir sem strangt til tekið voru ekki vegna brots á lögum heldur vegna einhvers sem hægt væri að kalla grófa aðför að siðferðinu. Og hann neitaði, alveg blákalt. Í framhaldinu fór slíkur flaumur af lygum og kjaftæði frá manninum að maður fékk sömu tilfinningu og við að horfa á Ligeglad. Svona vonleysiskjánahroll sem verður til þegar annað fullorðið fólk ætlast til þess að maður trúi hverju sem er og verður þá sjálft á svipinn eins og leikskólabarn sem neitar því að hafa skitið í buxurnar enda þótt lyktina liggi um allt og saurtaumurinn sé kominn niður undan skálminni og út á gólf. Athugið að ég er ekki að tala um túlkunaratriði á nokkrum sköpuðum hlut heldur hlutina sem voru á óyggjandi hátt lygi. Nú jæja, nokkrum dögum seinna er það mesta blásið yfir, mannuglan búinn að færa sig til í starfi og farinn í frí. Sjálfsagt verða afleiðingarnar einhverjar fyrir hann, bæði vegna breytinga á áliti sem svona umtal hefur og eins ef hann verður fundinn sekur um eitthvað. Ég veit ekkert hvernig þau mál standa, ég hef engan sérstakan áhuga á því. Ég veit ekki hvort hann braut lög eða hvernig tekið er á svona málum. En ég veit að hann laug. Hann sagði ósatt. Wintris, hét það það ekki? Hann bullaði bara eitthvað djöfulsins kjaftæði um það og sagði allskonar hluti sem voru lygi. Og má það bara?
„Svona vonleysiskjánahroll sem verður til þegar annað fullorðið fólk ætlast til þess að maður trúi hverju sem er.“
Forsetinn okkar sagði okkur um daginn að hvorki hann né konan hans tengdust svona félögum. Það var lygi. Það var sem sagt ósatt. Hann sagði okkur eitthvað sem að hann vissi að var ekki satt. Eftir á segjast þau svo ekki hafa vitað af því, sem er taktík sem margir virðast nota. Bara að segjast ekki vita. Það er ekki séns í heitasta helvíti að fólk á þessu kaliberi viti ekki að þau séu tengd inn í svona lagað, sér í lagi þegar það sér sig knúið til að lýsa því yfir að svo sé ekki. Það er alveg klárlega ekkert mál að komast að því hvort maður er tengdur í svona félag og ef þú ætlar að lýsa því yfir að þú sért það ekki þá skaltu vera 100% viss um að svo sé. Þú athugar það fyrirfram því þetta skiptir heilmiklu máli. Sem sagt, lygi.
Við erum búin að sjá svo ótrúlega mörg svona mál undanfarið, og auðvitað gegnum tíðina, að það er stórkostlegt. Og ekkert bara hér á Íslandi auðvitað og ekkert bara nýlega heldur í gegnum mannkynssöguna alla. Clinton og vindillinn er eitthvað sem mér flýgur í hug bara svona meðan ég hamra þetta inn í tölvuna. Bill sagði heiminum að hann hefði ekki gert neitt dónó með Monicu. Það var lygi og hann varð að segja okkur það þegar upp var staðið. Lance Armstrong hjólaði á sterum í mörg ár og laug síðan eins og hann mögulega gat til að sleppa úr klípunni. Ég hef ekki pláss til að tína fleira til en þið skiljið inntakið, ég er að tala um yfirgripsmiklar lygar sem snerta hagi og tilfinningar margra. Sumt er beinlínis ólöglegt, annað ekki, fyrir sumt er refsað og annað ekki. Ég er ekki að tala um það, ég er ekki að leggja dóm á alvarleika hvers máls. Ég er að tala um aðgerðina sjálfa, að ljúga. Við kunnum ekki að taka á henni og það er bagalegt.
Þegar við náum að reka lygar ofan í fólk við svona aðstæður verðum við bara ofboðslega góð með okkur. Við blásum út um nefið og berjum okkur á lær, segjum næsta manni að við höfum nú auðvitað vitað þetta allan tímann, þetta sé nú alveg fáránlegt og óafsakanlegt. Sá sem laug tekur svo afstöðu til þess hvort hann/hún beinlínis gengst við því að hafa logið eða ekki. Og svo er það bara búið. Við erum kannski eitthvað pínulítið nær sannleikanum og skíturinn á yfirborðinu gerir lygalaupunum kannski erfiðara með að synda í land. Nú eða ekki. En af hverju tökum við ekki sérstaklega á því að einhver vogi sér að segja okkur viljandi ósatt? Berum þetta til að mynda saman við hjónaband. Þar eru lygar stórmál. Auðvitað skiptir heilmiklu máli hverju verið er að leyna eða hagræða, hvaða flétta er búin til og hversu alvarlegt brotið er sem oftast er tilefni lyganna. En lygarnar sjálfar eru helmingurinn af öllu saman og þar liggur stór hluti brotsins. Lygar eru lygar og sá sem lýgur er að gera lítið úr þeim sem hann lýgur að. Djöfull er fokking svekkjandi að það sé ekki sjálfsagt að refsa fyrir það.
Það er löglegt að ljúga og þess vegna ljúga þessir skítablesar að okkur oft á dag. Ef upp um lygarnar kemst er það ekki svo mikið mál og svo fer maður bara í frí. Helvítis!
Athugasemdir