Á árum áður horfðu jarðfræðingar á stór gil og komust að þeirri niðurstöðu að eitthvað allt annað en lækurinn sem rann í gegnum gilið hefði orsakað það. Það var hlegið að kenningum um að svona lítill lækur gæti grafið ógnarstór gil og sópað landinu út í sjó.
Það að dropinn holi stein og lækur grafi gil er eðlisfræðilega skiljanlegt, þótt við höfum ekki eðlislægan skilning á því. Við gleymum oft að horfa á okkar eigin eðlisfræði. Hún er þessi: Frá árinu 1900 hefur fjöldi mannkyns hátt í fimmfaldast. Fyrir nokkur hundruð árum var jörðin að langmestu leyti ósnert af mannavöldum. Nú er talið að fjórðungur jarðarinnar geti flokkast undir ósnert land eða óbyggðir, stærsti hlutinn eyðimerkur eða barrskógar.
Eðlisfræðin segir okkur að við munum eyðileggja óbyggðirnar, líka hér á Íslandi. Þótt afmarkað land sé verndað er það undantekning en ekki reglan, eins og sagan sýnir okkur og virkni hagsmuna kennir okkur.
Stuttu eftir að ný ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins komst til valda fyrir tæpum tveimur árum lýsti forstjóri álverksmiðjunnar Century Aluminum yfir ánægju sinni. Hann hafði hitt Bjarna Bendiktsson fjármálaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við erum mjög spenntir fyrir því hvernig ríkisstjórnin grípur til aðgerða. Það eru ekki bara orðin tóm heldur framkvæma þau líka og það er mjög hvetjandi,“ sagði hann. Í kjölfarið byrjuðu ráðherrarnir að setja opinberlega þrýsting á forstjóra Landsvirkjunar um að landa samningi við álverksmiðjuna til að fjölga stóriðjuverum á landinu og skapa störf í réttum kjördæmum.
Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við var ákveðið að opna á þann möguleika að virkja á fjölmörgum svæðum sem hafði áður verið ákveðið að friðlýsa. Þannig var stækkun á friðlandi Þjórsárvera afboðuð með dags fyrirvara og skorið niður hjá Umhverfisstofnun þannig að hún gat varla sinnt því verkefni sínu að friðlýsa. Svona gerist þetta smátt og smátt. Eitt svæði er verndað, en næst kemst ný ríkisstjórn til valda sem vill nýta landið til að auka hagvöxt, bjarga lífum og framleiða hamingju. Ríkisstjórnir sem þessar eru reglulega kosnar af okkur, því við viljum ekki upplifa skort. Við viljum meira. Og það er alltaf auðvelt að taka eina sneið í viðbót af ósnortnu landi.
Ef sæstrengur verður lagður milli Íslands og Bretlands, sem verður á endanum gert ef það skilar peningum, munum við auka tekjur okkar, en á sama tíma verður stöðugur þrýstingur á að virkja meira og meira af landinu til að auka hagsæld okkar eða bregðast við skorti sem óumflýjanlega kemur upp. Við þurfum alltaf meira.
Grundvallaratriði í eðlisfræði er að án mótverkandi krafta heldur sama þróun áfram. „Ekkert stopp.“ Hvaða stórkostlegi kraftur gæti komið til á örskömmum tíma sem kæmi í veg fyrir að óspillt land haldi áfram að hverfa?
Munurinn á okkur og dropunum sem fljóta með ánni er að við getum gert eitthvað í því, ef við viljum. Í það minnsta mun enginn annar gera það. Það mikilvæga er að átta sig á því að án mótverkandi krafts mun ósnortið land halda áfram að étast upp af okkar völdum.
Athugasemdir