Eitt af því mörgu skemmtilega sem EM hafði í för með sér var að við urðum ótrúlega mörg fótboltasérfræðingar og gott ef ekki íþróttafréttamenn með vit á öllum hlutum. Íþróttafréttamaðurinn í mér skrimtir enn og settist nú við og spekúleraði í hvaða möguleikar væru á framhaldi ævintýrisins á EM, það er að segja hvort við eigum möguleika á að komast á næsta stórmót, HM í Rússlandi eftir tvö ár.
Þá þurfum við að slá í gegn í ansi erfiðum riðli þar sem keppinautar okkar eru Króatía, Tyrkland, Úkraína, Finnland og Kosovo.
Þjóðirnar sem taka þátt í lokamótinu 2018 eru 32. Auk Rússa munu 13 Evrópuþjóðir taka þátt, 5 Afríkuþjóðir, 4 Asíuþjóðir, 3 Norður-Ameríkuþjóðir og 4 Suður-Ameríkuþjóðir. Þá eru eftir tvö sæti sem Asía, Ameríkurnar tvær og Eyjaálfa munu berjast um. Evrópumenn eru stundum svolítið súrir yfir því að fá ekki fleiri sæti þar sem sterkustu fótboltaþjóðir heims eru enn langflestar frá Evrópu. Á síðasta stigalista FIFA fyrir EM í Frakklandi voru Evrópuþjóðir í 13 af 20 efstu sætunum. Stigahæsta Asíuþjóðin birtist ekki fyrr en í 39. sæti (Íran) svo það virðist kannski ekki beinlínis sanngjarnt að Asíuríki gætu orðið meira en þriðjungur Evrópuþjóða. En flestir munu þó sammála um að miklu skemmtilegra og í raun réttlátara frá ýmsum sjónarmiðum sé að veita þjóðum í öðrum heimshlutum aukin tækifæri.
En þetta þýðir að margar öflugar Evrópuþjóðir munu sitja heima. Alls keppa 54 þjóðir um sætin 13 sem Evrópa fær í sinn hlut. Keppt er í níu sex þjóða riðlum og aðeins efsta sætið tryggir farseðil á HM. Þær átta þjóðir sem ná bestum árangri í öðru sæti fara í umspil og keppa um fjögur sæti. Annað sæti í riðli dugar sem sé ekki endilega til að komast í umspil og því munu allar þjóðirnar keppast um að ná efsta sætinu í sínum riðli. Og ýmislegt gæti gengið á. Í A-riðli eru til dæmis bæði Frakkland og Holland, í B-riðli Portúgal og Sviss, í C-riðli Þýskaland og Tékkland og í G-riðli Ítalía og Spánn. Það verður eitthvað.
Í okkar riðli er ekkert af hinum hefðbundnu stórveldum Evrópuboltans, en það þýðir þó ekki að riðillinn sé léttur. Sigurstranglegasta liðið hlýtur að teljast vera Króatía sem á mjög öfluga einstaklinga, svo sem Modric, Rakitic og Perisic. Króatar byrjuðu EM bráðvel, spiluðu flottan fótbolta og unnu til dæmis Spánverja en voru svo undarlega bitlausir gegn Portúgal í 16 liða úrslitum og duttu út eftir vítaspyrnukeppni. Úkraína og Tyrkland voru bæði á EM – og riðillinn okkar er reyndar eini undanriðillinn þar sem er að finna fjórar þjóðir sem komust á EM. Það sýnir bara hve sterkur riðillinn er. Þótt bæði Úkraínumenn og Tyrkir hafi valdið vonbrigðum á EM eru þetta mjög flinkar þjóðir sem við getum vel tapað fyrir – en eigum líka að geta unnið á góðum degi. Markmiðið hlýtur að vera að vinna þær heima og tapa ekki á útivelli. Þótt Finnar séu mun öflugri en flestir telja, þá er markmiðið auðvitað að vinna þá bæði tvöfalt og náttúrlega Kosovo-menn líka, þótt þeir verði sýnd veiði en ekki gefin. Kosovo vann til dæmis Færeyjar 2-0 í byrjun júní.
Fyrsti leikur hins nýja Íslands sem fótboltastórveldis (en án Lars Lagerbäck) verður við Úkraínu í Kíev þann 5. september. Í byrjun október verða svo tveir næstu leikir og báðir á heimavelli. Þeir eru gegn Finnlandi og Tyrklandi. Í þessum leikjum gæti gengið mikið á – og spurning hvort KSÍ gerir ráðstafanir til að koma að fleiri áhorfendum? Nokkuð víst er að þá verði hægt að fylla Laugardalsvöllinn tvisvar, þrisvar sinnum.
Fjórði og síðasti leikurinn í haust verður svo gegn Króatíu í Zagreb þann 12. nóvember. Augljóst má vera að ef Ísland nær að minnsta kosti jafntefli í útileikjunum tveimur en vinnur heimaleikina, þá verður liðið okkar í fyrsta eða öðru sæti riðilsins – og í fínni stöðu í riðlinum. Svo verður spilað við Kosovo í mars, og hafi liðið byrjað vel í þessum leikjum, þá ætti KSÍ að minnsta kosti að gera sitt ítrasta til að fjölga áhorfendum á sjötta leikinn okkar þann 11. júní 2017. Þá mæta Króatar á Laugardalsvöll og gæti orðið einn af úrslitaleikjum riðilsins um sæti á HM 2018. Takið daginn frá.
En svo er það auðvitað spurning hvort við ættum nokkuð að vera að heiðra Pútin með nærveru okkar!
Athugasemdir