Ég tek strætó 10 sinnum í viku, í vinnuna á morgnana virka daga og heim í eftirmiðdaginn. Þetta er heilög stund sem tekur hræðilega stuttan tíma frá Grandanum á Hlemm með númer 13. Ég les teiknimyndasögur á leiðinni og næ varla að lesa heilt blað, 24 síður, á þessum spotta. Það fer vissulega eftir efninu, sumar sögur eru auðlesnari en aðrar. Þetta er frábær byrjun á deginum og slítur svo heilann frá verkefnum vinnunnar á leiðinni heim. Og eins og ég segi, ég óska þess undantekningalítið að geta setið lengur við og lesið. Þetta er frábær stund en vissulega ekki eins alla daga. Það er margt sem getur truflað í strætó.
Um daginn sat ég alla leiðina frá Hlemmi og heim með mann mér á vinstri hönd sem hlustaði á Wannabe með Spice Girls í botni í símanum sínum. Með heddfóna? Neinei, bara með draslið á spíker og allt í mígandi botni. Wannabe er ekkert mjög langt lag svo það fékk að hljóma oft á leiðinni. Fullorðinn maður sko, örugglega kominn yfir þrítugt. Einn. Vinalaus pottþétt. Ég las ekki mikið þann legginn. Andskotans djöfull.
Fleira truflar auðvitað. Fólk sem heldur að allur vagninn þurfi að heyra þegar það talar, annaðhvort við sessunautinn eða í símann. Unglingar eru verstir með þetta. Unglingar eru ógeðslegir, allavega þessar týpurnar. Stelpurnar verri. Djöfull sem þær halda að þær séu frábærar. Rangt. Kolrangt.
Rakspíra- og ilmvatnslykt er sérstakur kapítuli. Í fyrsta lagi er fólk greinilega fullkomlega smekklaust þegar kemur að lykt og í öðru lagi hljóta þessir ilmbjánar að skammta sér stöffið með desilítramáli. Note: Þegar þig svíður í augun og þú finnur bragðið ertu að nota of mikið.
Ég treysti mér ekki til að tala um útlendinga og þroskahamlaða því þá yrði allt brjálað. En þroskahamlaðir geta alveg verið með rakspíra líka.
Verstu stundirnar eru þegar heilir leikskólar andskotast upp í vagninn. Eitt barn í strætó er yfirleitt í lagi, nema að það ilmi af kúk og/eða ælu. Tvö börn eru yfirleitt óþolandi og allt þar yfir er alger pest. Því segir það sig algerlega sjálft að 45 börn í bandi eru eins og smitvopnafaraldur. Þegar bandið losnar og þessir hormaurar raða sér á garðann, gólfið, sætin, upp um loft og rúður og snýta sér yfir teiknimyndasögurnar mínar þá missi ég trúna á allt sem gott er. Pollagallalykt og brjálæðisaugnaráð hvert sem litið er. Þetta gerist nú sem betur fer ekki oft en þegar þetta hendir hugsa ég raunverulega um það að fara út úr vagninum og bíða eftir næsta. En ég kemst auðvitað ekki út vegna þess að litlir barnsskrokkar þekja gólf og ganga. Maður má víst ekki stíga á börn. Synd og skömm.
„Þegar bandið losnar og þessir hormaurar raða sér á garðann, gólfið, sætin, upp um loft og rúður og snýta sér yfir teiknimyndasögurnar mínar þá missi ég trúna á allt sem gott er. “
Svo þarf auðvitað að tala um bílstjórana. Það er fólk sem er haldið lífsleiða og ranghugmyndum um þyngdaraflið. Ég hef í marggang þurft að grípa í stangir og sætisbök á þessum örstutta kafla til þess að súrra ekki flatur á gólfið. Að auki er mjög góð regla að sökkva sér sem dýpst niður í lesturinn því akstursaðfarirnar eru slíkar að hending ein ræður því að ekki verði árekstur og að við farþegarnir hreinlega deyjum. Þegar ég dey ætla ég að vera að lesa teiknimyndasögu.
Já, það er margt sem getur eyðilagt góða strætóferð.
Ókei, ókei, öndum aðeins með nefinu. Auðvitað er þetta ekki alveg svona óskaplegt allt saman þótt þetta sé allt saman satt. Svo við tölum í fullri alvöru fagna ég mannlífinu eins og það kemur fyrir. Auðvitað eru þessi fyrrnefndu börn glöð og þrjótarnir líka. Það er fallegt. Ég held meira að segja að Spice Girls-bjáninn hafi verið ánægður. Fáviti vissulega, en samt glaður. Gott mál. Ég ætla svo sem ekki að tala sérstaklega um bílstjórana því það eru held ég upp til hópa menn á miðjum aldri með brostna flugmannadrauma. Að keyra strætó er örugglega mjög niðurdrepandi þegar þú óskar þess daglega að hann sé Boeing 747. En það sem ég er að segja er að ég hlýt að eiga að bera virðingu fyrir og þola þessa óskaplegu rakspíralykt. Jújú, ég get að sjálfsögðu sagt að fólk sé fávitar en það breytir því ekkert að við megum öll fara upp í sama vagninn.
Nýlega var til umræðu sú hugmynd að leyfa hunda í strætisvögnum, umræða sem varð grjóthörð á endanum. Ég er ekki hundamaður, mér finnst dýr bara fín en almennt fara þau frekar í taugarnar á mér en hitt. Hundaeigendur eru auðvitað brjálæðingar, kalla hundana sína börnin sín, klæða þá í fokking föt og tala um hversu mikið þeir skilji og viti. Hundar eru bara hundar. Heimsk dýr sem skíta á gólfið. En í hvaða veröld er það eðlilegt að ég setji mig upp á móti því að hundar megi koma inn í strætó? Auðvitað má það. Fólk fær óskaplega mikið út úr því að halda þessi dýr og auðvitað eigum við að gleðjast með þeim. En nei, reiðiraddirnar gegn þessu brjálæðisverki voru hatrammar. Svo það sé alveg á kristaltæru eru hundarnir ekki vandamálið heldur þú, óumburðarlyndi og samkenndarlausi fáviti. Og börnin með horið fljótandi niður lambhúshetturnar eru ekki vandamálið heldur ég.
Nákvæmlega þetta viðhorf er allt sem slæmt er við samfélagið okkar. Ertu með ofnæmi? Þá ert þú vandamálið. Þú ert með helvítis ofnæmið. Taktu töflu og gleðstu með fólkinu í kringum þig þótt það sé ekki nákvæmlega eins og þú. Mér finnst háværu unglingsstelpurnar í alvörunni mjög leiðinlegar og þær eyðileggja lesturinn minn. En þær mega vera í strætó.
Athugasemdir