Mér þykir gaman að fylgja tækninni og dett stundum í þá gryfju að halda að það sem er nýjast sé best. Það truflar mig meira að segja stundum svo mikið að ég get ekki notað tæki ef ég veit af nýrri tækjum á markaðnum. Þetta hefur aðeins lagast síðustu ár þegar kemur að tölvum og sér í lagi símum því núna kemur uppfærsla á nokkurra mánaða fresti, talsvert örar en áður. Þegar biðin var lengri var síminn manns ónýtur þegar næsta týpa kom á markað og ekki viðlit að telja sér trú um annað. Þessi geðveiki hugsanaháttur er nú sem betur fer ekki til staðar lengur, í það minnsta ekki jafn sterkur. Ég viðurkenni þó að ég var ekki í rónni fyrr en ég hafði keypt mér Playstation 4 enda þótt Playstation 3 væri ennþá ljómandi ágæt og nýir leikir fyrir hana kæmu á færibandi. Og meira að segja ódýrari. 4 er bara meira en 3, svoleiðis er það.
En svo snýst þetta líka í hringi. Ég var fyrsti maður í heimi til að kaupa mér aðgang að Spotify og er áskrifandi enn í dag. Það breytir því þó ekki að ég á marga hillumetra af vínylplötum sem ég hef óskaplega gaman að. Á tímabili keypti ég langmest af mínu lesefni rafrænt og las af spjaldtölvu, þá sér í lagi teiknimyndasögur, en síðustu mánuði hef ég aftur færst yfir í pappírinn. Ferðin í Nexus er ein og sér þess virði og svo er stundin með kaffibollann og brakandi nýtt eintak af Saga miklu fallegri á föstu formi en rafrænu. Þegar kemur að sjónvarpi er ég algerlega hættur að horfa á línulega dagskrá. Ég tók Netflix-pakkann af krafti eins og margir, og viðheld því ennþá þótt ég sé ekki lengur fremstur þar í flokki á mínu heimili. Í dag horfi ég langmest á YouTube og ætti sennilega að afpanta sjónvarpsáskriftina hjá Vodafone, svo sjaldan horfi ég á nokkuð gegnum myndlykilinn. Ég á vídeótæki niðri í geymslu en sé reyndar ekki að það fari aftur í samband. Núna er þetta allt einhvers konar VoD. Video on Demand.
Vinur minn er ekki svona. Hann er gamaldags. Ekkert hallærislegur, hann er bara gamaldags. Við getum til dæmis ekki talað saman um sjónvarpsefni því hann er yfirleitt í miðri seríu. Ég þekki það ástand eignlega ekki lengur því þegar maður byrjar á House of Cards þá líða sirka 3 dagar þar til serían er búin. Hann tekur sér 13 vikur í málið sem mér þykir fráleitt. Eða þótti fráleitt þar til við ræddum þetta um daginn. Hann og konan hans eiga sér ennþá sjónvarpskvöld, heilagan tíma í vikunni þar sem þau setjast niður og horfa á þáttinn sinn, rifja upp hvað gerðist í síðustu viku og poppa. Það er alveg gullfallegt og stórskemmtilegt.
Viljum við í alvörunni fá allt strax, nákvæmlega þar sem við erum og nákvæmlega sama hvað það er?
En hvernig er þetta þá? Viljum við í alvörunni fá allt strax, nákvæmlega þar sem við erum og nákvæmlega sama hvað það er? Fréttir, afþreyingu, tónlist, fróðleik og upplýsingar? Allt? Í strætó, eða í kistulagningu ef því er að skipta? Já. Svarið er já. Við viljum það. Og ég held ennþá að við eigum að vilja það. En við eigum líka að vilja eitthvað annað eins og til dæmis að labba með vasapeninginn í Nexus og kaupa teiknimyndasögu, bíða eftir Barnaby í sjónvarpinu eða snúa nýju Maiden-plötunni við í fimmta skiptið. Við sigrum ekkert lífið þótt við stelum því á internetinu.
Við erum auðvitað líka löngu komin á þessar brautir þegar kemur að peningum og því sem hægt er að fá fyrir þá. Ekkert okkar á fyrir íbúðinni sinni en við kaupum hana víst bara samt. Apartment on Demand. Og bíllinn? Car on Demand. En hvað svo? Hvar endar þetta? Viljum við ekki fá fleiri hluti strax? Hættir þessi þróun eitthvað? Af hverju ætti ég að bíða eftir fertugsafmælinu mínu? Það er eftir tæp tvö ár sem er asnalega löng bið. Ég ætti auðvitað að gera Event og bjóða til þess um næstu helgi. Birthday on Demand. Samstarfskona mín sagðist hafa borðað páskaeggið sitt á föstudaginn langa, vegna þess að hún væri orðin fullorðin. Easter on Demand. Af fréttum að dæma bíður fólk víst ekki eftir rétta mómentinu til að stunda kynlíf. Ólöglegt reyndar, og ófyrirgefanlegt líka, en engu að síður. Sex on Demand. Ég kenni þessum sömu kenndum um valdagræðgina sem virðist vera í hámarki í samfélaginu. Allir vilja bara ráða öllu, núna. Power on Demand. Og hvað með blessuð börnin sem bíða eftir jólunum í marga mánuði? Eigum við ekki að auðvelda þeim þetta og hafa jólin helgina eftir afmælið mitt? Christmas on Demand.
Mér liggur við að giska á að við værum í betri málum ef fleiri væru aðeins líkari vini mínum og færri líkari mér. Ef við bara myndum horfa á House of Cards einu sinni í viku og bíða eftir því að dagblaðið kæmi inn um lúguna værum við kannski ekki svona yfirspennt, skítblönk, sár og bitur út í allt og alla. Þolinmæði er dyggð og vínylplötur líka.
Eitt sinn var annar vinur minn króaður af af frænda sínum sem vildi endilega selja honum heilsubótarduft af einhverju taginu og veiða hann í pýramídanet í sama kastinu. Allt átti að gerast á örskotsstundu, skjótur gróði og afstilling líkamsþyngdar. Og máli sínu til stuðnings notaði hann þetta ódauðlega slagorð: „Góðir hlutir gerst hægt, eða hratt!“
Góðir hlutir geta alveg gerst hratt, en ég er orðinn nokkuð viss um að bestu hlutirnir gerast hægt og í línulegri dagskrá.
Athugasemdir