Mismunandi áherslur og gildi ólíkra þjóða koma okkur oft mikið á óvart. Kínverjar borða hunda, það þykir okkur ósmekklegt. Við borðum hesta, það þykir öllum ógeð. Þjóðflokkar í Afríku ganga með diska í vörunum. Við nennum því ekki. Bandaríkjamenn búa við tveggja flokka fasisma sem þeir kalla frelsi. Það er sko margt í kýrhausnum.
Við hér á landi höfum búið við okkar eigin óskráðu samfélagssáttmála. Gamalt bændasamfélag sem hefur náð að halda höfði í gegnum gríðarlegar þrengingar, hungur og hamfarir lærir að standa saman og rétta út hjálparhönd. Samkennd verður dyggð. Ef þú átt tvær skyrtur gefðu þá bróður þínum eina. Flestir eru sammála um að við eigum að vera góð við börn, gamalmenni og jaðarsetta. Það eru þarna einhver sameiginleg gildi sem okkur finnst mikilvæg, jafnvel óumsemjanleg. Lengst af höfum við verið stolt af því framlagi sem frá okkur kemur á alþjóðlegum leikvelli. Síðustu árin hins vegar hefur mörgum þótt skömm af því að segjast vera frá Íslandi. Undanfarnar vikur hefur svo ekki verið mikið í alþjóðlegum fjölmiðlum fyrir Íslendinga til að hreykja sér af. Fjárglæfur og frændsemi eru að verða þjóðareinkenni.
Anna Sigurlaug, eiginkona Sigmundar Davíðs, setti inn fræga facebook-færslu, loðna og afvegaleiðandi, þar sem hún opinberaði að hún hefði vissulega slysast til þess að eiga fyrirtæki sem hefði verið falið í gegnum dulið eignarhald á aflandseyjum, og snjóboltinn fór að rúlla. Nú hefur svo komið upp að fjöldi áhrifafólks á Íslandi hefur verið staðið að því að eiga fyrirtæki á lágskattasvæðum, sem notuð eru af hátekjufólki til þess að leggja dul á eignir sínar. „“
„meðhlægjendur og hlaupatíkur auðvaldsins keppast nú við að segja að ekki aðeins séu gjörðir ráðamanna réttlætanlegar, heldur séu þeir hugsanlega bara brautryðjendur sem þurfi að hampa sem slíkum.“
Um 600 fjársterkir einstaklingar koma fyrir í skjölum Panama-lekans. Og það engir meðal-Jónar. Einungis gríðarlega fjársterku fólki stendur til boða að koma peningum sínum undan skatti með þessari vafasömu leið. Það hefur sýnt sig að eftir því sem fleiri nöfn koma í ljós, þeim mun bjagaðari verður orðræða auðvaldsins. Við getum fylgst með í beinni þessa dagana hvernig umræðunni er þvingað inn á þá braut að ekkert sé ólöglegt við það að fela gígantískar fjárhæðir. Það sé svo erfitt að eiga peninga á Íslandi. Helstu hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunar hafa jafnvel gengið svo langt að leggja til að Íslandi verði hreinlega breytt í eina af þessum skattaparadísum. Ungir (rómur.is) sem aldnir (Hannes Hólmsteinn), meðhlægjendur og hlaupatíkur auðvaldsins keppast nú við að segja að ekki aðeins séu gjörðir ráðamanna réttlætanlegar, heldur séu þeir hugsanlega bara brautryðjendur sem þurfi að hampa sem slíkum.
Sannleikanum snúið á haus
Samhæfð viðbrögð ríkisstjórnarinnar og spunameistara þeirra eru öll á sama veg: Að gera það sem okkur þótti áður óeðlilegt að sjálfsögðum hlut. Það er svona sem samfélagslegir sáttmálar, sem áður voru meitlaðir í stein, holast af velefnuðum dropum. Eftir stormviðrið sitja áfram sem fastast formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna, sem báðir áttu hlut í aflandsfélögum. Tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokks sitja áfram, báðir áttu þeir hlut í aflandsfélögum. Öll ýmist leyndu þau eða lugu til um þessar staðreyndir. Mörgum þykir sem gögn Bjarna um hversu miklar eignir hann kaus að gefa upp hafi hreinsað mannorð hans. Önnur Evrópuríki sætta sig ekki við minna en að fólk í sambærilegri stöðu hætti alfarið afskiptum af pólitík.
Panama-stjórnin starfar áfram. Kannski fáum við að kjósa í haust, ef stjórnarandstaðan er þæg í taumi. Smám saman hjaðna mótmælin. Fólk heldur áfram að lifa sínu lífi, og hin almenna reiði vegna lyga og undanskota fjarar út vegna algjörs sinnuleysis ráðamanna. Valdhafar gera hvað sem þeir geta til þess að verja og auka völd sín. Snúa sannleikanum á haus þannig að lurkum lamin þjóð samþykkir á endanum með þögninni hegðunina. Ríkisstjórnin er gerandi í ofbeldissambandi með alþýðunni. Svart verður hvítt og allir tapa nema auðvaldið.
Athugasemdir