Boycott beib heimilisins, hún kærastan mín, var að setja mig í það að gúggla hvaða súkkulaði Nestlé framleiðir, því nú er víst bannað að kaupa neitt frá þeim.
Ég er alveg til í það, þar sem ég borða hvort sem er ekki Smarties.
Mér finnst þetta verra með eggin, þar sem mér finnst eggin frá þessum búum sem pynta hænurnar sínar miklu betri en frá þessum bændum sem klappa hænunum sínum og lesa fyrir þær upp úr Laxness-bókum á kvöldin við kertaljós.
Svo sakna ég líka beikons.
En þessi stöðugu viðskiptabönn sem eru í gangi á þessu heimili hljóta að hafa afleiðingar?
Mun Nestlé og dýrapyntarar og öll þessi hræðilegu fyrirtæki sem við höfum sett viðskiptabann á, ekki hefna sín á endanum?
Svo er hitt, mun kærastan mín fatta einn daginn að Marlboro kompaníið, hvers afurðir ég fæ enn að koma með inn á heimilið, er í raun eiturefnaframleiðslufyrirtæki?
Nú er ég ekki hræddur við stórfyrirtæki, því ríki lítilmagnans ræður ríkjum á Vesturlöndum og ég mun takast á við þetta skrímsli sem Nestlé er af öllu mínu afli. Það er göfugt. Ég býst við stuðningi almennings og náttúrulega Marlboro fyrirtækisins, sem hefur alltaf stutt almenning og hjálpað honum að rata í gröfina sem fyrst og alltaf verið svo tillitsamt gagnvart þrá fólks í dramatík að velja kvalafyllstu leiðina.
Ég er og verð þakklátur Marlboro frænda fyrir að vera svona vinsamlegur að velja fyrir mig hrylling sem ég hlakka til að fá ofan á hamborgarann minn þegar ég verð eldri. Ekki er ég að fara að taka ábyrgð á því að hafa troðið Marlboro frænda upp í mig.
Athugasemdir