Klukkan er rétt rúmlega níu að morgni þann 22. mars 2016. Ég geng rösklega niður eftir Rue de la Loi breiðgötunni í Brussel vitandi að ég er alltof seinn á deildarfund á skrifstofunni. Skyndilega stöðvast tíminn. Og hann stendur í stað í um hálftíma þar á eftir.
Eftir því sem ég nálgast skrifstofuna hægist á allri umferð í kringum mig. Gangandi vegfarendur standa kyrrir fyrir framan mig, starfsfólk opnar glugga á byggingum og stingur höfðinu út og það heyrist í sírenum í fjarska. Í þann mund fyllist gatan af dökkgráum reyk við einn aðalinnganginn að Maelbeek lestarstöðinni. Ég fæ sterka ónotatilfinningu þegar fólk fyrir framan mig snýr sér svo við til að vara vegfarendur við að fara lengra. Eitthvað hræðilegt hefur gerst. Kannski er eldur laus?
Við hlið mér liggur öll vinna niðri á nýju byggingarsvæði því starfsmennirnir hafa hver á fætur öðrum klifið girðingu til að sjá betur hvað er að ske. Ég fæ þá fyrst að vita frá einum þeirra að það hafi orðið sprenging, en enginn veit hvar og hversu alvarleg hún er. Þá gengur óstöðugur maður í átt að mér. Ég fatta ekki fyrr en hann er farinn framhjá mér að hann er alblóðugur í framan og að helminginn vantar á dúnúlpuna hans. Ég átta mig þá fyrst að ég hef staðið stjarfur í fjöldanum í einhverjar mínútur.
Panikk og óreiða
Ég hugsa strax til þess hvort samstarfsfólk mitt sé óhult og reyni hvað eftir annað að hringja í það. Símkerfið liggur niðri vegna álags. Þá kemur annar seinn vinnufélagi, sem við getum íslenskað og kallað Elínu, og ég segi henni hvað hefur gerst. Við reynum saman að hringja þangað til við náum loks í einn starfsnema sem segir yfirmönnum okkar frá og neyðaráætlun er sett af stað. Öllum er sagt að sameina ferðamáta, forðast almenningssamgöngur og fara heim.
Elín vill komast burt af svæðinu sem fyrst, enda eru slökkvi- og sjúkralið komin á vettvang og hlúa að særðum fyrir utan lestarstöðina. Ég fer heim með henni, við veitum hvoru öðru stuðning og fylgjumst með fréttum á meðan borgin er í algjöru lamasessi á meðan þetta óreiðu ástand ríkir.
Þennan sama dag átti ég von á heimsókn frá Íslandi og var fluginu aflýst þann dag vegna sprengingar fyrr um morguninn á Zaventem flugvellinum í Brussel. Hefði flugvélin farið af stað klukkutíma fyrr frá Keflavík hefði líklega þurft að snúa henni við. Flugvöllurinn í Zaventem opnaði ekki að fullu aftur fyrr en í júlí þetta ár.
Lífið heldur áfram
Nú er ár liðið, þótt ótrúlegt sé, og ég veit ekki hvort samfélagið hér komist einhvern tímann í fyrra horf. Fyrr í þessum mánuði var stórt hverfi girt af vegna sprengjuleitar. Vopnaðir hermenn eru ennþá úti á götum við opinberar byggingar. Öryggisreglur hafa verið hertar og svæðum lokað reglulega vegna einhverrar ógnar. Hryðjuverkamönnum hefur því tekist að vissu leyti að auka samfélagslega tortryggni hér þar sem fólk er vart um sig. En þetta ástand hefur líka verið normalíserað.
Aðeins mánuði eftir árásina opnaði lestarstöðin í Maelbeek að nýju og þremur dögum síðar fór ég um hana líkt og þúsundir annarra borgarbúa. Öll óttumst við dauðann en vangaveltur um hugsanleg örlög mega ekki stjórna ákvörðunum á lífsleiðinni sama hvað á í hlut. Hryðjuverk koma ekki í veg fyrir að fólk taki upp þráðinn að nýju. Yfirveguð viðbrögð almennings eru öflugasta vopnið í baráttunni gegn öfgahópum. Við deyjum öll fyrr eða síðar og hryðjuverk er ennþá afar ólíkleg dánarorsök. Markmið okkar hlýtur að vera að lifa þangað til við deyjum.
32 almennir borgarar af 14 þjóðernum létust í hryðjuverkaárásunum á Zaventem-flugvellinum og Maalbeek-lestarstöðinni í Brussel 22. mars 2016. Yfir 300 aðrir slösuðust.
Athugasemdir