Nýverið velti ég fyrir mér hvort að breyta mætti kynhegðun heillar þjóðar, með það að leiðarljósi að takast á við þann vanda að lagaramminn nær ekki til mikils meirihluta nauðgunarbrota. Lagasetning þjónar þeim tilgangi í samfélaginu að stýra virkni þess, þannig að það endurspegli hugmyndir og skoðanir hverju sinni. Þegar samfélagið skiptir til að mynda um skoðun fara þær breytingar inn á Alþingi með þingmönnum, sem svo breyta lögum þannig að virkni samfélagsins sé í samræmi við þessa skoðun. Þetta er líklegast mikil einföldun en svona er samfélagsgerðin okkar í grófum dráttum.
Til dæmis var ekki, lagalega séð, hægt að nauðga karlmanni fyrr en árið 1992 þegar 194. gr. almennra hegningarlaga var breytt þannig að ákvæðið næði jafnframt til þeirra tilvika þegar karlmönnum var nauðgað. Karlmaður sem hefði verið nauðgað hefði hugsanlega getað leitað réttar síns eftir öðrum leiðum en hann gat hins vegar engum úrræðum beitt á grundvelli nauðgunarákvæðisins. Nauðgunarákvæðið var svo rýmkað umtalsvert árið 2007 þegar t.d. misnotkun á andlegu ástandi, þroskahömlun, svefn eða ofurölvun til kynmaka var fært undir nauðgunarhugtakið.
Áður fyrr taldi samfélagið nauðgun einungis eiga sér stað þegar einhver, með því að beita ofbeldi og/eða hótunum, hafði kynferðismök við annan einstakling. Á þeim grundvelli var nauðgunarákvæðið sett fram til þess að hægt væri að beita slíka ofbeldismenn/konur viðurlögum. Megininntak nauðgunarákvæða hérlendis hefur haldist það sama þrátt fyrir að ýmsar samfélagslegar breytingar hafi átt sér stað.
Nú er staðan hins vegar önnur. Nú teljum við almennt að nauðgun eigi sér stað þegar einstaklingur hefur kynmök við einstakling gegn vilja hins síðarnefnda, óháð því hvernig sá fyrrnefndi stendur að þeirri framkvæmd. Ofbeldið sé sá verknaður að eiga kynmök við einstakling sem vill það ekki. Vandamálið sem þetta skapar er að nauðgunarákvæðið eins og það er núna nær ekki til flestra nauðgana. Vissulega reyna þeir sem þurfa að beita nauðungarákvæðinu, dóms- og ákæruvaldið, að beita því í takt við það sem samfélagið telur vera nauðgun en það nær bara ákveðið langt.
Af þessum ástæðum fór ég að hugsa um það hvort ekki væri hægt að breyta nauðgunarákvæðinu í takt við samfélagslegan skilning á hugtakinu nauðgun. Þannig að við værum ekki með kringumstæður þar sem „einhverjum var nauðgað en enginn nauðgaði“. Þarna er ég að vísa til tilvika sem hindra að mörg nauðgunarmál fara fyrir dóm. Einhver upplifir það að við hann voru höfð kynmök án þess að hann hafi viljað það. Hann sagði ekki „nei“ berum orðum en haft var við hann kynmök gegn vilja hans. Það er hins vegar enginn sem getur borið ábyrgð á nauðguninni þar sem ekki er hægt að leiða fram ásetning gerandans til þess að þvinga viðkomandi til kynmaka. Þess vegna er ekki ákært, þar sem ekki er líklegt að viðkomandi verði sakfelldur. Í kynferðisbrotum er samþykki horsteinn þess þegar meta á hvort um brotlega hegðun sé að ræða. Kynferðislegt samþykki vísar til þess að einstaklingar eigi ekki að gera ráð fyrir að samþykki sé fyrir hendi nema að það sé skýrt og skilmerkilega yrt og rætt milli þeirra einstaklinga sem ætla að eiga í kynferðislegu sambandi.
Ein afdrifaríkasta leið sem hægt er að fara er að gera einstaklingum samfélags það ljóst hvenær þeir eru að feta villu vegar og refsa þeim sem gerast brotlegir. Í íslensku réttarkerfi getur þú brotið af þér af ásetningi en einnig af gáleysi. Hugtakið gáleysi vísar þá til þess þegar einstaklingur álítur, eða heldur, eða ætti að halda, að hegðun hans valdi afleiðingum sem er refsiverð, en treystir af einhverjum ástæðum á að sú afleiðing komi ekki fram eða að hann hafi rangt fyrir sér. Þetta þýðir að þú brýtur hugsanlega ekki af þér að yfirlögðu ráði, en þú gerir það enga að síður.
Lagabreytingin um nauðgun af gáleysi og að skilyrði um ofbeldi og hótun verði fellt út hefði hugsanlega því í för með sér að nauðgunarákvæðið næði til þeirra brota sem við almennt teljum vera nauðgun. En nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga eins og það er núna nær ekki til. Þá fer jafnframt að skipta máli hvernig kringumstæður voru almennt. Að sá sem liggur undir grun hefði mátt gera sér grein fyrir því að brotaþoli hefði ekki veitt samþykki; að góður og gegn borgari hefði getað lesið það úr kringumstæðunum að viðkomandi hafði ekki veitt samþykki fyrir kynmökunum. Afleiðingin af þessu er að ákæruvaldið getur sýnt fram á kringumstæður og aðstæður sem gefa til kynna brot, og leitt í ljós hvað eðlilegt fólk hefði mátt ætla í þessum kringumstæðum. Fleiri mál fengu því hljómgrunn í íslensku réttarkerfi og sú neikvæða þróun að þolendur kynferðisglæpa kæri ekki myndi vonandi að einhverju leyti upprætast.
Nauðgun af gáleysi hefur ekki þann tilgang að snúa við sönnunarbyrðinni. Ákæruvaldið þyrfti ennþá að sýna fram á að atvik áttu sér stað og leiða í ljós þær kringumstæður sem voru uppi til þess að hægt væri að meta afstöðu gerandans til kringumstæðnanna og það hvort brotaþolinn hafi viljað stundað kynlíf eða ekki.
Það má vel vera að þessar hugmyndir þyki róttækar. Vandamálið er hins vegar að ein tegund nauðgana, sem er hvað algengust, fær sjaldan fyllilega ef einhverja afgreiðslu í réttarkerfinu. Það er hægt að færa fyrir því góð rök að ástæða þess sé að nauðgunarákvæðið nái ekki til þeirra brota. Þá þurfum við að breyta ákvæðinu þannig að það endurspegli almenna réttarvitund og einstaklingar viti að samfélagið virkar ekki þannig að þeir geti gengið út frá því, nema annað komi í ljós (mótmæli og/eða andspyrna) að fólk vilji láta hafa við sig samræði. Einstaklingar verða að spyrja og passa upp á að þeir hafi fengið fullt samþykki fyrir kynmökum. Með slíkri lagasetningu þvingum við einstaklinga til þess að hegða sér með þeim hætti. Þannig bætum við kynhegðun þessar þjóðar.
Athugasemdir