Ég held að ég hræðist ekkert meira í lífinu en að vera eins og allir hinir. Að standa ekki á nokkurn hátt út úr og hafa enga sérstöðu. Vissulega gekk ég gegnum þann hluta uppvaxtaráranna að vilja tilheyra einhverjum hópi og vera samþykktur. Ég fékk meira að segja örlítið að kenna á einelti, sem hét það vitanlega ekki þá. Þótt það stæði ekki yfir í mörg ár og væri ekki alvarlegt í samaburði við sögur annarra þá skildi það samt sem áður eftir spor. En þessi spor hertu mig eiginlega í raun heldur en hitt. Mig langar ekki að vera ósýnilegur. Mig langar ekki að gera hlutina eins og allir hinir. Og ég þarf þess ekki.
Straumar hins daglega lífs okkar allra stefna að því að færa okkur á sama staðinn. Og ekki ekki bara það heldur skulum við öll vera í sömu fötunum á meðan, horfa á sömu sjónvarpsþáttaseríurnar gegnum sömu gleraugun, vera eins vaxin og segja sömu hlutina, kjósa sömu flokkana og borða sama matinn. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem vel er gert og þess vegna er ekkert óeðlilegt að margir horfi á sömu bíómyndina, að því gefnu að hún gefi okkur eitthvað skemmtilegt. En það er þetta með að fylgja í blindni. Það skil ég ekki.
„En já. Ég var aumingi. Af hverju? Vegna þess að ég var með alla heimsins drauma í töskunni og gerði ekkert við þá.“
Fyrir nokkrum árum gekk ég frekar reglulega til sálfræðings, manns sem hreinlega bætti líf mitt margfalt. Ég hafði áður reynt í slagtogi við foreldra mína að tækla skammdegisdraugana en allir sérfræðingarnir sögðu mér að fara heim, drekka vatn, fara út að hlaupa og snemma að sofa, þá yrði allt betra. En ekki Trausti. Nei. Trausti sagði mér fyrst og fremst að ég væri aumingi. Ok, nei, ekki fyrst og fremst. Hann gerði mjög margt gott og svona venjulegt sálfræðingastöff sem sennilega gerði mjög mikið gagn. En, já. Ég var aumingi. Af hverju? Vegna þess að ég var með alla heimsins drauma í töskunni og gerði ekkert við þá. Og af hverju ekki? Vegna þess að ég hélt að enginn nennti að hlusta. Eða réttara sagt, ég hélt að mér væri ekki stætt á að setja svona mikla orku í draumana vegna þess að þeir væru öðrum ekki nógu þóknanlegir.
„Eina leiðin til að fá einhverja peninga út úr tónlist er að stofna svona ballhljómsveitir og mér finnst svoleiðis svo hrikalega leiðinlegt.“
Þetta er svona sirka það sem ég hef örugglega sagt við hann. Og hann þá til baka:
„Bibbi. Hvað í helvítinu er að þér? Fyrir það fyrsta, hvernig geturðu ákveðið það þegar þú hefur ekki prófað, og í öðru lagi, hvaða helvítis máli skiptir það?“
Svona sirka.
Ég hef aldrei verið í ballhljómsveit á ævinni. Ég spila næstum aldrei lög eftir aðra og ég fæ ekkert út úr því. Ég er ekkert að tala niður fólk sem gerir það og gerir það vel en ég er mögulega að tala fólkið niður sem gerir það á vitlausum forsendum. Auðvitað er alveg næs að eiga pening og ég er alveg nógu góður tónlistarmaður og með nægt innsæi til þess að fara fyrir svona blöðrupoppshljómsveit sem myndi slá í gegn. Þetta hljómar kannski eins og grobb en ég er frábær í þessu. Mér finnst þetta bara ekki gaman nema á mínum eigin forsendum og þess vegna sleppi ég því. En ég veit ekkert betra en að gera tónlist á mínum eigin forsendum. Og svo kemur auðvitað í ljós þegar reynt er á að Trausti hefur alltaf rétt fyrir sér. Gerðu hlutina og gerðu þá vel og þá vill fólk vera með. Ég stofnaði drykkjuband með 8 af mínum bestu vinum fyrir 10 árum síðan. Við erum enn starfandi í okkar upprunalegu mynd og höfum aldrei verið vinsælli en nú. Ég stofnaði þungarokksband sem svona fljótt á litið hefði ekki átt að eiga séns á almennum vinsældum. Enda var það svo sem aldrei meiningin. En núna sit ég úti í hljómsveitarrútunni eftir afar vel heppnaða tónleika í Bologna á Ítalíu meðan fjórða platan okkar er sú söluhæsta heima á Íslandi.
Aftur, auðvitað hljómar þetta allt eins og grobb. En það er ekki meiningin með þessu. Meiningin er sú að við verðum, hvert okkar og eitt, að gera hlutina sem við sjálf viljum gera. Og þá kemur eitthvað gott úr úr þeim. Þvert á þetta allt saman er ég svo að vinna dagvinnu á auglýsingastofu, PIPAR\TBWA, og reyni þar alla daga að sannfæra fólk um hitt og þetta. Af hverju geri ég það? Af því að mér finnst það gaman. En ég er vissulega skrýtni gaurinn á vinnustaðnum. Galdurinn þar innanhúss er hins vegar sá að þar er skilningur fyrir þessu og mismunur fólks upphafinn. Og þess vegna langar mig að vinna þar þangað til ég verð gamall eða þar til eitthvað annað stórvægilegt breytist. Ég vil geta setið með settlegri konu klæddri dýrum fötum frá hönnuði sem ég hef aldrei heyrt nefndan, í slitnu hermannakvartbuxunum mínum og unnið með henni á jafningjagrundvelli að einhverri snilld. Af því að hún er líka að gera nákvæmlega það sem hennar hjarta segir henni að gera.
Ég á aldrei eftir að stofna vinsældapoppband. En ég hef ásett mér að ná árangri með allt sem ég geri engu að síður. Ég stofnaði nýtt band um daginn, svona sambræðing af hörðu rokki og rappi, sem kom flatt upp á fólk. Sumir urðu brjálaðir, aðrir hoppandi glaðir. Frábært.
Gerum það sem við viljum, krakkar. Við öll. Heimurinn verður svo miklu fallegri staður með því móti.
Athugasemdir