Dagarnir byrja allir eins. Ég lýg því að sjálfum mér að núna sé komið að því að hún læri að kúra aðeins í fanginu á mér svona áður en hún sprettur á fætur. Ég veiði hana upp úr rimlarúminu og legg hana á milli okkar. Átján mánaða, farin að segja ýmislegt og skilur hvert einasta orð sem ég segi við hana. En þetta er alltaf eins. Klukkan er sjö og ég fæ tvö örsmáa barnshæla á kaf í rifjahylkið á mér. Ég verð að ná nokkrum mínútum enn í svefn. Ég teygi mig í símann minn og opna YouTube. Auðvitað er ekkert sjálfsagðara en að rétta fávita glænýtt snjalltæki sem kostar svona 150.000 krónur. Skjárinn er reyndar brotinn. Það var mér að kenna, ekki henni. Svo er bara að reyna að berja sig niður með þetta drasl í eyrunum. GiggleBellies held ég að þetta ógeð heiti. Hún þegir þó allavega á meðan en ég held að það sé nú reyndar meira vegna þess að hún er að reyna að opna barnalæsinguna á skjánum. Þú þarft bara að double-tappa þarna á iconið á skjánum. En auðvitað ertu of vitlaus til þess. Feis. Það er ekkert nóg að smyrja bara hori á glerið.
Ég sofna auðvitað ekkert aftur, það er borin von. Ég rís upp eins og ég þarf og klæði dýrið úr fötunum. Bö! Alltaf þegar ég dreg samfelluna upp fyrir höfuðið á henni og hún fær sjónina aftur. Bö! Og það er alltaf jafn fyndið víst. Ég klæði hana svo alveg úr og tek af henni bleiuna sem er svona 2 kíló af því að hún meig svo mikið á sig í nótt. Hún kúkar samt aldrei eiginlega á nóttunni, hún má eiga það. Hún gæti prófað að nota þetta sem meðmæli þegar hún sækir um vinnu í framtíðinni. „Ég kúka eiginlega aldrei á mig á nóttunni.“ Dagmæðurnar sjá um að gefa henni morgunmat á virku dögunum svo ég klæði hana bara í úlpu og húfu og skó og sendi hana af stað með mömmu sinni. „Bei!“ segir hún eftir að hafa kysst mig bless. Eða svo sem ekkert kysst neitt, hún kiprar varirnar saman eins og hún sé með kúk á efri vörinni og ýtir svo andlitinu í hausinn á mér. Bei? Segðu bæ, bjáninn þinn, þetta er eitt fokking atkvæði.
„Bei? Segðu bæ, bjáninn þinn, þetta er eitt fokking atkvæði.“
Þær fara og ég drulla mér á fætur. Ég sé hana ekki næstu átta klukkutímana.
Ég kem heim með strætó og opna dyrnar. Hún sér mig strax og setur upp undrunarsvip, þann sama og í gær og í fyrradag. Hvað er svona undarlegt við þetta eiginlega? Ég var bara að koma heim. Lýgur mamma þín því að þér hvern einasta dag að ég sé farinn frá ykkur? Svo heimtar hún auðvitað að ég taki hana í fangið og haldi á henni í ákveðinn tíma. Eftir það hrindir hún mér frá sér og heimtar að komast á gólfið. Ef ég er ekki snöggur að láta hana niður þá öskrar hún örugglega. Litli skítur, ertu að sparka þér frá mér? Þú ert í eins og hálfs metra hæð, sko. Viltu í alvörunni að ég láti þig gossa?
Púsla, segirðu? Þetta skánar nú eftir því sem á líður og þrautirnar þyngjast. Núna vorum við alveg að díla við 16 kubba og það er að verða allt of létt. Þegar hún átti í erfiðleikum með púslið sem taldi alveg heil þrjú stykki var erfitt að taka hana alvarlega. Þar að auki voru myndir af kubbunum þar sem þeir áttu að fara og risastórt handfang á hverjum. Hvernig er hægt að horfa framhjá fáránleikanum? Ha?
Við förum svo mjög oft út að leika. Moka sandi ofan í fötu til þess að sturta úr henni aftur. Flott. Skilar nákvæmlega engu nema því að við verðum að fara í bað þegar við komum heim. Það er að segja ef þú meikar að labba framhjá húskettinum sem liggur þarna og sefur. Það er nú öll ógnin. Og svo æðirðu fyrir bíla og gangandi vegfarendur eins og allir eigi að víkja fyrir þér. Þetta virkar ekki svona, þú hlýtur að sjá það?
Borðum áður en þú ferð í bað. Heldurðu að ég sjái þig ekki sleikja tómatsósuna af eggjakökunni sem ég var að reyna að koma ofan í þig? Eina ástæðan fyrir því að þetta tómatsósutár rataði á diskinn hjá þér til að byrja með var til þess að koma einhverju af þessum mat ofan í þig. Og nei, þú færð ekki „meja“. Éttu bara fokking matinn þinn, þú lifir ekkert á tómatsósu og vatni. Ah, er sem sagt nóg að ég hafi matinn bara á mínum diski og mati þig þaðan? Er þetta núna svona frábært? Þetta er sami maturinn. Fáviti!
Nei, þú mátt ekki fara með bók í bað. Hvernig í andskotanum meikar það sens? Sittu bara þarna og helltu vatni yfir þig þangað til ég veiði þig upp úr. Tignarlegt líka hvernig þú heldur að þú sért í alvörunni að flýja mig og tannburstann, dragandi hettuhandklæðið á eftir þér eins og slefheimsk ofurhetja á sýru. Ég næ þér alveg, þú áttar þig vonandi á því? Það er lokað út og þetta sem þú heldur að sé hlaup er það alls ekki. Þetta er eins og að eiga fullan dverg!
Bleia, náttföt, lesa, syngja og sofa. Undirbúa sama hringinn sem hefst eftir nokkra klukkutíma. Það er auðvitað útjöskuð klisja en þetta er best í heimi. Sjáumst á morgun, elsku litli bjáninn minn.
Athugasemdir