Ég veit ekki hvað það stoðar að skrifa enn einn pistilinn um ömurlega stöðu kynferðisbrotamála í íslensku dómskerfi. En réttarkerfið virðist telja það sjálfsagt að túlka þögn kvenna sem samþykki, svo mér er nauðugur einn kostur að lýsa því yfir að ég mótmæli.
Ég þarf alveg áreiðanlega ekki að segja ykkur neitt um brotalömina sem blasir við. Þið hafið heyrt tölfræðina um frávísun og sýknu og þið hafið öll lesið fréttir af þolendum sem fá á sig kærur fyrir að reyna að leita réttar síns í kvenfjandsamlegu kerfi. Flest okkar hafa líka lesið um mál sem er vísað frá, þrátt fyrir mikla áverka, því þeir teljast geta samræmst „harkalegu kynlífi“. Og þið hafið alveg ábyggilega líka lesið um málin þar sem bæði gerandi og þolandi voru karlkyns og þá virðist einhverra hluta vegna miklu léttara að sakfella. Svo sáuð þið kannski að Stígamót eru alvarlega að íhuga að hvetja konur til þess að kæra ekki, því það sé ekki þjáninganna virði. Og vissuð þið ekki örugglega að í reglubundinni yfirferð Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna voru gerðar alvarlegar athugasemdir við væga dóma og fáar kærur í kynferðisbrotamálum hér á landi? Meðal ríkja sem lýstu áhyggjum sínum voru Bandaríkin, Ísrael, Afganistan og Íran.
Dómskerfið er ónýtt þegar kemur að kynferðisbrotamálum.
Stór hluti þjóðarinnar er hættur að treysta dómskerfinu í kynferðisbrotamálum. Þó nokkrir eru farnir að leita annarra leiða til að ná fram einhvers konar réttlæti. Ég get ekki sagt að ég sé því hlynnt, en ég skil alveg ástæðurnar. Dómskerfið er ónýtt þegar kemur að kynferðisbrotamálum. Og það að fólk taki málin í sínar eigin hendur sýnir hvað staðan er alvarleg. Það eitt og sér ætti að nægja til þess að yfirvaldið fari í almennilega naflaskoðun og geri eitthvað.
Ég veit það er til siðs að enda svona pistla á einhverju hnyttnu, en mér dettur bara ekkert sniðugt í hug um það hvernig réttarkerfið á Íslandi tekur á kynferðisbrotum svo ég enda þennan bara á punkti.
Athugasemdir