50 gráir skuggar er eins klassísk og hugsast getur. Ég hugsa að ég gæti alveg horft á hana uppí sófa, grjótþunnur, án þess að þjást. En að fara alla leið uppí kvikmyndahús og sitja fastur í bíósalnum var átakasamt. Gat líka ekki að því að gert að það kom upp þörf hjá mér til að segja við unga parið sem sat við hliðina á mér að ég, þessi miðaldra karlmaður sem væri þarna einn í bíói, væri í vinnunni, þetta væri ekki sjálfvalið að mæta hingað til að sjá þessa mynd, en ég gerði það ekki.
Handritið er algjörlega samkvæmt formúlunni og ekkert við það að athuga. Leikararnir eru fallegir en leikurinn frekar flatur, aðallega vegna þess að það er ekkert í handritinu sem reynir á þau. Samtölin eru klassísk, ekkert óvænt, aldrei neitt fyndið, ekkert sem heillar, en í sjálfu sér er ekkert að heldur.
Kvikmyndatakan er áferðarfalleg, lýsingin í senunum mjög rómantísk og falleg. Það er líklegast einna mikilvægast fyrir mynd eins og þessa, því það gerir klisjukenndar senurnar fallegar og leikarana óskaplega myndarlega. Það eru samt ekki nema 1-2 tilvik þar sem eitthvað í kvikmyndatökunni getur flokkast sem snjallt.
Hinn ríki Herra Grey, sem unga háskólastúdínan Anastasia, nóta bene óspjölluð mey, fellur fyrir er svona draumaprins úr ævintýrunum, fyrir utan það smá aukaatriði að hann elskar að taka draumaprinsessurnar sínar í pyntingarherbergið í kjallaranum. Annars er hann alveg einsog draumaprinsinn á hvíta hestinum. Maður finnur víst aldrei fullkominn mann.
Svona draumaprins úr ævintýrunum, fyrir utan það smá aukaatriði að hann elskar að taka draumaprinsessurnar sínar í pyntingarherbergið í kjallaranum.
Stelpan fellur hægt fyrir honum og hann er óendanlega stjórnsamur en samt blíður, fer aldrei yfir strikið nema með samþykki hennar. Hann fer þó langt yfir strikið en aðeins eftir að hún er búin að samþykkja það með undirskrift á samningi.
Það er eitthvað verulega bandarískt við það að fara ekki í kynlífsleiki með einhverjum fyrr en búið sé að lesa yfir samninga og skrifa undir.
En það hafa allir séð þessa sögu áður á tjaldinu. Þetta er myndin um saklausu og hræddu stelpuna sem fellur fyrir forríkum stjórnsömum snillingi sem er ógeðslega myndarlegur.
Fyrir gaur einsog mig, sem er aldrei viss hvort ég eigi fyrir sígarettupakkanum á morgun, finnst mér aldrei heillandi að sjá svona gaura eins og Grey, sem eiga tíu sportbíla í kjallaranum, fljúga um á einkaþyrlunni sinni, eiga fyrirtæki og heilt háhýsi undir það og gefa sem smágjafir til kærustunnar sinnar 10 milljón króna bíl - ég meina hvað gefa þessir menn í jólagjöf? Einkaþotu eða eyju í Karabíska hafinu? En ég skil að þetta sé heillandi fantasía fyrir fólk. Enda er árangur bókarinnar væntanlega vegna þessarar fantasíuhugmyndar. Óneitanlega meira heillandi fantasía að fá slíkt ríkt glæsimenni í fangið heldur en þann sem á ekki bót fyrir boruna á sér.
Öfugt við þessa 100 milljón manns sem lásu bókina gerði ég það ekki, þannig að ég kom ferskur að tjaldinu. Ég hugsa að þau sem komust í gegnum bókina sjálfviljug hljóti að fíla myndina. Það er mikið lagt í lýsingu á senunum og þetta er allt saman ákaflega áferðarfallegt. Kvikmyndatökumaðurinn á heiðurinn af þessari mynd enda stjórnar hann lýsingunni. Þannig að ef þér er sama um það að persónusköpunin sé slöpp, díalógarnir líka og sagan sjálf þunn þá er þetta allt saman bara ágætt.
Þetta er alls ekki slæmt ef menn hafa áhuga á fallegu fólki. Hún er frekar sexý með sakleysisleg augu og alltaf bítandi í varirnar og allt það. Hann er óskaplega myndarlegur og kann nokkur góð trikk í leik sem gerir hann sjarmerandi og gæti fleytt honum langt. En djíses hvað mér leiddist á myndinni. Kannski hefði ég dýrkað hana þegar ég var á milli 15 - 20 ára og hugsaði bara um kynlíf og konur.
Þegar ég heyrði um 50 gráa skugga verð ég að viðurkenna að mér datt í hug að það gæti verið gaman að reyna öll trikkin í myndinni einhverja helgina með kærustunni minni. Svar kærustu minnar var reyndar skýrt, by the way: elska hvað hún er alltaf hvetjandi og styður mann í öllum manns hugmyndum, en það var: Nei.
Eftir að hafa séð myndina þá er ég feginn. Þetta er brjáluð vinna og bara vinna fyrir karlmanninn en konan þarf ekkert að leggja af mörkum annað en að vera á staðnum.
Fyrir þá sem ekki hafa fetað sig inná þessa sadó-masó braut, var þetta ansi rósrauð ferð inní heim sem hefur ekki heillað mann fram að þessu. Áferðarfallegt en svo rosalega þunnt kaffi að ég hefði frekar sleppt því að drekka það ef ég væri ekki á launum við að drekka það.
Athugasemdir