Mig langar að biðja þig, kæri lesandi, að gera með mér dálitla hugaræfingu. Hugsaðu þér í smástund að þú sért formaður stjórnmálaflokks og nokkrar vikur séu til kosninga. Segjum að staðan sé þannig að fáeinir flokkar (nú í stjórnarandstöðu) teljist líklegir til að vinna saman en hafi þó ekki gert neina samninga um samstarf sín á milli eftir kosningar. Segjum að þinn flokkur sé að mælast með hlutfallslega gott fylgi í könnunum og þú getir verið nokkuð viss um að flokkurinn komi inn á þing með sterkan þingflokk. Skoðanakannanir sýna því miður að það sé mjög óvíst að flokkarnir fái meirihluta saman, en allt bendir til að með því að lýsa því yfir að þeir hyggist vinna saman og gera jafnvel drög að málefnasamningi fyrir kosningar, muni staða þeirra samanlagt batna verulega. En gallinn er sá að áhrifin á fylgi þíns flokks eru sáralítil og það gæti jafnvel hugsast að flokkurinn þinn stæði ögn betur að vígi einn og sér. Ættirðu að leita eftir samstarfi við hina flokkana fyrir kosningar eða ekki?
Við getum hugsað okkur að mjög áreiðanleg könnun líti svona út:
Það er að segja: Sé kosningabandalag myndað er mjög líklegt að það nái meirihluta samanlagt – þinn flokkur fengi þá líklega um 14% atkvæða. Hann kæmi hins vegar sterkar út einn og sér, fengi líklega 15–16% ef allir ganga óbundnir til kosninga. En slíkt myndi tæplega skila þeim meirihluta sem best væri að geta myndað. Það myndi ekki útiloka þinn flokk frá stjórnarþátttöku, þýddi bara að stjórnarmyndun með einmitt þessum flokkum myndi ekki ganga upp. Hvað er best að gera?
Þegar fjórðungur verður meirihluti
Staðreyndin er sú að íslenskir stjórnmálaflokkar standa stöðugt frammi fyrir þessari spurningu eða viðlíka. Flest bendir til að kosningablokk sem mynduð væri um málefni eða jafnvel heilan málefnasamning fyrir kosningar myndi mælast vel fyrir hjá kjósendum. Það má nefna R-listann sem ágætt dæmi um þetta. Hvað svo sem manni kann að finnast um þann lista og valdatíð hans þá hefði hann líklega meirihlutann enn þann dag í dag ef hann hefði ekki liðast í sundur af öðrum ástæðum.
Í þessu tilbúna dæmi geri ég ráð fyrir að flokkurinn þurfi að velja á milli meira fylgis fyrir sjálfan sig eða meira fylgis kosningabandalagsins. En fleira skiptir máli. Kosningabandalag bindur flokkana fyrir kosningar – dregur úr valdi þeirra – en gerir kjósendum mögulegt að velja ríkisstjórn – eykur semsagt vald þeirra. Nú skyldi maður ætla að slík tilfærsla valda sé í anda lýðræðis: Því meira vald sem kjósendur hafa, því betra. En þetta er ekki svona einfalt. Því miður. Hagsmunir flokkanna felast ekki endilega í því að tryggja sem mest áhrif kjósenda á stjórnarmynstur og stefnumál ríkisstjórnar. Hagsmunir þeirra birtast frekar í því að hámarka eigið svigrúm til stjórnarþátttöku eftir kosningar. Og tryggja full völd þeirra yfir því hvaða mál hægt er að láta lifa í stjórnarsamstarfi og hver fái að deyja.
Þess vegna eru mestar líkur á því að þú munir, rétt eins og aðrir formenn eða leiðtogar stjórnmálaflokka, hika áður en þú fellst á samstarf. Þú munt spyrja þig þeirrar spurningar hvort hlutverk þitt sé ekki að hámarka áhrif þíns flokks – hvort það sé ekki einmitt það sem kjósendur þínir vilji, og svo komast að þeirri niðurstöðu að best sé að vera óbundinn. Eftir kosningarnar gæti nefnilega vel farið svo að til greina komi að taka þátt í ríkisstjórn með flokkum sem hafa haft allt önnur markmið en þinn flokkur í kosningabaráttunni og þá þarf að vera gott svigrúm til samninga. Kjósendurnir vilji jú að sinn flokkur fari í ríkisstjórn.
Málefnasamningur núverandi ríkisstjórnar er fínt dæmi um þessa pólitík: Sjálfstæðisflokkurinn var fyrir kosningar andvígur svokallaðri lánaleiðréttingu sem Framsóknarflokkurinn barðist fyrir. Flokkurinn taldi, eins og þorri Íslendinga, að það væri fjarri öllum markmiðum um heilbrigð ríkisfjármál að nota tugi eða hundruð milljarða til slíkra hluta. Ef ríkið hefði yfir þessum fjármunum að ráða ætti að nýta þá á allt annan hátt. Fjórðungur kjósenda var á annarri skoðun og sá fjórðungur fékk að hafa vit fyrir öllum hinum vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn mat það svo að betra væri að komast í ríkisstjórn en standa fast á þeirri afstöðu sem kjósendur flokksins höfðu staðfest með því að kjósa hann, að leiðréttingin væri ekki skynsamleg aðgerð. Þannig sjá flokkar sér leik á borði að ná fram stefnumálum í viðræðum eftir kosningar sem þeir vita vel að kosningabandalag gæti aldrei tekist um. Það eru að sjálfsögðu kjósendur sem tapa – enn er dregið úr völdum þeirra.
Sjálfhverfir, innhverfir og einráðir
Íslenskir stjórnmálaflokkar eru sjálfhverf fyrirbæri. Þeir ráðgast ekki mikið við kjósendur yfirleitt. Stefnumál eru rædd í svokölluðu málefnastarfi flokkanna sem fer fram í kringum flokksþing þeirra eða landsfundi og svo kynna þeir málefnin misítarlega fyrir kjósendum fyrir kosningar. Kjósendur geta valið á milli þess að ganga til liðs við flokkana eða kjósa þá. Fyrir þá sem vilja hafa áhrif á yfirlýsta stefnu flokkanna er fínt að velja sér einhvern flokk, ganga til liðs við hann og taka svo þátt í að ræða og velja stefnumál þess flokks. Þá getur maður líka hugsanlega fengið að taka þátt í hinni stóru ákvörðun, þegar til kemur, um hvort flokkurinn eigi að setjast í ríkisstjórn. Hin sem hafa ekki áhuga á að vinna innan flokka – annaðhvort vegna þess að þau hafa annað við tíma sinn að gera eða eru ekki nógu sammála neinum einum flokki til að geta tekið virkan þátt í starfi hans – láta sér þá nægja að kjósa einhvern flokk. En gallinn er augljós: Það hefur takmarkað forspárgildi um stefnu ríkisstjórnar að flokkur með tiltekið stefnumál sé hluti af henni. Þetta vita til dæmis þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn 2013 vegna þess að þeir voru sammála flokknum um að lánaleiðrétting væri ekki skynsamleg aðgerð.
„Það hefur takmarkað forspárgildi um stefnu ríkisstjórnar að flokkur með tiltekið stefnumál sé hluti af henni.“
Íslenskir kjósendur, sem kjósa sína sjálfhverfu stjórnmálaflokka, eru seinþreyttir til vandræða. Vissulega getur myndast ólga í samfélaginu yfir ákveðnum málum og eftir hrunið er miklu auðveldara að fá fólk út á götur til að mótmæla en áður, eins og dæmin sanna. En kjósendur eru ekkert mikið að abbast upp á stjórnmálaflokkana eða heimta neitt af þeim. Þeir láta þá bara fara sínu fram. Vinna sitt málefnastarf og setja fram sína stefnu. Þeim virðist ekki þykja það tiltökumál að það séu síðan bara mál flokkanna „óbundinna“ að mynda þá ríkisstjórn sem þeim hentar.
Um síðustu helgi fylgdumst við þannig í ofvæni með einum sjálfhverfum stjórnmálaflokki há sitt innhverfa flokksþing þar sem einum formanni var skipt út fyrir annan. Þó að flestir virðist sammála um að þetta hafi verið heppileg ákvörðun fyrir flokkinn, hefur enginn hugmynd um hverju þetta breytir um stefnu eða málefni. Á meðan öll spennan beindist að baráttunni um formennskuna komu flokksmenn hver af öðrum í ræðustól og tuldruðu um hríð um niðurstöður málefnavinnu sem varla fundarmenn sjálfir virtust hafa áhuga á. Enda er það ekki hún sem skiptir máli á endanum.
Horfum á konsingabaráttuna frekar en úrslitin
Það er ein góð ástæða fyrir því að taka þátt í alþingiskosningum og hún er sú að með því sé hægt að hafa áhrif á stefnu næstu ríkisstjórnar. En þar sem algjör óvissa ríkir um það fyrir kosningar hvers konar ríkisstjórn verður mynduð eftir kosningar, alveg sama hvernig kosningarnar fara, hefur þátttaka í kosningum nær engin áhrif á þetta. Ef íslenskir kjósendur væru ekki svona seinþreyttir til vandræða myndu þeir gera miklu ríkari kröfur til flokkanna um meira en almenn kosningaloforð. Þeir myndu vilja sjá útfærðar hugmyndir um ríkisstjórnarsamstarf þar sem lægi fyrir hvaða mál yrðu í fyrirrúmi hjá flokkum sem ætluðu að vinna saman. Flokkarnir halda því að sjálfsögðu fram að með því að „ganga óbundnir til kosninga“ séu þeir að auka valfrelsi kjósenda – en það er auðvitað vitleysa, þeir eru fyrst og fremst að hámarka valfrelsi sitt.
Ég verð að viðurkenna að í barnaskap mínum hélt ég að núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndu taka höndum saman um nokkur stór mál fyrir kosningar og lýsa því yfir að þessir flokkar ætluðu í sameiningu að tryggja ákveðna stefnu í þeim, ef þeir hefðu styrk til eftir kosningar. En ekkert slíkt hefur gerst. Jafnvel Píratar, þetta nýja og ferska stjórnmálaafl, virðast jafn sokkin og hin í innra málefnastarf auk túlkunarfræði í kringum svokallaða grunnstefnu sína að stöðugt minni ástæða virðist vera til að ætla að þeir muni hegða sér öðruvísi en aðrir flokkar eftir kosningar.
Ég held nefnilega að hafi eitthvað í raun og veru breyst í íslenskri pólitík á þessum átta árum sem í dag eru liðin frá því að forsætisráðherrann (sem fram að því fullyrti að allt væri í stakasta lagi) bað Guð að blessa Ísland, gráti nær, þá verði það að koma fram fyrir kosningarnar. Hvers vegna skyldu flokkar sem heyja baráttuna á nákvæmlega sömu forsendum og hingað til hefur verið gert að haga sér öðruvísi eftir kosningar en hingað til hefur verið gert?
En kannski á maður ekki að missa vonina strax. Það eru þrjár vikur eftir enn.
Athugasemdir