Í morgun bárust þau tíðindi að fjölskylda sem sótti í skjól hér á landi hafi verið rekin af landi brott í nótt. Að næturlagi var þetta fólk rekið burt frá heimili sínu, skóla, vinnu, vinum og lífi. Látum liggja á milli hluta sú staðreynd að þessi fjölskylda var „sjálfbær“, faðirinn vel liðinn í starfi með góðan stuðning frá yfirmanni og vinnufélögum. Í sjálfu sér er það aukaatriði. Það sem skiptir máli er að með þessu er íslenska ríkið að níðast á börnum! Annað barnið er þriggja ára drengur, Kevi, sem glímir við lífshættulegan slímseigjusjúkdóm. Hér fær hann lyf við sjúkdómnum en í nótt var hann sendur út í óvissuna með mánaðarskammt af lyfjum.
Í febrúar árið 2013 var lögfestur Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Sáttmálinn hefur því lagalegt gildi hér á landi. Að ekki sé minnst á siðferðilegt gildi hans. Eitt mikilvægasta efnisatriði sáttmálans er vernd barna. Sáttmálinn hefur fjórar grundvallarreglur sem meðal annars fela í sér bann við mismunun og rétt til lífs. Að senda langveikt barn, með lífshættulegan sjúkdóm út í óvissuna er þvert brot á þessu.
„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang“
Í annarri grein sáttmálans segir að „aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi“ sem samningurinn kveður á um. Síðar í sömu grein er enn fremur skýrt kveðið á um að ekki megi mismuna börnum á grunndvelli uppruna (þar með talið þjóðerni) eða annarra aðstæðna barnsins. Einnig er kveðið á um að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að barni sé „ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess“. Í þriðju grein segir svo: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“
Litli drengurinn Kevi var sannarlega í lögsögu íslenska ríkisins.
Í tilvitnunum hér að ofan er talað um börn sem eru í lögsögu aðildarríkisins Íslands. Litli drengurinn Kevi var sannarlega í lögsögu íslenska ríkisins. Níðingsverkið, að flytja þennan dreng og fjölskyldu hans af landi brott var framkvæmt af stofnunum ríkisins sem eiga samkvæmt sáttmálanum að setja velferð hans í forgang.
Maður er allt í senn hryggur og reiður yfir níðinsskap íslenska ríkisins. Hvers vegna kýs íslenska ríkið að þverbrjóta Barnasáttmálann?
Athugasemdir