Í útvarpinu á miðvikudagsmorgni 1. febrúar síðastliðinn, þá var Óli Björn Kárason mættur til að tala um Donald Trump. Enda eru allir að tala um Donald Trump þessa dagana og það kemur ekki til af góðu. Hvað sem um Bandaríkin hefur mátt segja undanfarna áratugi, þá hafa þau þó að minnsta kosti haft á sér yfirbragð stöðugleika, en hann virðist svo sannarlega fyrir bí. Bandaríkin stefna nú í að verða skríparíki sem enginn getur vitað hverju muni næst taka upp á. Og það er vissulega áhyggjuefni út af hinum gífurlega herafla sem ríkið ræður yfir, að ekki sé minnst á öll kjarnorkuvopnin.
En sem sagt, þarna var Óli Björn mættur til að tala um Trump. Tilefnið var bersýnilega að deginum áður hafði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, kallað Trump fasista á Alþingi.
Óli Björn bar í bætifláka fyrir Trump og aðgerðir hans. Ekki fullum fetum, en hann bar samt í bætifláka fyrir Trump, það er engin leið að neita því. Og einkum féll honum illa fasistastimpillinn.
„Ég held að það sé ekki sæmandi þingmönnum að líkja forseta Bandaríkjanna … við fasista,“ sagði Óli Björn. „Það finnst mér of langt gengið. Við getum verið ósammála öllu því sem hann segir og öllu því sem hann gerir. En við köllum ekki þjóðhöfðingja Bandaríkjanna, lýðræðislega kjörinn forseta, fasista.“
Þetta er merkilegt sjónarmið. Nú veit ég ekki alveg hvort ég er tilbúinn til að skrifa undir lýsingu Ástu Guðrúnar á Trump sem fasista. Lýðskrumsaðferðir hans í kosningabaráttunni í fyrra sem og ýmislegt af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur frá því hann tók við völdum – margt af þessu ber vissulega keim af fasisma. Sé það nóg til að Ásta Guðrún telji rétt að kalla hann þessu nafni, þá ber ég fulla virðingu fyrir því. Athugið að þótt einhver sé kallaður fasisti á grundvelli vinnubragða sinna og stefnumála, þá er ekki endilega verið að klína á hann sök á helförinni í seinni heimsstyrjöld.
En það sem var merkilegt við sjónarmið Óla Björns var að ekki mætti kalla Trump fasista af því hann væri lýðræðislega kjörinn. En auðvitað er vel hægt að vera lýðræðislega kjörinn fasisti. Stærsta og skelfilegasta dæmið er svo augljóst að það tekur því varla að nefna það. Best ég geri það samt: Adolf Hitler.
En það þarf ekki svo gróteskt dæmi. Bæði í Ungverjalandi og nú síðast í Póllandi hafa komist til valda leiðtogar sem stefna beina leið til fasisma. Svo það er ekkert hæft í því sem Óli Björn gaf til kynna.
Af hverju sagði hann þetta þá? Því auðvitað þekkir hann þetta dæmi. Auðvitað veit hann að Hitler komst til valda eftir lýðræðislegum leiðum. Jú, þetta er greinilega partur af undarlegri herferð sem ýmsir hafa nú lagt í til að bera í bætifláka fyrir Trump og felst meðal annars í að ekki megi mótmæla honum af því hann var lýðræðislega kjörinn. Þar með eigi fólk eiginlega að sætta sig við allt sem frá honum kemur.
En fyrst ég minnist á Óla Björn – þá má hann fara að vara sig á því hvernig hann talar. Tal hans um að taka á „mæta öllum þeim með hörðum stálhnefa sem ætla að koma hingað til Íslands sem, í rauninni, ja eigum við að segja, misnota velferðarkerfið okkar,“ það var beinlínis skuggalegt.
Óli Björn Kárason – sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst yfir sérstöku trausti á með því að gera hann að formanni efnahags- og viðskiptanefndar nema stjórnarandstaðan (sem meirihluti kjósenda styður) fær enga nefndarformennsku – grípur þarna til líkingamáls sem … já, það er engin leið að tala um það neina tæpitungu … sem svipar mest til talsmáta fasista og kommúnista framan af 20. öld.
Af hverju á að taka á móti flóttamönnum með „stálhnefa“? Óli Björn getur skákað í því skjólinu að hann hafi verið að tala um þá sem „misnota velferðarkerfið okkar“ en hvenær hefur hann talað svona um einhverja aðra sem misnota hitt og þetta í samfélaginu? Ég minnist þess ekki til dæmis að hafa heyrt Óla Björn Kárason tala um að taka á hugsanlegum aflandseyjasvikurum með „hörðum stálhnefa“.
Enda væri hann þá líklega farinn að bíta aðeins of nærri greninu.
En það er líka athyglisvert að aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki mótmælt þessu orðavali félaga síns. Meðan svo er bera þeir líka ábyrgð á svona fruntatali.
Athugasemdir