Eitt helsta einkennið á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem stjórnmálamanni er að hann hefur lagt áherslu á að finna sér óvin.
Hann deilir þessu með öðrum stjórnmálamönnum, mörgum þeim verstu í heimssögunni.
Sumir stjórnmálamenn reyna alltaf að leiða stríðsástand, eða hugmyndina um stríðsástand, yfir fólk. Ástæðan er að í stríði má réttlæta allt. Og í stríði leitar fólk til leiðtoga. Hrætt fólk hugsar síður sjálfstætt og sýnir meiri fylgisspekt.
Myndmál stríðs á flokksfundi Framsóknar
Í setningarræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina gekk Sigmundur Davíð lengra en áður. Ræðan var uppfull af myndmáli stríðs og hann virtist vilja sannfæra flokksmenn sína um að framtíðaröryggi Íslendinga væri ógnað, að óvinir Íslands og Framsóknarflokksins beittu öllum tiltækum ráðum, og að í því stríði myndu þeir sem fylgdu honum ekki í stríðinu skaða alla aðra. Eftir fundinn setti hann þann flokksmann sem vildi mótframboð gegn honum í flokk með andstæðingum Framsóknarflokksins.

Í upphafi ræðunnar birti Sigmundur mynd af Kínamúrnum, sem var reistur til að verjast árásum Mongóla. Hann byrjaði á því að tala um ógnirnar. Hann sagði frá því að Vesturlönd væru í vondum málum, lifðu við „gjaldþrota kerfi“ og „óöryggi“, gengju í gegnum breytingar sem væru „eðlisólíkar því sem við höfum séð áður“. „Flest lönd Vesturlanda eru í verulegum vanda með margt,“ sagði Sigmundur. Síðar í ræðunni lokaði hann þessu áhersluatriði með myndum af skilaboðum breskra yfirvalda til borgara sinna í Seinni heimsstyrjöldinni, þegar barist var við nasista. Sigmundur sagði: „Ég veit ekki hvort það sé óhætt að segja að frelsið sé í hættu á Íslandi, en það er margt í hættu og framtíðarvelferð okkar Íslendinga er í hættu.“
Lausnin við margvíslegum ógnum heimsins er Framsóknarflokkurinn. Riddaraliðið er á leiðinni og þeir sem standa ekki með Sigmundi, skortir kjark, valda öðrum tjóni.
Liðhlauparnir
Í fyrri ræðum sínum hefur Sigmundur gjarnan talað um innlenda óvini Íslands. Þá sem vinna gegn hagsmunum Íslands, „niðurrifsöflin“ og „sundrungaröflin“. Þá sem koma í veg fyrir fullkomna samstöðu Íslendinga. Þetta fólk sem vinnur gegn hagsmunum Íslands, samkvæmt boðskap Sigmundar, er einmitt sama fólk og gagnrýnir Sigmund fyrir framferði hans.
Á flokksfundinum gekk hann skrefinu lengra og beindi spjótum sínum að þeim sem standa ekki með honum og flokknum. Sigmundur líkti Framsóknarflokknum við fótgönguliða í stríði gegn riddaraliði í orrustunni við Waterloo.
„Ef að menn missa kjarkinn í ferningnum, og hann brotnar, þá hleypur riddaraliðið yfir hann og slátrar honum.“
„Stundum er þetta tilfinningin. Að riddaraliðið sé allt að sækja að okkur. Og auðvitað geta menn orðið svolítið áhyggjufullir við slíkar aðstæður,“ sagði Sigmundur og sýndi flokksmönnum mynd af vígvellinum. „Þetta er reyndar málverk frá orrustunni við Waterloo. En í þeirri orrustu hættu riddaralið að virka. Vegna þess að menn voru búnir að finna lausnina á því, hvernig ætti að takast á við slíkar árásir. Lausnin er þessi: Svokallaðir ferningar. Menn raða sér upp í tvöfaldri eða þrefaldri röð. Hlið við hlið, öxl við öxl. Beina byssustingjunum út. Og hvað gera hestar þegar þeir nálgast röð af byssustingjum? Þeir hlaupa ekki á þá, þeir fipast, þeir hlaupa framhjá. Og eru skotnir niður af ferningunum sem standa saman. En ef ferningurinn riðlast. Ef að menn missa kjarkinn í ferningnum, og hann brotnar, þá hleypur riddaraliðið yfir hann og slátrar honum. Þess vegna var lykillin að árangri í orrustunni við Waterloo, það sem tryggði sigur, að ferningarnir héldu. Þeir stóðu saman. Þeir tóku á sig kúlur, jú. Þeir drógu þá særðu inn í miðjuna og hlúðu að þeim, en þeir stóðu saman og héldu út. Og þegar menn standa saman, hlið við hlið, og öxl í öxl, og eru með lausnirnar og getuna til þess að framkvæma þær, þá fær ekkert grandað þeim.“

Óvinir Sigmundar
Riddaraliðið, óvinurinn sem Sigmundur er að berjast við með flokksmönnum sínum til að bjarga Íslandi, er hins vegar víða.
Myndmál stríðs er ekki nýtilkomið í stjórnmálabaráttu Sigmundar. Hann hóf feril sinn á því að lýsa því yfir að „fyrsti mánuður loftárása“ væri liðinn. Þar vildi hann gefa þá tilfinningu að gagnrýni á Framsóknarflokkinn og hann væri ígildi loftárása. Óvinurinn var gagnrýnendur hans og Ríkisútvarpið, sem sagði fréttir af undirskriftasöfnunum.
Á þessum tíma hafði ríkisstjórnin meðal annars verið gagnrýnd fyrir að svíkja loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem gagnrýna þann forsendubrest og það hvernig ríkisstjórnin svaraði fyrir hann eru hluti af sundrungar- og niðurrifsöflunum.
„Valdið hefur verið að færast frá almenningi. Vegna þess að það hefur verið að færast frá stjórnmálamönnunum“
„Valdið hefur verið að færast frá almenningi. Vegna þess að það hefur verið að færast frá stjórnmálamönnunum,“ sagði Sigmundur hins vegar á fundinum um helgina. Því Sigmundur er fólkið og fólkið er Sigmundur.
„Við erum í rauninni komin á þann stað að þurfa að velta því fyrir okkur hvort það sé ennþá við lýði hjá okkur raunverulegt lýðræði, eins og það var hugsað í upphafi, eða hvort kerfisræði sé að taka við af lýðræðinu,“ sagði hann.
Sem stjórnmálamaður hefur Sigmundur beitt sér gegn lýðræði þrátt fyrir loforð um annað. Hann lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við ESB, en sveik það. Hann hunsaði síðan niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.
„Hefðbundin stjórnmál riðlast,“ varaði Sigmundur við þegar hann kynnti samherjum sínum ógnir samtímans.
En helsta breytingin á stjórnmálum er aukin krafa um beint lýðræði, ákall um afnám flokksræðis og foringjaræðis, og svo eru stjórnmál að riðlast með aukinni þjóðernis- og einangrunarhyggju, sem er knúin áfram af óttastjórnmálum, eins og þeim sem Sigmundur stóð fyrir á miðstjórnarfundinum um helgina.
Framsóknarflokkurinn hefur líka gengið lengst í því af stóru flokkunum að nýta sér útlendingaótta, til dæmis með því að gera mögulega byggingu Mosku í Reykjavík að kosningamáli fyrir borgarstjórnarkosningarnar, með blessun Sigmundar.
Stjórnmál Sigmundar eru hefðbundin stjórnmál í sinni verstu mynd.
Vænisýkin
Það sem helst vakti athygli í fréttum af fundinum um helgina voru yfirlýsingar Sigmundar um njósnir óvinarins á sér.
Hann talaði um „svarta kaflann“ í ræðu á landsfundi í apríl í fyrra, kafla sem enginn mátti lesa fyrir fram vegna þess að þar voru boðaðar aðgerðir gegn kröfuhöfunum. Þá vissi enginn að Sigmundur hefði sjálfur verið í skattaskjóli og að konan hans væri kröfuhafi bankanna. Hann talaði aftur um að „leyniskýrslur“ hefðu verið gerðar um Framsóknarflokkinn, sem reyndist reyndar vera fréttabréf Einars Karls Haraldssonar almannatengils og ráðgjafa slitastjórnar Glitnis, eins og Stundin greindi frá.
Á fundinum um helgina sagðist hann hafa verið eltur um heiminn af kröfuhöfum, og átti þar væntanlega við aðra kröfuhafa en konuna sína.
Hann sagði að kröfuhafar hefðu mikla hagsmuni og víluðu ekki fyrir sér að kaupa forrit til að brjótast inn í snjallsíma.
„Ég gerði alltaf ráð fyrir því að það væri fylgst með því sem ég sagði í símann, ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér, ég lét skoða það. Og við reyndum, eins og við mögulega gátum, að forðast að hleypa þessum aðilum að okkur. En þeir reyndu mikið. Eltu mig meira að segja til útlanda. Þegar ég fór að hitta Vestur-Íslendinga til Norður-Dakóta kom maður með skilaboð til mín, við vitum að þú verður þarna á þessum degi í Norður-Dakóta, við erum með bjálkahús, ekkert langt frá, til ráðstöfunar, það er utan símasambands, algjörlega einangrað, við getum hitt þig þar, það þarf enginn að vita af þessu, við getum leyst málin og allir geta verið sáttir. Þeir eltu mig líka á ráðstefnur í útlöndum,“ sagði Sigmundur, og lýsti því að gestir á fundi um fjárfestingartækifæri á Íslandi hefðu viljað vita hvernig þeir kæmu peningum sínum aftur frá Íslandi.
Það verður að teljast eðlileg spurning fjárfestis, hvort hann nær peningunum sínum til baka, en í túlkun Sigmundar fyrir flokksmönnum sínum var það hluti af samsæri kröfuhafa.
„Á þessu hóteli í London var haldin mikil kynning til þess að kynna fjárfestingartækifæri á Íslandi. Margir af gestunum voru hins vegar ekki komnir til þess að skoða hvernig þeir gætu sett nýja peninga til Íslands, heldur til þess að ná peningum út úr Íslandi. Þeir spjölluðu nokkrir við mig í kaffinu. Þarna átti ég ófá samtöl og áhugaverð, var boðið upp á herbergi og ýmsar lausnir viðraðar.“
Þjóðaröryggisráðið og forsætisráðherrann
Engin ummerki fundust um innbrot í tölvu Sigmundar þegar rekstrarfélag stjórnarráðsins kannaði málið. Tölvuöryggissérfræðingur sagði í morgun að frásögn Sigmundar væri eins og vísindaskáldskapur. Að slík innbrot skilji eftir sig ummerki. Það vakna spurningar um hvers vegna Sigmundur tilkynnti ekki um jafnalvarlegan atburð.
Staða forsætisráðherrans er að breytast og völd hans aukast. Ný lög sem hafa verið samþykkt gera ráð fyrir því forsætisráðherra sé formaður nýs þjóðaröryggisráðs. Hann á að boða fund með Ríkislögreglustjóra, forstjóra Landhelgisgæslunnar, innanríkisráðherra og fleirum þegar honum sýnist vera tilefni til vegna erlendrar eða innlendrar ógnar. Spurningin er hvernig forsætisráðherra upplifir ógnina þegar þúsundir manna koma saman og mótmæla gegn honum. Sérstaklega forsætisráðherra sem sér óvin í hverju horni.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur þegar bent á að þjóðaröryggisráðið gæti þurft að koma saman vegna njósnanna um Sigmund. „Við þurfum að sjá til hvort forsætisráðherra kalli þjóðaröryggisráð saman vegna þessa,“ sagði hún á Alþingi í gær.
Til að skilja málið og hættuna af því þarf að átta sig á því hvað Sigmundur gerir til að halda pólitísku lífi sínu. Hann þarf að framleiða ógn og óvini, stofna til stríðs og draga alla inn í það.
Eins og aðrir hættulegir stjórnmálamenn í heiminum leggur Sigmundur valdastöðu sína að jöfnu við velferð heillar þjóðar.
Eftir að fundurinn var yfirstaðinn og Ríkisútvarpið fjallaði um að kallað hefði verið eftir framboði Sigurðar Inga Jóhannssonar til formennsku í flokknum og þar með brotthvarfi Sigmundar úr formannsstóli, notaði Sigmundur óvinaskilgreininguna á viðkomandi flokksmann.

Samflokksmenn verða ógn
Það er ekki endilega stjórnmálamaðurinn sjálfur sem er hættulegur, heldur aðferðirnar sem hann þarf að beita til þess að halda völdum. Aðferðirnar eru að færa fólk niður í skotgrafir, flokka það niður í annars vegar samherja og hins vegar andstæðinga. Og samsama andstæðingana við ógn.
Stjórnmálamaður er orðinn hættulegur þegar hann selur ógnir, framleiddar með vænisýki, sjálfum sér til ágóða.
Þegar Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður RÚV á Akureyri, spurði Sigmund út í stöðu hans, vegna þess að flokksmaður hafði skorað á Sigurð Inga að bjóða sig fram til formanns, brást Sigmundur við með stríðsstjórnmálum.
„Hvað varðar svo áskoranir á varaformann flokksins, ja ég held það sé varla við öðru að búast við þær ástæður, við þær aðstæður og þau átök sem hafa ríkt í stjórnmálum á Íslandi að undanförnu en að eitthvað slíkt gerist. En við látum ekki andstæðinga flokksins ráða því hvernig við högum okkar málum.“
Þannig var samflokksmaðurinn orðinn andstæðingur og ógn flokksins vegna þess að hann vildi ekki hafa Sigmund í forystu. Þannig verður persóna foringjans mikilvægari heldur en sjálfur málstaðurinn, mikilvægari en flokkurinn og ofar lýðræðinu. Framsóknarflokkurinn komst þannig í verulega vafasaman flokk samsafnaða.
Allt gott sem Sigmundur hefur hugsanlega fram að færa fellur í skuggann af aðferðum hans og þeirri staðreynd að hann er það sem hann berst gegn. Hann er kröfuhafinn, hann er sá sem hefur unnið gegn lýðræðinu og hann er hið vænisjúka vald sem framkallar stríð til að vernda eigin valdastöðu.
Athugasemdir