Í fyrrahaust, ekki langt frá Mývatni, sat ég úti í kyrrðinni á heiðskírum haustmorgni og hugleiddi í morgunsárið, heillaður af þeirri ró sem Ísland er þekkt fyrir. Fljótlega keyrði rúta í hlað og út kom stór hópur af kínverskum ferðamönnum sem raskaði friðinum. Hjörð ferðamanna fór af stað og um leið hófust menn handa við að taka hinar nauðsynlegu sjálfsmyndir með meðfylgjandi masi og skrækjum. Fimmtán mínútum síðar var hjörðin farin, ekki án þess að menga hreinleika andrúmsloftsins sem ríkt hafði áður.
Íslenskur vinur minn, viðkvæm sál úr dreifbýlinu, hristi höfuðið af vantrú. Hann var sorgmæddur, því þetta var aðeins fyrsti farmur af ferðamönnum dagsins og rútínan átti eftir að endurtaka sig margsinnis á næstu klukkustundum. Því nú er Ísland komið á „tékklista“ hjá milljarði manna um heim allan.
Nokkrum dögum áður fórum við í skoðunarferðir á afskekkta staði á hálendi Íslands, þar sem ruslahrúgur lágu á víðavangi. Það olli okkur hugarangri í þann fjölda skipta sem við komum við auga á rusl á þeim stöðum þar sem á að vera óspillt náttúra. Á hótelinu mínu í Grindavík var ég vitni að því þegar hávær ferðamannahópur við morgunverðarhlaðborð, dýfði fingrum sínum beint ofan í smjörið. Ruddagangurinn sem nú er í Keflavík líkist helst óþægilegri rútustöð í þriðja heims ríki. Ekki einu sinni þau forréttindi að vera á Saga Class hjá Icelandair kemur þér frá þessu - illa farnir salir, skítug salerni og sinnulaus þjónustan einkenndi þá reynslu. En hverjum er ekki sama svo lengi sem peningurinn flæðir inn í landið? Hvernig komst Ísland á þennan stað?
Þetta er ekki lengur Ísland sem ég varð ástfanginn af fyrir áratugum síðan og helgaði mér því að verkefni að ljósmynda landið. Gullni hringurinn er ekki lengur gylltur heldur líkist heldur ryðguðum hring þar sem hjarðir af ferðamönnum fara til að merkja við áfangastaðina á tékklistanum sínum. Jökulsárlón er eins og dýragarður fullur af drónum og fólki. Á sumrin er fleira fólk en álfar á Mývanti. Ástand sem eyðileggur hina íslensku einveru?
Fyrir mér snerist ferðin um að fljúga til landsins, taka nægilegt magn af ljósmyndum og koma mér sem hraðast burt.
Ég tileinkaði miklum tíma í að læra um Ísland, sögu landsins, þjóð og menningu. Ég get lesið og borið fram íslensk orð, ekki eins og innfæddur en nóg til að bjarga mér. Að verða vitni að eyðileggingu landsins, breytingu viðhorfs, og grundvallarbreytingum- á verri veg- þar sem fólk missir eldmóð fyrir landinu. Mér líður eins og það sé sé verið að brjóta gegn landinu. Það sem var eitt sinn opið samfélag með einstaklega vingjarnlegu fólk virðist hafa breyst á verri veg.
Ég hef þetta gerast áður. Ég er fæddur og uppalinn í Goa, á Vesturströnd Indlands, eitt sinn kyrrðarstaður, núna eyðilagt af ferðamönnum og ólíkt restinni af Indlandi. Þar tók ekki langann tíma að breyta paradís í mýri. Ég er hræddur um að sama muni gerast á Íslandi. Það versta á eftir að koma. Bíðið bara þangað til Indverjar og Kínverjar munu uppgötva Ísland (reyndar hafa Kínverjarnir þegar gert það).
Getur ferðaþjónustan dregið vöxt sinn til baka og haft hemil á honum? Ég er hræddur um að svarið sé nei. Hinir öflugu fjárhagslegu hvatar þeirra sem hagnast af núverandi ástandi munu koma í veg fyrir allar tilraunir til að draga úr vexti ferðaþjónustunnar. Ef eitthvað er, mun Icelandair vilja koma með enn fleiri með hverju árinu sem líður.
Það er ein leið, aðeins ein leið fyrir Ísland og hún er ekki falleg. Hún myndi koma með harðæri fyrir fjöldann allan af Íslendingum. Munið að það var eldgosið í Eyjafjallajökli sem var upphafið af uppgang ferðaþjónustunnar. Annað eldgos (Katla?) getur stöðvað uppganginn. En styrkur eldgossins þarf að vera nákvæmlega sá rétti - nógu kröftugur til að stöðva ferðamennina en ekki svo öflugur að hann hætti lífi heimamanna.
Þannig að, mun Katla koma Íslandi til bjargar? Vilja Íslendingar bjarga Íslandi?
Athugasemdir