Það verður aldrei hægt að reikna nákvæmlega út hvað íslenska bankahrunið kostaði. Verðmæti gufuðu ekki aðeins upp á methraða heldur var andlegri heilsu þúsunda einstaklinga stefnt í voða. Margir voru beygðir og sumir brotnuðu.
Mikilvægar stofnanir eins og sparisjóðir og tryggingafélög voru þurrausnar. Þjóðarframleiðsla glataðist þegar hagkerfið hægði á sér og gífurleg orka fór í deilur um hvernig bæri að leysa aðsteðjandi vanda á borð við Icesave og ofurskuldir heimilanna. Þúsundir fjölskyldna misstu húsnæði sitt og börn voru rifin upp með rótum. Sparifé fólks var hreinlega stolið þegar „sérfræðingar“ bankanna ráðlögðu því að færa peningana yfir á ótrygga reikninga. Þegar þessi sama flétta var framkvæmd hjá Lincoln Savings í Los Angeles, skömmu áður en bankinn fór á hausinn 1989, fóru yfirmenn í fangelsi. Eftir því sem best verður séð virðist þessi glæpur — sem lenti oft á gömlu eða auðtrúa fólki — ekki einu sinni hafa verið rannsakaður á Íslandi.
Gjaldþrot bankanna var heimssögulegt og miðað við höfðatölu sennilega alveg einstakt. Í ljósi þess að þúsundum milljarða var sturtað í botnlaust svarthol á mjög stuttum tíma — ef við miðum við tímasetninguna þegar bankarnir voru vinavæddir — þá er furðulegt hversu lítið kerfið hefur breyst. Sömu bankar (með smá kennitölubreytingum) og eyðilögðu hagkerfi þjóðarinnar virtust ekki eitt augnablik líta í eigin barm. Uppfærð eignasöfn keypt fyrir slikk blésu út bókhaldsgróða þeirra á meðan okurvextir og verðtrygging lána tryggðu að áfram var haldið að ganga í skrokk á almenningi.
Hugsið aðeins út í málið. Bankar sem stunduðu taumlausa fjárglæfrastarfsemi, spiluðu með eigið hlutabréfaverð með lánafyrirgreiðslum til hlutabréfakaupa, keyptu sér góðvild með kúlulánum, skuldsettu fiskinn í sjónum upp í rjáfur, borguðu stjórnendum ofurlaun, bröskuðu með innlend jafnt sem erlend fyrirtæki sem þeir greinilega kunnu ekki að stjórna, gerðu Seðlabankann gjaldþrota og stóðu loks yfir rjúkandi rústum hagkerfis heillar þjóðar … Þetta bákn byrjaði strax eftir hrun að græða á tá og fingri eða samtals yfir 370.000 milljónir síðan 2009!
Félagslegir bankar
Fyrir nokkru kom sú hugmynd fram að Reykjavíkurborg ætti að stofna sinn eigin banka og nota ríkisbankann (fylkisbankann) í Norður-Dakota í Bandaríkjunum sem fyrirmynd. Bankinn í N-Dakota er mjög sérstakur og öflugur, stofnaður 1919, og starfar að mörgu leyti eins og staðbundinn seðlabanki. Bankinn hefur reynst gífurlega vel, reyndar svo vel að einkabankarnir hafa oftar en einu sinni reynt að fá dómstóla til þess að loka honum. Betri meðmæli eru vandfundin. Kreppur og efnahagslægðir hafa sniðgengið N-Dakota að mestu síðan bankinn hóf starfsemi sína. Staðbundin fyrirtæki fá örugga fyrirgreiðslu og náms- og húsnæðislán veita félagslegan stöðugleika.
Það er alveg sama hvernig málið er skoðað, Reykjavík gæti hagnast mikið á að reka sinn eigin banka — og þá á alveg eftir að ræða félagslega þáttinn. Til þess að stofna banka þurfa nokkrir hlutir að vera til staðar:
Stofnfjármagn, veltufé, traust almennings og hæft starfsfólk. Allir þessir þættir eru innan seilingar. Borgin er gömul stofnun sem nýtur mikils trausts og hún sýslar með mikla fjármuni. Launagreiðslur og allar aðrar greiðslur tengdar borginni yrðu látnar renna í gegnum greiðslukerfi bankans. Reykjavík hefði líka aðgang að tryggum lánalínum og fjármagnskostnaður vegna innlendra lána hyrfi eins og dögg fyrir sólu, því gróði bankans rynni aftur beint til borgarinnar.
Öryggið sem er fólgið í því að eiga banka er líka ómetanlegt, því lánalínur geta gufað upp á erfiðum tímum. Að þessu leyti höfðu kreppurnar 1929 og 2008 lítil áhrif í Norður-Dakota. Lánasafn ríkisbankans var bundið í fyrirtækjum fylkisins, námslánum og landbúnaði — ekki fallvöltum skuldabréfavafningum eða öðrum pappírum sem spilavítið á Wall Street framleiðir á færibandi.
„Það er alveg sama hvernig málið er skoðað, Reykjavík gæti hagnast mikið á að reka sinn eigin banka — og þá á alveg eftir að ræða félagslega þáttinn.“
Raddir efasemda
Hugmyndir um félagslega lánastarfsemi, Reykjavíkurbanka eða nýjan Alþýðubanka af einhverju tagi, mæta strax andstöðu þeirra sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Gerum okkur strax grein fyrir að þessir aðilar og launaðir talsmenn þeirra eru ekki að hugsa um velferð venjulegs fólks. Sjálftökuliðið hefur í áraraðir sýnt sitt innra eðli.
Allir hlutlausir aðilar sem velta fyrir sér íslenskri hagstjórn hljóta þó að sjá að núverandi ástand bankamála er óþolandi. Einhverjir huldumenn eiga 95% í Íslandsbanka og 87% í Arion banka. Og þótt ríkið eigi Landsbankann að mestu sýna menn þar á bæ fáa samfélagslega takta. Miðað við nágrannaþjóðir okkar eru þetta allt okurlánarar. Enginn banki vill afnema lénsskipulag verðtryggingarinnar, kerfi sem veltir allri ábyrgð yfir á lántakendur og heldur gróðamaskínunni á sjálfstýringu.
Látum ekki okurkerfið standa í vegi fyrir eðlilegri samkeppni á bankamarkaði. Nýr banki sem byggir á sameignarstefnu, samfélagslegri ábyrgð og heiðarlegri samkeppni er þjóðinni lífsnauðsyn. Bankarnir þrír eru farnir að minna óþyrmilega á dönsku einokunarkaupmennina. Reykjavíkurbanki er frábær hugmynd og tímabær.
Athugasemdir