Síðustu ár hefur baráttan fyrir kynfrelsi kvenna náð ákveðnu hámarki með Druslugöngum og internetbyltingum á borð við #freethenipple, #þöggun og #6dagsleikinn. Sett í samhengi við ofangreint tímabil í íslenskri sögu er hér um ansi stórt stökk að ræða frá því að konur voru sakfelldar fyrir það eitt að leggja lag sitt við menn á eigin forsendum.
En betur má ef duga skal og fyrirfinnast ennþá þessi viðhorf um að íslenskar konur verði að vera „vandar virðingu sinni“ þegar kemur að útliti og/eða samskiptum við karlmenn, sér í lagi ef þeir eru erlendir.
Síðustu vikuna hef ég einmitt verið mjög hugsi vegna tveggja mála sem upp spruttu með tilheyrandi látum og höfðu afar sterka tengingu við þá vinnu sem ég var í við lestur ástandskjalanna.
Skammist ykkar
Það fyrra er meint „vingott“ ungra kvenna við poppstjörnuna Justin Bieber. Teknar voru af instagram reikningum þeirra myndasyrpur og birtar í fjölmiðlum, hvar þær sjást skemmta sér með kauða og víða mátti sjá fordæmingu á gjörðum þeirra á samskiptamiðlum. Gert var grín af þeim fyrir „hórerí“ og á kommentakerfum téðra miðla mátti einnig sjá glitta í drusluskömmun og niðurlægingu. - Ekki hans, heldur þeirra.
„Offorsið og viðbjóðurinn sem þær voru látnar ganga gegnum í nafni þjóðernistolts er okkur sem þjóð til ævarandi skammar.“
Undirrituð býr með heimsþekktum tónlistamanni. Ég minnist þess ekki að í upphafi sambands okkar hafi ég verið útmáluð með þessum hætti á íslenska veraldarvefnum. Það fær mig óneitanlega til að velta því fyrir mér hvort það hafi eitthvað með þjóðerni að gera, þ.e. að sambýlismaður minn skuli vera íslenskur, ekki bandarískur. Er virkilega svo stutt í þjóðerniskennd Íslendinga að sama hræðsla um eignarhald yfir íslenskum konum grípur um sig nú og þekktist í ástandinu?
Kynferðislegir naflar
Hitt dæmið er svo þessi fáránlegi skrípaleikur sem stendur um magabolanotkun stúlkna í Háteigskóla. Þar horfum við upp á það hvernig unglingsstúlkur eru gerðar ábyrgar fyrir óheilbrigðum kenndum (barnagirnd?) starfsfólksins í kringum sig. Þeim er gert að hylja naflann á sér af tillitsemi við aðra.
Erum við með þessum skilaboðum ekki einmitt að „gúddera“ þau viðhorf til kvenna um að þær eigi ekki líkama sína sjálfar? - Að þær séu þvert á móti almenningseign sem beri að klæða sig og haga sér eftir reglum siðapostula, annars geti þær sjálfum sér um kennt ef þær verða fyrir ofbeldi?
Hvernig komið var fram við hinar meintu ástandskonur er einn hryllilegasti smánarbletturinn á íslensku samfélagi. Offorsið og viðbjóðurinn sem þær voru látnar ganga gegnum í nafni þjóðernistolts er okkur sem þjóð til ævarandi skammar. Það er því krafa mín sem konu, móður, dóttur og systur, og tek ég heilshugar undir með Hafdísi viðmælanda mínum, að við þrýstum ærlega á stjórnvöld að viðurkenna að skömmin er okkar, ekki þeirra. Þá fer ég einnig fram á það að við sem samfélag lærum eitthvað af óhroðanum og látum þetta ekki endurtaka sig, ekki einu sinni þegar einhver sefur hjá Justin Bieber.
Með von um að ástandið lagist einn daginn, megi þessi viðhorf fokka sér duglega.
Athugasemdir