Þann 25. janúar verð ég 38 ára gamall. Þá er maður fullorðinn og þegar maður er fullorðinn á maður að gera fullorðinslega hluti. Ég kemst betur og betur að því að ég haga mér víst ekki eins og fullorðið og eðlilega þroskað fólk á að gera. Eða kannski sé ég það bara betur og betur eftir því sem ég eldist.
Ég er reyndar kominn í fasta vinnu. Það gerðist fyrir svona 3–4 árum en þar á undan hafði ég bara dundað mér við það sem kom upp í hendurnar á mér. Stundum átti ég pening, stundum ekki. Það var bara fínt. Núna vinn ég á auglýsingastofunni PIPAR\TBWA og mér finnst það algerlega frábært. Þetta er þó auðvitað frekar óþroskuð vinna, ég vinn við að dunda mér á Facebook (grínlaust), reyni að fá hugmyndir sem oftar en ekki eru ætlaðar til þess að ganga passlega mikið fram af fólki og þegar ég nenni ekki að vinna meira stend ég upp og spila pool við vinnufélagana. Það breytir því ekki að ég er mjög góður í því sem ég geri og sinni vinnunni minni af gríðarlegum áhuga og metnaði. Það er kannski þroskamerki því ég hef gert margt á minni ævi með hangandi hendi. En þó, enda þótt ég sé vel liðinn í vinnunni og geri margt gott, hef ég engan áhuga eða möguleika á stöðuhækkun. Ég er nefnilega í hljómsveit.
Skálmöld tekur sig til og túrar heiminn með reglulegu millibili. Þeir túrar eru mislangir, flestir á bilinu 2–8 vikur. Þá tek ég mér launalaust leyfi frá föstu vinnunni. Þetta eitt og sér útilokar stöðuhækkun (held ég allavega) en mér er bara alveg sama. Auðvitað væri gaman að geta sagt frá því að ástæðurnar séu veraldlega gáfulegar, en það væri klárlega lygi. Þegar Skálmöld fer á túr lækka ég í launum því Skálmöld er ekkert annað en hobbý sem við náum þó að kreista örlitla peninga út úr sem við notum til þess að flakka um heiminn. Við látum þetta svo bara ganga upp, þvælumst um við þröngan kost og gerum okkur slarkið að góðu. Mér skilst að þessu ætti maður að hætta upp úr tvítugu og reyna frekar á fá stöðuhækkun. Fólki finnst reyndar mjög merkilegt að við skulum ferðast svona mikið því ferðalög eru þroskamerki og fullorðins. Þrjár vikur á Tenerife á hverju ári, það er alveg toppurinn. Ég hef aldrei komið þangað.
„Er betra að vera óhamingjusamur í jakkafötum en glaður og kátur í kvartbuxum og þungarokksbol?“
Ég les fáar bækur. Þroskað fólk les margar bækur. Ég les samt fullt, bara ekki bækur. Allavega ekki svona bækur eins og fullorðnir lesa. Ég les teiknimyndasögur. Ég kaupi þær í Nexus og ég panta þær að utan. Ég les mjög mikið meira að segja, en ég er aldrei með í samræðum um lestur því ég les aldrei Arnald, Yrsu eða sænsku glæpasögurnar. Ég les bara Saga og Chew og Transmetropolitan. Sumar sögurnar eru meira að segja langar og alls ekki ætlaðar börnum. En auðvitað eru Brian K. Vaughan og Fiona Staples engin Paula Hawkins. Börn skoða myndir, ekki fullorðnir. Nema listaverk á söfnum. Ég þoli ekki söfn.
Ég spila tölvuleiki. Ég var til dæmis að enda við að spila fótboltaleik í Playstation þar sem maður er á bíl og springur stundum í tætlur. Í morgun var ég að skjóta fólk í geimnum með sprengjuvörpu. Það eru víst ekki verkefni fyrir tæplega fertugan mann. Þegar maður er í fríi á nýársdag á maður að gera eitthvað uppbyggilegt, fara í göngutúr og horfa á Kryddsíldina á Vod-inu. Mér finnst Kryddsíldin alveg ógeðslega leiðinleg og reyndar stjórnmál heilt yfir. Ég er löngu hættur að kjósa, sama hvaða kosningar það eru, því ég get ekki séð að kerfið sem okkur er gert að taka þátt í skili einu eða neinu, hvernig sem maður snýr sér. Þetta er auðvitað óþroskaður hugsunarháttur því maður verður að vita hver er heilbrigðisráðherra. Hver er heilbrigðisráðherra?
Ég vaki stundum fram á nótt og horfi á amerískan fótbolta í beinni. Ég veit ekki alveg af hverju það er, en einhverra hluta vegna er mjög viðurkennt að fylgjast með enskum fótbolta þegar maður er kominn á fullorðinsár en ekki amerískum. Svo mæti ég stundum þreyttur í vinnuna vegna þessa. Þroskað fólk fer að sofa klukkan tíu og mætir svo í ræktina áður en það mætir í vinnuna sína. Ég drekk meira að segja stundum á virkum dögum og mæti óbaðaður í vinnuna daginn eftir.
Ég trúi ekki á neitt nema sjálfan mig, fólkið í kringum mig, það góða í heiminum og vísindin. Á einhvern óskiljanlegan hátt finnst mörgum það algerlega ábyrgðarlaust af mér. Það fólk trúir á drauga. En hvað veit ég, ég er ekki einu sinni stúdent.
Ég eignaðist dóttur á árinu sem var að líða og ég er voðalega hræddur um að ég muni ala hana upp í þessum óþroska. Auðvitað vil ég að hún verði góður og gildur þjóðfélagsþegn, en ég vil líka að hún geri það sem hún vill gera í lífinu. Hver ætlar að ákveða það fyrir hana hvað er gáfulegt og hvað ekki? Skilar það í alvörunni einhverju í hamingjubankann að eltast við tilbúin gildi og venjur sem eiga að sýna fram á árangur og frama? Er betra að vera óhamingjusamur í jakkafötum en glaður og kátur í kvartbuxum og þungarokksbol? Þarf ég í alvörunni að kunna á Excel og ströggla við að borga af óhagstæðu húsnæðisláni til þess að verða tekinn í fullorðinna manna tölu?
Ég er kannski óþroskaður, en mér líður alveg ótrúlega vel.
Athugasemdir