Það er ekkert leiðinlegra í veröldinni en að flytja. Pakka í kassa, flytja kassa, taka upp úr kössum. Allt þetta er ógeð. En samt er allt þetta skárra en að flytja húsgögn og halda á þeim. Húsgögn eru annaðhvort ódýr og létt eða dýr og þung. Ódýru húsgögnin eru samt líka ógeðsleg í flutningum því þau liðast öll í sundur um leið og maður lyftir þeim upp. Að því sögðu er ég samt frekar til í það heldur en til dæmis ógurlega eikarskápinn sem við fluttum í gær. Hann er orðinn legend í vinahópnum eftir þennan dag. Góður sprettur niður fjórar hæðir með þetta svartholsþunga bákn.
Við fluttum sem sagt alla búslóðina okkar í gær úr gamla húsnæðinu í það nýja. Heilsuspillandi.
„Ég flutti móður mína inn í nýja verelsið hennar um daginn. Hún á píanó. Hvaða sturlun er þetta eiginlega?“
Þetta er nákvæmlega það. Heilsuspillandi. Hverjum dettur í hug að svona hluti eigi að færa? Ég flutti móður mína inn í nýja verelsið hennar um daginn. Hún á píanó. Hvaða sturlun er þetta eiginlega? Ég er svo sem ekkert stórkostlega á mig kominn en ég er heldur enginn aumingi. Ég er 190 sentimetrar á hæð, vel á annað hundrað kíló og laus við sjúkdóma og meiðsli. En ég missti lífsviljann við þetta, bæði píanóið og skápinn. Ég fullyrði að suma hluti á ekki að hreyfa. En samt er búið að búa til svona einhverjar reglur sem allir eiga að fylgja. Í eðlilegri veröld ættu öll heimilistæki að fylgja húsnæðinu en það er nú samt svo að manni er gert að flytja þau öll með sér. Næstum öll. Ekki eldavélina. Nú já? Ekki eldavélina? En samt þvottavélina, ísskápinn, frystiskápinn, uppþvottavélina, þurrkarann, frystikistuna, rúmin, hornsófann, konsertflygilinn og gasgrillið. En ekki eldavélina af því að það væri nú alveg fáránlegt. Ok, ég skil að allt naglfast skuli skilið eftir, en það er ekki einu sinni svoleiðis. Uppþvottavélin mín var skrúfuð í innréttinguna en eldavélin ekki. Af hverju á þá eldavélin að vera eftir en uppþvottavélin ekki?
Ég ætla að halda því fram að tímasparnaðurinn yrði ótrúlegur ef við myndum sættast á að líta á alla stóru hlutina okkar sem part af íbúðinni en ekki eitthvað sem við flytjum með okkur. Við erum sammála um að eldhúsinnréttingin eigi að vera og baðkarið líka. Ímyndið ykkur ef einhver hefði ákveðið að það væri ekki eðlilegt. Ef við værum endalaust að skrúfa niður innréttingar við hverja flutninga? Eldhúsinnréttingar eru afar misgóðar, afar misgamlar, afar misljótar og afar misdýrar. Bara eins og þvottavélar. Samt má ég ekki taka með mér innréttinguna, enda þótt hún gæti þess vegna verið glæný og tveggja milljóna króna virði. Það er ólöglegt, bara eins og það er ólöglegt að skilja frystiskápinn eftir eða að taka eldavélina. Þetta eru geðþóttaákvarðanir og ekkert annað.
Og svo þetta með sérviskulegri hluti eins og píanóið hennar mömmu. Hálft tonn af timbri og járni. Eðli málsins samkvæmt er ekki eðlilegt að selja píanó með hverri íbúð sem fer á markað. Ég skil það. En það er heldur ekkert eðlilegt að selja svalir með hverri íbúð sem fer á markað. Ef þú setur það sem skilyrði að hafa svalir þá leitar þú að húsnæði með svölum. Og af hverju er það ekki eins með píanóin? Þetta gæti verið eitt svona hak í húsnæðisleitarvélum. Svalir, tékk. Frystikista, tékk. Píanó, tékk. Snókerborð, tékk. Við gætum meira að segja gengið lengra. Ég skal frekar lesa lista yfir húsgögn sem eru til staðar en að flytja mín eigin. Fólkið sem átti íbúðina sem ég var að kaupa átti sjónvarp. Það var meira að segja á sama vegg og ég ætla að hafa mitt. Af hverju í andskotanum var ég þá að hafa fyrir því að skrúfa mitt sjónvarp niður af veggnum á gamla staðnum til þess eins að skrúfa það upp á þeim nýja? Sófinn þeirra var líka þar sem við ætlum að hafa okkar. Og sófinn okkar er svona fimm tonn. Ég hataði lífið meðan ég var að bera hann niður stigana við sjötta mann. Af hverju í heitasta helvítinu? Það var sófi þarna fyrir!
Nei, það eru ekki rök að einhverjum þyki vænt um dótið sitt. Ég var til dæmis að kaupa mér gólfefni og innréttingu til að setja inn í nýja verelsið. Innréttingin er afar smekkleg og falleg. En ég má ekki taka hana ef ég sel íbúðina. Ég má það ekki. Þótt ég hafi bundist henni sterkum tengslum. Og parketið? Nei, það verður að vera líka. En helvítis sálarlausa þvottavélartussan sem mér er drullusama um, ég verð auðvitað að taka hana.
Ég vil setja reglur um að það megi bara endurnýja hluti í húsakynnum, annars fari þeir ekki út. Við myndum tala um það sem viðhald, svipað og að mála veggi og loft. Og það er bannað að selja gamla dótið. Maður fer með það í þartilgerða móttöku hvar maður fær greitt fyrir á sama hátt og þegar maður fer með flöskur og dósir. Neyslufylleríið myndi mögulega róast svolítið með þessu líka. Já það mælir allt með þessu. Maður myndi svo bara pakka fötunum sínum ofan í tösku, henda henni í skottið og rúnta yfir á nýja heimilið. Næstu dagar færu í að læra á nýju þvottavélina, skoða hvaða bækur fylgdu nýja staðnum og kynnast nýju börnunum þínum þremur.
Elsku vinir mínir, öll þið 20 eða hvað þið voruð sem fluttuð búslóðina okkar í gær, takk fyrir að bjarga lífi mínu og geðheilsu. Ég held að ekkert segi jafn skýrt og greinilega til um hverjir vinir manns eru í raun og veru og flutningar.
Athugasemdir