Vegna góðs gengis landsliðs okkar á Evrópumótinu í knattspyrnu erum við aftur farin að tala um sérstakt „eðli“ Íslendinga.
Við erum líka farin að tala aftur um hvernig hér er betra en annars staðar, til útskýringar á því hvernig við erum betri en aðrir.
Við erum auk þess farin að tala um hvernig brjálæði okkar gerir okkur kleift að sigrast á öðrum og nauðsyn þess að við séum öll samtaka, skaðsemi þess að hafa gagnrýna afstöðu gagnvart einhverju, frekar en að taka þátt í órofa samstöðu og sjálfstrú.
Hvaðan erum við að koma?
Haustið 2007 spilaði landslið Íslands knattspyrnuleik gegn Danmörku í Parken í Kaupmannahöfn. Sagan segir að íslensku stuðningsmennirnir hafi sungið: „Vi har magasin – I har ingenting“. Eða: Við eigum Magasin – þið eigið ekki neitt. Þar er vísað til stórverslananna Magasin du Nord, sem keypt voru af Baugi Group og fleiri Íslendingum í einhverjum frægustu viðskiptunum við upphaf útrásarinnar.
Hroki einkenndi þetta tímabil. Íslendingar töldu sig gjarnan betri en fólk af öðru þjóðerni og útrásin – eða stórfelld uppkaup eigna erlendis með lántökum – voru til að réttlæta það. Þar sem hugmyndafræði þjóðernishyggju var ráðandi leit fólk gjarnan svo á að viðskipti Íslendinganna erlendis væru ekki einungis til marks um þeirra viðskiptahæfileika eða dirfsku, heldur líka allrar þjóðarinnar.
Forseti Íslands hélt ræðu um hvernig Íslendingar væru komnir af „útrásarfólki“ og „hvernig eiginleikar sem eiga sér rætur í arfleifð okkar gefa Íslendingum hugsanlega forskot á „alþjóðavelli“.
Síðan ræddi forsetinn um hvernig lykillinn að sigrum Íslendinga í viðskiptum fælist í íslensku arfleifðinni, samtakamættinum, skorti á ferlum, óbilandi trú, einfaldri sýn og svo framvegis, margt sem raunverulega er ófaglegt og klíkuskapur.
„Við erum með peningana ykkar“
Goðsögnin sem forsetinn og fleiri ólu á var að það væri einn helsti styrkleiki Íslendinga að ígrunda takmarkað ákvarðanir, standa saman og láta vaða í blindri trú.
„Þetta reddast“ var einkennisorð Íslendinga og Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði Hvernig verður Ísland ríkasta land í heimi?
Búin var til goðsögn um hvernig Íslendingar hefðu mótast af landi sínu til þess að ná ótrúlegum árangri og hefðu í reynd öðlast eiginleika sem leiddu til þess að þeir sköruðu fram úr öðrum.
Skömmu eftir bankahrun þurfti lögregla að grípa inn í á landsleik Íslands og Hollands, vegna þess að stuðningsmenn íslenska landsliðsins höfðu stóran borða meðferðis með skilaboðum til hollensku þjóðarinnar: We Have Your Money, eða Við erum með peningana ykkar. Á þessum tíma var orðið ljóst að hollenskur almenningur hafði tapað miklu á því að leggja inn á Icesave-reikninga íslenska Landsbankans. „Ég er ekki viss um að þeir geri sér grein fyrir því hversu mikil hætta var á ferðum,“ sagði Pétur Pétursson aðstoðarlandsliðsþjálfari ári seinna. Hollensku landsliðsmennirnir höfðu rætt að spila ekki leikinn gegn Íslandi til að sýna hollenskum almenningi stuðning í baráttunni um að endurheimta peningana sína úr vösum Íslendinga.
Eftir þetta minnkaði dramb Íslendinga, enda urðu þeir fyrir aðkasti jafnt sem vorkunn erlendis fyrir að vera Íslendingar – því Íslendingar höfðu skaðað sjálfa sig og aðra með fordæmalausu fúski í fjármálum.
Eðli Íslendinga
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi, sagðist í samtali við Vísi alltaf svara erlendum fjölmiðlum með sambærilegum hætti um það hvað útskýri árangur knattspyrnulandsliðsins: „Ég segi þeim að á Íslandi sé hreint loft og vatn og maturinn okkar, lambakjötið og fiskurinn, spili stóra rullu. Þá hafi það líka mikið að segja að koma frá Íslandi. Aðstæðurnar á landinu herði okkur og geri það að verkum að við gefumst aldrei upp.“
„Það er ekki í eðli Íslendinga að gefast upp,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen landsliðsmaður í nýrri skyrauglýsingu. Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði útskýrir sigra gegn Austurríki og Englandi með hinni svokölluðu „íslensku geðveiki“. „Ég held að þeir hafi ekki reiknað með okkur svona og áttað sig á íslensku geðveikinni,“ sagði hann um England. „Íslenska geðveikin“ hefur gjarnan verið notað til að tákna baráttuanda íslenska handboltalandsliðsins, en hefur síðar verið tekið upp af knattspyrnulandsliði karla.
„Eins og staðan er núna sé ég bara ekkert lið stöðva okkur,“ sagði hann svo fyrir leikinn gegn Frakklandi.
Þótt Aron Einar og Eiður Smári séu að tala um óbilandi baráttuanda í fótbolta þegar þeir vísa til geðveikinnar og eðlisins er vandamálið að fótboltinn er notaður af stjórnmálamönnum og öðrum til að réttlæta hitt og þetta sem hefur ekkert með fótbolta að gera - að ýta undir þjóðerniskennd til að afla stuðnings við hluti sem oft eru andlýðræðislegir.
Stokkið á EM-vagninn
Eitt helsta áróðursbragð í bókinni er að tengja sig við eitthvað jákvætt, sem maður tengist þó ekki beint. Á ensku er þetta kallað „jump on the bandwagon“, og vísar til þess að í skrúðgöngum áttu stjórnmálamenn til að koma sér fyrir á hljómsveitarvagninum til þess að jákvæð athygli beindist að þeim.
Utanríkisráðuneytið nýtti sér tækifærið og sendi íslenskt lambakjöt og skyr til landsliðsins í París. Forsetaframbjóðendurnir tengdu sig við knattspyrnulandsliðið hver um annan þveran. Davíð Oddsson var Eiður Smári Guðjohnsen í teignum, samkvæmt eigin lýsingu, og síðan varð hann Ísland í mögulegum tapleik gegn Englandi. Guðni Th. Jóhannesson varð Ísland að halda jafntefli gegn Ungverjalandi. Ástþór Magnússon og Halla Tómasdóttir vísuðu bæði til íslenska landsliðsins dagana fyrir kosningar.
„Við getum náð flottum árangri í fótbolta og við getum náð ennþá flottari árangri í friðarmálum,“ sagði Ástþór.
„Það er gott að upplifa, líklega eins og landsliðið okkar, afraksturinn af mikilli vinnu,” sagði Halla.
„Við erum besta þjóð í heimi, bestir í fótbolta og allt“
Eftir ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu var árangur knattspyrnulandsliðsins notað af landbúnaðarráðherra til að rökstyðja veru Íslands utan ESB og að Ísland væri fremra öðrum. „Nei, ég hef engar áhyggjur. Ísland er utan Evrópusambandsins, við erum besta þjóð í heimi, bestir í fótbolta og allt,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson í samtali við Ríkisútvarpið. Sami Gunnar Bragi og stóð fyrir því að svíkja lofororð um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
„HUH“, skrifaði eiginkona eins þeirra sem dæmdir voru fyrir efnahagsbrot tengd Kaupþingi þegar hún deildi grein af sýknudómi í Héraðsdómi Vesturlands á dögunum í einu máli gegn Kaupþingsmönnum.
Hvað höfum við lært?
Fólk í öðrum löndum hefur ekki síður upplifað erfiðleika en Íslendingar. Reglulegar styrjaldir, uppskerubrestir, þurrkar, eyðimerkur, frumskógar, landlægir smitsjúkdómar, árásir rándýra og fleira er nokkuð sem Íslendingar hafa verið lausir við að mestu leyti og því má segja að darwinískt náttúruval hafi verið annars konar hérlendis en víða erlendis. Undirtónninn um eðlislæga sérstöðu og mikilfengleika íslensku þjóðarinnar er hrein þjóðernishyggja.
Samstaða Íslendinga með fótboltalandsliðinu er aðdáunarverð, en stjórnmálamenn og aðrir vilja misnota hana til að skapa gagnrýnislaust samfélag. Vandamálið er að við höfum áður brennt okkur á hættum hóphugsunar og kröfunnar um stöðuga samstöðu og jákvæðni.
Lærdómurinn af EM er ekki að við séum eðlislegt betri en aðrir eða að þjóðin eigi að heldur að með uppbyggingu á aðstöðu fyrir börn og þjálfun þeirra getum við gert þeim kleift að þróa hæfileika sína. Við ættum líka að búa að lærdómi um skaðleg áhrif þjóðrembings eins og þess sem nú er að snúa aftur.
Athugasemdir