Sex ár í röð hefur Ísland verið efst í árlegri úttekt World Economic Forum á stöðu jafnréttismála í 136 löndum. Hin Norðurlöndin fylgja nú Íslandi fast eftir og raða sér í fimm efstu sætin, Finnland númer tvö, Noregur þrjú, Svíþjóð fjögur og Danmörk í fimmta sæti. Það er því ekki að ósekju að talað er um Norðurlöndin sem fyrirmyndir annarra ríkja þegar kemur að jafnréttismálum.
En löndin eru innbyrðis ólík og staða kvenna og jafnréttisbaráttunnar að ýmsu leyti mjög mismunandi innan Norðurlandanna. Þetta á bæði við um lagaumhverfi, inntak jafnréttisbaráttunnar og ekki síst áferð umræðunnar um jafnréttismál.
Það er til dæmis sitt hvað að vera femínisti á Íslandi og í Svíþjóð, þar sem stjórnmálamenn, flokkar og jafnvel ríkisstjórnir keppast við að tengja sig við hugtakið, eða að vera femínisti í Danmörku eða Finnlandi þar sem orðið er enn hálfgert skammaryrði, notað gegn pólitískum andstæðingum til að gera þá marklausa. Í Danmörku á þessi neikvæði stimpill reyndar ekki bara við um orðið sem slíkt, heldur eru jafnréttismálin almennt nánast feimnismál í stjórnmálaumræðunni.
Vændi og klám
Kaup á vændi er löglegt, bæði í Finnlandi og Danmörku, en hin löndin þrjú hafa öll fært ábyrgðina á kaupandann og gert kaup á vændi refsivert. Þessi mismunandi áhersla á ábyrgð gerandans endurspeglast vel í umræðunni.
Þannig lifir hamingjusama hóran góðu lífi í opinberri umfjöllun í Danmörku og Finnlandi og fjölmiðlar halda uppi afar jákvæðri mynd af vændi og klámi, bæði sem sjálfsagðri vinnu ungra kvenna og eðlilegri þjónustu sem karlar sækjast eftir.
Í Danmörku er til að mynda afar vinsæll sjónvarpsþáttur, þar sem tveir jakkaklæddir karlar á miðjum aldri, virða fyrir sér naktar konur í myndverinu og gefa þeim útlitseinkunnir.
Konukroppurinn er með öðrum orðum, sjálfsögð söluvara, enda hennar val og vilji samkvæmt umræðunni.
Síðan Noregur innleiddi lögin, sem gera kaup á vændi refsiverð, hefur umræðan um þessi mál breyst umtalsvert þar. Í nýlegri skýrslu um árangur vændislaganna, kom fram að afstaða ungra karla til vændis er mun neikvæðari í dag en hún var þegar lögin voru sett. Þá var vændi, nektardans og klám sýnt í mun jákvæðara ljósi í fjölmiðlum, og meðal ríku og frægu karlanna, meðal annars í atvinnulífinu var kaup á konum sjálfsagður hluti af skemmtanalífinu.
Launamunur kynjanna og atvinnulífið
Á öllum Norðurlöndunum snýst jafnréttisbaráttan að miklu leyti um stöðu kvenna á vinnumarkaði, ekki síst launamun kynjanna.
Í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hefur krafan um fleiri heilsdagsstörf fyrir konur verið áberandi, en allt að þriðjungur kvenna þar vinnur aðeins í hlutastörfum, þó þær vilji vinna meira. Með aukinni atvinnuþátttöku kvenna ætla menn því að launamunurinn minnki.
Í Danmörku heyrast reyndar enn þær raddir meðal stjórnmálamanna, á þingi og í fjölmiðlum, að óeðlilegur launamunur kynjanna sé ekki til staðar.
Mögulega þurfi að kenna konum að semja betur um sín kjör, en þær geti auðvitað sagt upp ef þær eru óánægðar ...
Í Svíþjóð er einnig mikið rætt um mögulega kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og hefur ríkisstjórnin gefið það út, að verði 40% markinu ekki náð fyrir 2016 verði fordæmi Noregs og Íslands fylgt, og kynjakvótar settir í lög. Í Finnlandi og ekki síst Danmörku, er allt tal um kynjakvóta, hvort sem er í opinberri umræðu fjölmiðla, stjórnum fyrirtækja eða innan stjórnmálanna, oft afgreitt sem forréttindakröfur kvenna, sem í senn séu óþarfar og niðurlægjandi fyrir konur, enda eigi hæfileikar að ráða.
Ofbeldi gegn konum
Líkt og á Íslandi, er krafan um aukið öryggi kvenna mjög hávær í Svíþjóð. Þar hefur ný ríkisstjórn heitið því að skoða allar mögulegar leiðir til að bæta réttindi og aðstæður þolenda nauðgana, meðal annars með því að leggja aukna sönnunarbyrði á herðar hins brotlega um að samþykki beggja hafi legið fyrir. Kröfur um að misnotkun nektarmynda á netinu verði meðhöndluð eins og nauðganir eru líka áberandi.
Í hinum löndunum fer þessi umræða einnig vaxandi, þó hægt gangi. Nauðgunum virðist enda fjölga og á síðasta ári voru fleiri konur myrtar í Danmörku en nokkru sinni fyrr. Í nýlegri könnun kom einnig fram að rúmlega 14% Dana, telja að þolendur nauðgana beri sjálfir ábyrgð á nauðguninni.
Það er því fullt tilefni fyrir Druslugöngur víðar en á Íslandi og háværir stjörnufemínistar hafa verk að vinna á öllum Norðurlöndum.
Athugasemdir