Í apríl á síðasta ári eignaðist ég barn með miklum harkalegheitum. Ekki að það hafi haft neitt með typpið á mér að gera, nema bara þarna nokkrum mánuðum áður, en aðstæður eftir fæðinguna voru þannig að allur tími og öll orka fóru í að sinna þeim. Það var svo í sturtunni um miðjan maí að ég tók fyrst eftir því að eitthvað var ekki alveg eins og það hafði alltaf verið. Forhúðin virtist þrengri. Ekkert mikið svo sem, og eftir smá skoðun setti ég þetta í áhyggjuskjalageymsluna í möppu sem kallast „Þetta lagast“. Það gerði það hins vegar alls ekki og hélt smám saman áfram að versna.
Ég ætti að byrja aðeins fyrr á sögunni. Fyrir kannski sirka tveimur árum tjáði einn besti vinur minn mér að hann hefði þurft að láta umskera sig. Ég hló að honum í svona tvo tíma og gerði svo mjög reglulega grín að honum í meira en ár. Ég meira að segja hringdi einu sinni í hann, bara til að segja:
„Hæ. Þú ert umskorinn. Bæ.“
Ef maður ætti einhvern tímann að taka upp karma-trú væri það víst núna því sléttu ári síðar hringdi ég í hann eftir góðum ráðum. Hann gerði ekkert grín að mér, enda ekki sami djöfuls dóninn og ég, rakti sína reynslu af þessu og stappaði í mig stálinu. Þá voru þrengslin orðin ansi mikil og ég eiginlega búinn að gefa upp þá von að eitthvað ætti eftir að lagast, og þarna var framundan löng tónleikaferð með Skálmöld. Þegar hún hófst var ég eiginlega orðinn alveg ónothæfur og þegar ég kom heim var ég hættur að geta pissað í fyrirfram ákveðna átt. Það svo sem kom ekki að sök þar sem ég hef frá unglingsárum alltaf pissað sitjandi, komi ég því við. Það er betra. Ekki reyna að halda öðru fram.
Eftir tónleikaferðina hummaði ég þetta svo auðvitað fram af mér eins og hægt var. Eins leiðinlegt og þetta ástand er þá var úrvinnslan á þessu og öll sú hugsun mér ansi stór ógn. En þetta gat auðvitað ekki verið bara svona. Hverslags er það að geta ekki þrifið sig undir forhúðinni öðruvísi en að sprauta vatni af talsverðum krafti inn að framanverðu og vona að það geri eitthvert gagn? Ég hringdi aftur í vin minn og fékk númerið hjá lækninum sem umskar hann. Og svo fór ég í skoðun til hans.
„Þú getur ekki haft þetta svona.“
Það var auðvitað alveg rétt hjá honum og eins fáránlegar og hálfóhugglegar aðstæðurnar voru var ég þarna kominn með smá húmor fyrir öllu saman og brosti. Læknirinn var greinilega alvanur því að þurfa að stunda sálfræðiaðstoð í bland við þvagfæraskurðlækningar því væntanlega koma menn til hans með vandamálin bæði á sálinni og typpinu og þess vegna fór hann mjög varlega í að hlæja með mér. Hann útskýrði fyrir mér þrjár leiðir sem venjulega eru farnar í þessum aðstæðum. Sú tilkomuminnsta er sterakremsmeðferð. Þrenging á forhúð orsakast víst af bólgum sem verða þegar örvefur skemmist (þetta er haft eftir eftir minni og gæti verið algert kjaftæði) og á frumstigi má ná þeim til baka með slíkri meðferð. Ég var kominn talsvert lengra en það. Leið tvö er sú að skera helminginn framan af forhúðinni og opna hana þannig að framan. Ég fékk strax á tilfinninguna að þessi hálfleið væri til friðþægingar fyrir þá sem víla fyrir sér að láta skera of mikið í typpið á sér. Skiljanlega. Heimildarmaður minn hafði byrjað þannig, það ekki dugað og hann þurft að fara aftur. Að auki sagði hann mér frá upphafi að þetta væri allt betra eftir umskurð. Allt. Ég trúði honum og bað lækninn um að fara þriðju leiðina, skera draslið af við rót. Hann var sammála. Ég spurði hann hvort ég gæti fengið að eiga afskurðinn. Honum fannst ég ekkert fyndinn og sagði bara nei, að það gengi ekki. Ég sé eftir því að hafa ekki tekið það mál lengra. Af hverju ekki? Þetta var mín forhúð. Ég sá hana fyrir mér þurrkaða í ramma til að sýna barnabörnunum.
„Að auki sagði hann mér frá upphafi að þetta væri allt betra eftir umskurð. Allt.“
Ég fékk svo tíma í aðgerð nokkrum vikum síðar. Ég mætti núna í hádeginu og fékk tvær Paratabs og eina Íbúfen. Mér fannst það ótrúlega lítilfjörlegt í ljósi þess að nú ætti að fara að skera typpið á mér sundur. Eftir nokkur góðlátleg bros og góða meðhöndlun var ég svæfður. Ég náði ekki einu sinni að verða almennilega stressaður eða að biðja lækninn um að fara varlega eða útskýra að mér þætti vænt um typpið á mér. Svo vaknaði ég klukktíma og korteri síðar á að giska, forhúðarlaus. Á meðan ég beið eftir lækninum og því að verða sóttur fékk ég þrjú eintök af Vikunni til lestrar. Annað hvort var ég örlítið vankaður eftir svæfinguna eða þá að reynslusögurnar aftast eru alger steik.
Læknirinn kom og sýndi mér typpið á mér. Asnalega bólgin holdhrúga sem búið var að rympa saman hringinn svo saumaendarnir stóðu blóðugir út í loftið. Og þetta var ekkert hræðilegt. Jújú, ég fann fyrir því að eitthvað hafði verið átt við mig en sársaukinn var ekki merkilegur. Svo var ég bara ferjaður heim og fékk mér að borða. Ég leysti út Parkódínið sem læknirinn skrifaði upp á en ég hugsa að ég þurfi ekkert á því að halda.
Eftir allt þetta stúss og áhyggjur. Þetta er eiginlega hálfgert antiklæmax.
Athugasemdir