Það er rangt að mótmæla við heimili fólks og eðlilegt að margir mótmæli því að nokkrir einstaklingar mótmæltu við hús Bjarna Benediktssonar í Garðabænum í gær.
Mótmælendurnir voru meðal annars kallaðir „hálfvitar“ og „viðbjóðslegt lið“ fyrir að velja þennan stað til að mótmæla. Flestir eru nefnilega sammála því að láta heimili stjórnmálamanna vera og halda sig við Alþingi.
Hérna er samt óþægilegt samhengi: Fram hefur komið að Bjarni Ben fjármagnaði húsið fyrir peningana sem hann fékk þegar hann seldi hlutabréf í Glitni í febrúar 2008. Þá var hann í sérstaklega góðri aðstöðu til að búa yfir innherjaupplýsingum, bæði á vettvangi stjórnmála, sem fulltrúi almennings, og viðskipta.
Það mátti sjá af Vafningsfléttu Bjarna, félaga og ættingja, sem snerist um að ná 30 milljörðum út úr Glitni og tryggingafélaginu Sjóvá til að bjarga aðilum tengdum Bjarna, í sama mánuði og hann seldi hlutabréfin í Glitni. Í febrúar 2008 vissi Bjarni að erlendir bankar höfðu miklar áhyggjur af íslenska efnahagskerfinu og íslensku bönkunum og að þeir vildu ekki fjármagna þá. Þá losaði Bjarni sig við hlutabréfin sín í Glitni.
Það mátti líka sjá af fundi Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra með Geir Haarde forsætisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Árna Mathiesen fjármálaráðherra, þar sem Davíð varaði við stöðu bankanna, líka í febrúar 2008, þann sjöunda. Í það minnsta hafði Bjarni vit á því að selja 126 milljóna króna virði af hlutabréfum þegar margir aðrir höfðu það ekki, meðal annars vegna þess að flokksbræður hans kepptust við að segja að allt væri í himnalagi.
Á meðan annað fólk sá bara skuggamynd af því sem gerðist sat Bjarni á fremsta bekk, með annan fótinn uppi á sviðinu.
Í mánuðinum eftir að Bjarni seldi, til að fjárfesta í steinsteypu, settu íslenskir lífeyrissjóðir 11 milljarða í Glitni í skuldabréfaútgáfu og töpuðu þeim öllum.
Sama dag og fámennið mótmælti við hús Bjarna í Garðabænum sendi hann frá sér skilaboð til umheimsins í tísti, á verkalýðsdaginn: „Vandinn við sósíalisma er að á endanum klárar maður peninga annars fólks.“
Eftir Vafningsfléttu Bjarna, fjölskyldu og félaga, þurfti ríkið að yfirtaka Sjóvá og fleiri fyrirtæki í þroti. Þetta endaði þannig að Bjarni fékk það hlutverk að stofna félag til að selja ríkiseignir. Félagið, sem Bjarni er á endanum yfir, mun selja hlut ríkisins í Sjóvá. Þannig tekur Bjarni bæði þátt í því að setja Sjóvá á hausinn, þannig að peningar annarra fara í að grípa það, og svo selja það aftur fyrir hönd okkar hinna.
Sum hús eru byggð úr öðru efni en flest önnur. Það er rangt að mótmæla við heimili fólks, en það segir ekki að það sé ekki almennt efni til að mótmæla.
Athugasemdir