„Það er skrýtinn liðsforingi sem teflir liði sínu í öruggan ósigur og hetjudauða í stærsta málinu...“ segir Árni Páll Árnason um það hvernig hann ákvað að bakka út úr því að reyna að fá Alþingi til að samþykkja stjórnarskrá sem hafði þegar verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta var eitt af því fyrsta sem Árni Páll gerði eftir að hann varð formaður Samfylkingarinnar og hann gerði þetta án þess að ráðfæra sig við þingflokkinn sinn. Jóhanna Sigurðardóttir sagði við það tilefni að eftirmaður sinn hefði „skotið sig alvarlega í fótinn“.
Árni Páll skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann útskýrir hvers vegna hann steig fram í útvarpsviðtali og boðaði uppgjöfina með orðunum „ég vil því að við leggjum höfuðáherslu á að ná samstöðu um framhald málsins yfir í næsta kjörtímabil“. Tilfellið var að hann óttaðist áhrif þess að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn töluðu á móti því að samþykkja stjórnarskrána, sem þó hafði þegar verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann óttaðist að málið myndi tapast á Alþingi.
„Þeir flokkar sem voru að mælast með meirihlutafylgi voru harðir á móti málinu“
„Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að tala málið í kaf og töldu það vænlegt til vinsælda í aðdraganda kosninga. Það flækti málið enn frekar, enda þarf ný stjórnarskrá samþykki tveggja þinga og þeir flokkar sem voru að mælast með meirihlutafylgi voru harðir á móti málinu,“ skrifar Árni Páll í dag.
Vandamálið er bara þetta: Allur ferillinn við gerð nýrrar stjórnarskrár snerist um að minnka sérhagsmunaáhrif stjórnmálaflokka á gerð hennar. Það er því ekki hægt að leggja höfuðáherslu á hagsmuni og áhrif stjórnmálaflokka við endanlega yfirferð á þeirri stjórnarskrá sem samin var af sérstökum þjóðkjörnum fulltrúum sem áttu að semja stjórnarskrána, óháðir Alþingi.
Leiðin sem var farin var samkvæmt gamalli fyrirmynd og fyrirætlan sem á rót sína að rekja til krafna stjórnmálaflokka strax eftir að danska stjórnarskráin var tekin upp í flýti og tímabundið vegna skyndilegs sjálfstæðis landsins.
Prinsipp eða raunsæi. Í lífinu er það oft spurningin. Hvort maður eigi að standa á grundvallaratriðum eða gefa þau eftir vegna vantrúar á að hægt sé að framfylgja grundvallaratriðunum, eða þeirrar trúar að það sé þægilegra að gefa eftir. Hvort það eigi að fylgja eftir stjórnarskrá sem var hönnuð sérstaklega með þeirri aðferð að forðast inngrip stjórnmálamanna, og hámarka áhrif dreifðra hagsmuna almennings, eða hvort það eigi að gefa eftir í nafni óttans við skipbrot heilbrigðra fyrirætlana.
Í eldhúsdagsumræðum í haust bað Árni Páll okkur að ímynda okkur að við stæðum á Vatnajökli með honum og sæum allt mannfólk jarðar, og skynjuðum þar með, með einhverjum hætti, að við gætum hjálpað flóttamönnum.
„Og þegar við opnum augun, ætlum við þá að reyna að halda því fram, í fullri alvöru, að heimurinn se svo stór að við getum ekki haft áhrif á hann til breytinga og mannfjöldinn svo mikill að við skiljum ekki hver hann er? Nei. Það er ekki þannig. Er það ekki kannski frekar að við sannfærumst um að sú tilfinning okkar að við getum leyst vandann sé rétt en að það sem haldi aftur að okkur séu mótbárur og afsakanir ríkjandi valdakerfa?“
Raunveruleikinn er að það er kalt uppi á Vatnajökli. Það er yfirleitt skýjað. Stjórnarskráin er ennþá í nefnd. Nýja ríkisstjórnin ætlar ekki að samþykkja hana, þrátt fyrir órofa samstöðu Árna Páls með henni.
Ímyndum okkur að við séum stödd við Laugarskörð árið 480 fyrir Krist. Þegar Persanir voru að koma. Þar sem Spartverjar vörðust ofurefli í „orrustunni sem bjargaði Evrópu“. Árni Páll er liðsforinginn, en ekki Leonídas. Persarnir eru komnir. Árni Páll nær samkomulagi við Xerxes um að bakka úr Laugarskarði og taka orrustuna þegar betur árar.
Sagan hefði vissulega orðið átakaminni með fleiri Árna Pálum. Ef allir væru eins og Árni Páll væri heimurinn betri.
Það er svo bersýnilega einfalt að núverandi ríkisstjórn hefur mun minni áhuga á lýðræðisumbótum og mun meiri fyrirvara gagnvart beinu lýðræði heldur en fyrri ríkisstjórn, og hefur verið órög við að svíkja loforð þar að lútandi.
Sá flokkur sem hefur risið mest í skoðanakönnunum er sá sem mesta áherslu leggur á lýðræðisumbætur. Og það er ekki flokkur Árna Páls. Hann dó andhetjudauða.
Athugasemdir