Ólöglegt niðurhal. Við erum enn þá að rífast um það. Og við erum að rífast um það á svo vitlausum grundvelli að mig langar til að gráta. Til að taka strax af allan vafa ætla ég mér ekki, og aldrei, að verja verknaðinn því auðvitað er þetta óþolandi, bannað, siðlaust og glórulaust.
Tölum frekar um það hverju þarf að breyta svo þetta lagist.
Meira en 5.000 manns hlóðu niður Ghetto betur, sem er þáttur sem Steindi er með á Stöð 2. Þessu var hlaðið niður gegnum síðu sem kennd er við ólöglegt niðurhal. Þeir sem vilja hártogast benda á að niðurhalið sé ekki ólöglegt heldur eingöngu sá verknaður að gera hlutinn aðgengilegan framhjá leyfiseigendum.
Ekkert af þessu skiptir máli.
Það er bannað að stela úr búðum. Þetta eru rök sem margir nota, og Jakob Frímann sletti framan í okkur við þetta Ghetto-tækifæri. Það er rétt, það er bannað að stela. Bæði úr búðum sem og sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tónlist, ljósmyndum, forritum og hverju sem er af internetinu. Og bara heilt yfir. Það er bannað að stela. Við vitum það.
Ég er ekki áskrifandi að Stöð 2. Ég renndi snöggvast yfir dagskrána þar núna rétt í þessu og sannfærðist enn frekar um að ég hefði ekkert við slíkt að gera. Ég horfi þónokkuð á sjónvarp, en með virðingu fyrir dagskránni þar er lítið sem ekkert þarna sem ég sækist eftir að sjá. Ég fylgist lítið með fréttum og vil þá frekar lesa þær af netinu og fá yfirsýn á það sem er að gerast í heiminum. Ef eitthvað vekur áhuga minn kynni ég mér það nánar. Dægurmála-, spurninga- og spjallþættir eru eitthvað sem ég eyði ekki tíma í og ég hef ekki teljandi áhuga á íþróttum, nema helst stórmótum í frjálsum íþróttum og ameríska fótboltanum sem ég kaupi beint af kúnni. Erlenda sjónvarpsþætti og kvikmyndir nálgast ég annars staðar þar sem ég get valið sjálfur á hvað ég horfi. Allt sem er eins og Idol fyrirlít ég. Ég þarf ekki Stöð 2. Allir glaðir.
En hei! Mig langar að sjá þáttaröðina hans Dóra DNA, Rapp í Reykjavík. Sex þættir um íslenska tónlist? Þvílík snilld! Stiklur og tíserar sem ég hef séð á netinu heilla mig gríðarlega. Hvað á ég þá að gera?
Staðreyndin er sú að ég get með engu móti horft löglega á Rapp í Reykjavík nema gegn því að greiða fyrir dagskrá Stöðvar 2. Ég prófaði að fara inn í gegnum myndlykilinn hennar mömmu minnar núna rétt í þessu og fara í eitthvað sem heitir Stöð 2 maraþon. Og jú, ég fann Rapp í Reykjavík, alla 6 þættina. En ég get ekki horft því ég verð að vera áskrifandi að Skemmtipakkanum, Stórapakkanum eða Risapakkanum. En þá fæ ég þetta frítt!
Einmitt. „Frítt“.
Sem sagt. Ef ég vil horfa á Rapp í Reykjavík í dag þarf ég að kaupa Skemmtipakkann, sem er ódýrasta áskriftin, og fá meðfylgjandi aðgang að Stöð 2 maraþoni. Til viðbótar við maraþonið fæ ég með í kaupunum Stöð 3, bíóstöð, krakkastöð, tónlistarstöð, og eitthvað sem heitir Vild.
„Hvaða djöflasýra er þetta? Ég hef engan áhuga á að halda uppi fréttastofu og íþróttadeild, horfa á barnaefni eða tónlistarmyndbönd.“
Hvaða djöflasýra er þetta? Ég hef engan áhuga á að halda uppi fréttastofu og íþróttadeild, horfa á barnaefni eða tónlistarmyndbönd. Frábært fyrir þá sem vilja geta valið að gera það en ég vil bara horfa á Rapp í Reykjavík. Má ég ekki bara borga fyrir það? Ef ég panta þessa helvítis áskrift núna þarf ég að borga fyrir restina af þessum mánuði og allan næsta mánuð, því bindingin er í það minnsta heill mánuður. Þegar þetta er skrifað myndi sem sagt kosta mig 16.500 krónur að horfa á þessa 6 hálftíma þætti en ef ég held í mér fram til mánaðarloka kæmist ég upp með 10.000 kall. Og svo þarf ég að muna að segja upp áskriftinni með það sama því annars verð ég rukkaður fyrir heilan mánuð enn. Þetta er sem sagt mjög flókið, ósanngjarnt og brjálæðislega dýrt.
Setjum þetta í samhengi við búðarpælinguna hans Jakobs Frímanns. Setjum sem svo að mig vanti buxur. Ég fer í fatabúð og finn mér buxur sem mér líkar. Ég spyr hvað þær kosti og fæ þær upplýsingar að ég geti keypt frábæran pakka sem inniheldur buxurnar, peysu, tvo hlýraboli, ársbirgðir af nælonsokkabuxum, smekkbuxur í extra small, bleika lambhúshettu og öryggishjálm fyrir aðeins 500.000 krónur. Hluti af upphæðinni rennur reyndar í að mála skrifstofu verslunarstjórans svo hann geti nú unnið í almennilegu umhverfi og upphugsað fleiri svona dúndurtilboð. Já, skemmtileg útfærsla. Hentar örugglega bjánum og sérvitringum, en mig vantar bara buxurnar. Hvað kosta þær?
Það er ekki hægt að kaupa bara buxurnar. Þú verður að kaupa allan pakkann og eiga svo Stöð 3 og Vild uppi í skáp þar til mögulega einhverjum hentar að nýta sér þetta drasl. Og kannski líður þér eitthvað betur með að vita að það sé búið að mála fréttasettið upp á nýtt, en þú veist það samt ekkert því þú hefur aldrei séð það.
Ég er ekki að réttlæta þjófnað, og auðvitað myndi ég aldrei stela buxunum. Og þetta er alls ekki bundið við Stöð 2. En hvernig eru þetta eðlileg viðskipti? Ég fæ þá tilfinningu að það sé verið að níðast á mér og hálfpartinn svindla. Það gerir samviskunni enn auðveldara að hlaða þáttunum niður ólöglega. Við fáum á tilfinninguna að við séum að stela af fólki sem hvort eð eru drullusokkar.
Gerið íslenska sjónvarpsþætti, kvikmyndir, tónlist og hvaðeina aðgengilegt og rukkið sanngjarnt verð fyrir. Ég fullyrði að við græðum öll þegar upp verður staðið.
Athugasemdir