Á síðasta kjörtímabili tókst ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, með stuðningi flestra flokka á Alþingi, að lögfesta skringilega reglu um fjármál hins opinbera.
Reglan, sem jaðrar við að vera nokkurs konar bann við keynesískri hagstjórn, kveður á um að hallarekstur ríkisins megi ekki nema meira en 2,5% af vergri landsframleiðslu.
Hagfræðingar bentu á hið augljósa: reglan væri fráleit, vanhugsuð, samræmdist vart sveiflujöfnunarhlutverki ríkisins og gæti torveldað örvun eftirspurnar í hagkerfinu á tímum samdráttar og þannig dýpkað niðursveifluna.
Á þessar viðvörunarbjöllur var ekki hlustað.
Þegar sama ríkisstjórn kynnti fjármálaáætlun sína í fyrra var gengið lengra í hægriátt og sett sérstakt þak á tekjuöflun ríkisins: frumtekjur hins opinbera mættu ekki aukast umfram hagvöxt.
Seðlabankinn benti á að reglan væri „sérlega bagaleg“ og á skjön við sjálfvirka sveiflujöfnun í ríkisfjármálum. Og aftur voru ábendingarnar hunsaðar.
Nú er komin ný ríkisstjórn.
Og í fjármálastefnu hennar eru enn ein nýmælin kynnt til sögunnar: sérstök útgjaldaregla eða útgjaldaþak. Þannig skal tryggja að heildarútgjöld hins opinbera nemi aldrei meira en 41,5% af vergri landsframleiðslu næstu fimm árin. Engin skýr svör hafa fengist við því hvernig hlutfallið var ákveðið, en talan er aðeins hálfu prósenti hærri en nemur útgjöldum hins opinbera á þessu ári.
Útgjaldaþakið mun varla koma að sök ef bjartsýnustu hagspár ganga eftir. Í fjármálastefnunni er gengið út frá viðvarandi hagvexti næstu fimm árin, en slíkt 11 ára samfellt hagvaxtarskeið yrði án fordæma í hagsögu Íslands.
Ef hagvöxturinn verður minni en gert er ráð fyrir má hins vegar vænta aðhaldsráðstafana. Og ef spár bregðast gersamlega og til samdráttar kemur (sem veldur í raun útgjaldaaukningu sjálfkrafa vegna sjálfvirkra sveiflujafnara ríkisfjármálanna) mun fjármálastefnan beinlínis kalla á harkalegan niðurskurð. Þannig yrði sveiflujöfnunarhlutverki hins opinbera kastað fyrir róða og innviðir samfélagsins látnir taka fallið.
Hvað á þetta furðulega útgjaldaþak að þýða og hvaðan kemur það?
Formaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, svaraði þeirri spurningu í umræðum á Alþingi í gær:
„Það kom mjög skýrt fram í áliti meirihluta fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili að æskilegt væri að hafa slíkt viðmið. Og það er á þeirri forsendu fyrst og fremst sem fjármálaráðherra setti útgjaldaregluna.“
Þetta eru athyglisverð ummæli. Þarna er því haldið fram að fjármálaráðherra Viðreisnar sníði fjármálastefnu sína sérstaklega að einhverjum sjónarmiðum sem stjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, forysta Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í fjárlaganefnd, hélt á lofti á síðasta kjörtímabili.
Ef gluggað er í nefndarálitið sem Haraldur vísar til kemur í ljós að útgjaldaþakið var einmitt sérstakt áhugamál Samtaka atvinnulífsins, en tveir af þáverandi talsmönnum þess eru nú ráðherrar og flokkssystkini fjármálaráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Fjármálaráð, sem samanstendur af sérfræðingum skipuðum af fjármálaráðherra, er skeptískt á hinar ósveigjanlegu fjármálareglur og gerir ítarlegar athugasemdir við fjármálastefnuna. Bent er á að ef hagvöxtur reynist lægri en spár gera ráð fyrir geti reynst erfitt að ná útgjaldamarkmiðum án aukins aðhalds.
„Samkvæmt þessu geta stjórnvöld lent í spennitreyju fjármálastefnu sinnar ef atburðarásin reynist önnur en efnahagsspáin gerir ráð fyrir,“ segir í álitsgerð fjármálaráðs. Spennitreyju fjársveltra spítala og niðurgrotnandi vega? Að minnsta kosti munu fleiri finna fyrir spennitreyjunni heldur en þeir þingmenn sem greiða henni atkvæði á Alþingi.
Stjórnarmeirihlutinn lætur athugasemdir fjármálaráðs sem vind um eyru þjóta; fjármálastefnunni er hvorki breytt til samræmis við þær né eru færð rök gegn aðfinnslunum. Þetta er auðvitað athyglisvert í ljósi síendurtekinna yfirlýsinga stjórnarliða um meiri fagmennsku og minna fúsk. Og einhverjum gæti þótt það sóun á tíma, orku og bleki að halda úti sérstöku fjármálaráði ef löggjafanum er alveg sama hvað kemur frá því.
Alþingi fundaði um fjármálastefnuna langt fram á kvöld í gær. Mjög virðist liggja á að samþykkja hana áður en fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur til umfjöllunar á þinginu. Sú áætlun mun skera endanlega úr um hvort Björt framtíð og Viðreisn hyggist standa við útgjaldafrek loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar, en ramminn hefur þegar verið kynntur til sögunnar með fjármálastefnunni. Ef stjórnarliðar ætla að skýla sér á bak við hana næstu árin og segja kjósendum að ekki séu til nægir peningar í heilbrigðiskerfið og aðra innviði, þá er ágætt að muna að plaggið byggði ekki á skynsemi eða djúpri hagspeki heldur dogmatískri hægripólitík.
Athugasemdir