Í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni hitti ég roskinn mann sem sagðist hafa kosið í fyrsta sinn í þingkosningunum 1963. Hann hefði aldrei verið í vandræðum með hvað hann ætti að kjósa. Núna í mánaðarlok ætlaði hann hins vegar í fyrsta sinn á kjörstað og skila auðu.
Af hverju? spurði ég.
Af því það er sami rassinn undir þessu hyski öllu, sagði maðurinn, þótt hann orðaði það að vísu ekki þannig, heldur ívið kurteislegar. Honum var samt mikið niðri fyrir. Hann sagði mér að eftir að hafa borgað í lífeyrissjóð í fimmtíu ár fengi hann nú 190 þúsund krónur á mánuði í lífeyri – fyrir skatt.
Og það ættu allir flokkar og allir stjórnmálamenn á Alþingi sinn þátt í að hafa skapað það ástand. Því gæti hann ekki hugsað sér að kjósa neinn þeirra. Lengst sagðist hann hafa treyst á Steingrím J. Sigfússon. En þegar Steingrímur hefði breyst í argasta kjördæmapotara hálfu ári fyrir síðustu kosningar í stað þess að böðlast áfram fyrir alþýðuna alla, þá hefði trú hans á Þingeyinginn knáa farið veg allrar veraldar.
Og því ætlaði hann sem sé að skila auðu.
Ég spurði hvort hann gæti ekki hugsað sér að kjósa eitthvað nýtt framboð, sem ætti engan þátt í hvernig komið væri. Gætirðu ekki kosið Pírata til dæmis? spurði ég.
Neeeei, sagði hann. Þá fer nú allt þingið í tómt rugl.
Þá hló ég nú bara. Það hafa aðrir en Píratar hingað til reynst fullfærir um að hleypa öllu í rugl á Alþingi.
En sjónarmið mannsins í pottinum er að líkindum ekki einsdæmi. Á Facebook sér maður stundum að fólk er orðið örmagna eftir pólitíska þvælu undanfarinna missera. Og hvað eigum við nú eiginlega að kjósa um? spurði maður nokkur lúinn í fasi í gær.
En það er raunar einfalt hvað á að kjósa um. Einmitt í gær birtist á vefritinu Kjarnanum prýðileg samantekt um hvert hann er að fara sá efnahagsbati sem orðið hefur vart hér á landi síðustu ár.
Og niðurstaðan er einföld. Efnahagsbatinn er að stærstum hluta að fara til hinna ríku. „Fjórar af hverjum tíu krónum sem verða til af nýjum auði á Íslandi fara til ríkustu tíundar landsmanna, alls 20 þúsund manns. Samanlagt á ríkasti fimmtungur landsmanna 87 prósent af öllu eigin fé.“
Sem sagt: hinir ríku eru að vera ríkari og ekki nóg með það, heldur er hér að verða til yfirstétt hinna ofsaríku sem mun – ef svo fer fram sem horfir – verða svo stöndug að við henni verður ekki hróflað framar. Börnin mín munu fá það hlutverk í lífinu að keyra áfram samfélagið sem vinnuþrælar fyrir jafnaldra sína, börn hinna ofsaríku. Í það stefnir og þannig verður það fyrr en síðar ef við spyrnum ekki við fæti – og strax í kosningunum nú eftir fáeinar vikur. Það stefnir í samfélag meira og afdrifaríkara misréttis en nokkru sinni síðan – ja, síðan hvenær? Ég efast um að stórlandeigendur 14. aldar hafi einu sinni haft mikla yfirburði yfir pöpulinn og nú stefnir í.
Það skiptir því máli að kjósa og það skiptir máli hvað kosið er. Öll verk Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hafa reynst vera hagstæðust þeim sem betur mega sín. Öll þeirra verk, hvert og eitt einasta.
Verið því ekki sauðtryggir þjónar auðgreifanna, beint eða óbeint. Af hverju á alþýðufólk að kjósa flokka sem moka gulli frá okkur í hirslur sægreifa og auðróna? Farið og kjósið – alla nema þessa tvo núverandi ríkisstjórnarflokka. Kjósið Pírata, ruglið er sannarlega ekki þeim að kenna og þeir hafa margt gott fólk og góðar hugmyndir. Kjósið Samfylkinguna, sem hvað sem öðru líður er jafnaðarmannaflokkur. Kjósið VG, hvað sem líður Steingrími! Kjósið Bjarta framtíð, sem einn flokka kaus á móti búvörufrumvarpinu vonda. Kjósið Viðreisn, ef þið treystið því að flokkurinn ætli ekki strax í samflot við íhaldið. Kjósið eiginlega allt – nema ríkisstjórnarflokkana. Því þeir hafa sýnt svo skýrt síðastliðin þrjú ár fyrir hverja þeir vinna.
Og þeir eru ekki að vinna fyrir okkur. Ekki fyrir börnin okkar.
Farið því og kjósið. Börnin okkar eiga ekki að verða vinnudýr auðrónanna.
Athugasemdir