Það ríkti jarðarfararstemming í fordyri Nanterre-Amandiers leikhússins þegar ég gekk þar inn. Gráir, alvarlegir svipir mættu mér en úti um allt hlupu hópar leikskólakrakka, svartar krullhærðar stelpur, ljóshærðir drengir, börn af arabískum, kínverskum, pólskum og frönskum uppruna jafngrunlaus um atburði dagsins og ég hafði verið hálftíma áður.
Klukkan var tvö þann sjöunda janúar og þeir fullorðnu höfðu hugann við allt annað en danssýninguna sem við vorum komin til að sjá. Nokkrum klukkustundum áður höfðu Kouachi bræður myrt ritstjórn, teiknara, húsvörð og ritara Charlie Hebdo skopblaðsins. „Ég held að þú getir ekki fyllilega skilið hvernig okkur líður Snæ,“ sagði einn samstarfsfélagi minn klökkur. „Við ólumst upp við teikningar þeirra, okkur leið eins og þeir væru vinir okkar, og að þetta væri seinasta vígi, virkilega frjálsrar hugsunar í Frakklandi.“ Hann var ekki að ýkja um líðan sína, held ég, þó að leikhúsfólki hætti til mikillar dramatíkur.
„Hvað með okkur?“
Ég mun seint gleyma þessari furðulegu tilfinningu að sitja í myrkvuðum salnum og skynja í kringum mig þessa tvo frábrugðnu áhorfendahópa. Leikskólakrakkana sem skríktu af hlátri og eftirvæntingu, og þá fullorðnu sem gátu ekki slitið hugann frá blóðbaðinu og klæjaði í fingurna að taka upp snjallsíma sína og komast að því hvað meira væri í fréttum. Ætli það sé búið að ná þeim? Ætli það sé meira í vændum?
Á sviðinu var mannvera umvafin blöðrum, sem hann lesti smátt og smátt úr læðingi og skapaði undraheim furðudýra. Þessar blöðrur dönsuðu við abstrakt píanóverk eftir John Cage, hljóma skapaða með skrúfum og nöglum, með píanóleikara sem lá undir þykku hvítu laki og hamaðist á flyglinum eins og hann væri að berja trommusett milli þess sem hann klifraði inn í hljóðfærið og spilaði á það eins og hörpu. Hugmyndin var snjöll. Þeir fullorðnu gátu sett sig í spekingslegar stellingar og reynt að átta sig á erótískum og freudískum tilvísunum blöðrudýranna á meðan börnin gátu horft heilluð á þennan frumskóg. Og báðir hópar haft gaman af framúrstefnulegri tónlistinni á tvo mismunandi vegu.
Þegar við komum út, krakkarnir allir með blöðrur í hendi, var þó enginn að hugsa um stríðnislega tvíræðni dansverksins.
„Er búið að ná þeim?“
„Er búið að finna bílinn?“
„Og hvað með okkur?“ spurði ég leikhússtjórann. „Aflýsum við frumsýningunni í kvöld?“
Gátum við í alvöru sett upp gamansamt verk um skandínavíska þungarokkara fasta í snjó með draum um að byggja skemmtigarð? Gátum við leyft okkur slíka léttúð?
Kaþólikkar reyndu að stoppa sýninguna
Það er búið að skrifa mikið um tjáningarfrelsið franska á síðastliðnum dögum. En mér til furðu er ekki búið að rifja upp eina mest umtöluðu leiksýningu síðasta árs, Golgota Picnic í því samhengi. Leikritinu, eftir argentínska leikstjórann Rodrigo García, var harðlega mótmælt þegar það var frumsýnt árið 2011 í Toulouse. Samtök kaþólikka í borginni reyndu að láta banna sýninguna, einn biskup sagði að hún lýsti frelsaranum sem: Geðsjúklingi, hundi, brennuvargi, AIDS-messías, djöflahóru, engu betri en hryðjuverkamann.
Þegar verkið var svo sýnt í Theatre du Rond Point (sem er skammt frá Champs Élysée), þurfti að kalla til lögreglulið af ótta við óeirðir. Eflaust voru einhverjar áhyggjur af því að sagan myndi endurtaka sig frá árinu 1993 þegar eldsprengju var komið fyrir í kvikmyndahúsi í París sem sýndi mynd Martin Scorsese, Síðustu Freistingu Krists.
Það virtist lítið hjálpa að leikhúsið og leikstjórinn kæmu með yfirlýsingar um að tilgangur verksins væri ekki að særa trúarlegar tilfinningar heldur að gagnrýna neyslusamfélagið. Það væri ekki andkristilegt, andgyðinglegt eða andtrúarlegt. Jesú í joggingfötum, nakinn píanóleikari og hrúgur af hamborgurum voru engu að síður fordæmdar af kaþólskum samtökum sem guðlast, hótanir bárust og mótmælendur reyndu að ryðjast inn og upp á svið. Þetta er reyndar heldur ekki eina leiksýningin sem hefur fengið slík viðbrögð frá kaþólikkum í Frakklandi því verk Romeo Castellucci, Sul concetto di volto nel figlio del dio eða Varðandi hugtakið um andlit krists, varð einnig fyrir barðinu á mótmælaöldu og hótana sama ár.
Erkibiskup hvatti til mótmæla
Þessi átök voru að mestu gleymd í fyrra enda þrjú ár liðin frá frumsýningu þegar Rodrigo García birtist aftur á forsíðum blaða. Leikstjórinn hafði verið fenginn til að stýra hátíðinni Malta festival í Poznan Póllandi og til stóð að sýna Golgota Picnic þegar svipuð viðbrögð urðu þar í landi. Erkibiskupinn í borginni hvatti kaþólikka til mótmæla, en ólíkt frönskum starfsbræðrum sínum talaði hann ekkert um friðsöm mótmæli og neitaði að mæla fyrir slíku. (Minnir um margt á afstöðu Francis páfa sem um daginn sagði að ef maður móðgi móður einhvers megi maður að búast við höggi.). Kirkjan gerði heldur ekkert til að fjarlægja sig frá nýfasískum hópum sem hótuðu að beita ofbeldi, sprengjum og öðru. Öfgasamtök hótuðu hátíðargestum líkamsmeiðingum og lögreglan neitaði að aðhafast nokkuð. Að lokum lúffaði hátíðin fyrir pressunni og hætti við sýningu.
Læknar í Póllandi kúgaðir
Fjölmiðlar og listamenn víða um Evrópu voru í sjokki þegar ein metnaðarfyllsta og framúrstefnulegasta hátíð álfunnar neyddist til að breyta dagskrá sinni á þennan máta. Mikil reiðialda fór um pólskt leikhússamfélag, leiklestrar á verkinu fóru fram í leikhúsum út um allt en á pólska þinginu fóru líka fram harðar umræður. Tveir þingmenn vildu kæra menningarmálaráðherra (og reyndar flest stærstu leikhúsa landsins fyrir leiklesturinn) á grundvelli 196. grein hegningarlaga. Þau lög eru svipuð og íslensku guðlastslögin (sem vonandi verða afnumin á næstunni), nema að refsingin er upp á tveggja ára fangelsisvist. Í þessu samhengi má heldur ekki gleyma að öfgahópar hafa komist upp með kúgun á fleiri sviðum en bara leiksviðum. Fjölmargir læknar í Póllandi hafa verið kúgaðir með ofbeldishótunum til að skrifa undir yfirlýsingar um að þeir muni ekki voga sér að framkvæma fóstureyðingar.
Síðasta vígi þeirra sem þorðu
Að móðgast eða móðgast ekki, þar er persónulegt val okkar allra. Þegar Golgota Picnic var sýnd á Spáni og Ítalíu voru lítil mótmæli og engin skandall. List sækir oft talsverðan styrk í móðgunargirni fólks, í haust breytti myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson til dæmis öllum Framsóknarflokknum í risavaxinn satanískan gjörning bara með því að stilla upp gínu í galleríglugga. Of mikil tillitssemi hinsvegar, getur eitrað frá sér og kæft skapandi hugsun. Styrkur Charlie Hebdo í franskri þjóðarsál var vafalaust hugmyndin um seinasta vígi þeirra sem þorðu. Frakkar geta nefnilega móðgast yfir hverju sem er. Það þarf stundum ekki annað en að jólatré minni á rassaplögg til að allt verði vitlaust í París eins og sannaðist á verki Paul McCarthy um síðustu jól.
Lengi lifi húmorinn
En hvað með frumsýninguna? Í rúma viku höfðu ég og átta franskir listamenn staðið í gervisnjó upp á sviði, klæddir sem skandínavískir þungarokkarar með draum um mínímalískan skemmtigarð. Og sem betur fer var ákveðið að hætta ekki við sýninguna um kvöldið þrátt fyrir þrúgandi andrúmsloftið í borginni. Ég hef aldrei upplifað sal sem var jafn til í að hlæja og gleyma sér heila kvöldstund. Lengi lifi húmorinn og listin.
Snæbjörn Brynjarsson er menntaður leiklistarfræðingur frá Listaháskólanum, búsettur í Brussel Belgíu, auk þess sem hann er menntaður í japönsku og dvaldi í Japan um skeið.
Athugasemdir