Eftir ítrekaðar fullyrðingar fráfarandi forsætisráðherra um að afrek ríkisstjórnarinnar jafngildi heimsmeti, kom á daginn að eina heimsmetið sem þessi ríkisstjórn setti fólst í því að Íslendingar áttu flesta ráðherra sem tengdust aflandsfélögum í skattaskjólum samkvæmt Panamaskjölunum.
Afleiðingarnar voru fjölmennustu mótmæli í sögu þjóðarinnar þar sem fólk krafðist breytinga en fékk ekki aðra niðurstöðu en þá að forsætisráðherranum var skipt út fyrir flokksbróður sinn og stuðningsmann. Á meðan Sigurður Ingi Jóhannsson var að koma sér fyrir í forsætisráðuneytinu ákvað guðfaðir þessarar ríkisstjórnar og einn þaulsetnasti þjóðarleiðtogi heims, að hætta við að hætta sem forseti, í annað skiptið, og fara aftur í framboð eftir 20 ár í embætti, sem andsvar við ákalli um nýja tíma og til að vernda þjóðina fyrir óvissu.
Krafan um nýtt Ísland, í kjölfar efnahagshrunsins, þegar átti að uppræta spillingu og koma í veg fyrir að valdablokkir í sérhagsmunabaráttu næðu aftur tökum á samfélaginu, fór svona.
Umbótatímanum með rannsóknarskýrslu Alþingis, þjóðfundi og þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá, lauk um leið og gömlu stjórnarflokkarnir voru kosnir aftur til valda. Ráðamenn haga sér nákvæmlega eins og áður, eins og valdið sé þeirra eign og nýja Ísland hafi aldrei verið annað en tálsýn.
„Umbótatímanum með rannsóknarskýrslu Alþingis, þjóðfundi og þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá, lauk um leið og gömlu stjórnarflokkarnir voru kosnir aftur til valda.“
Svikin
Þrátt fyrir afhjúpunina sitja tveir af þremur Panama-ráðherrunum áfram, eins og ekkert hafi í skorist og annar þeirra í fjármálaráðuneytinu, á sama tíma og fjármálaráðherrar fimm stærstu hagkerfa Evrópu samþykkja aðgerðir gegn skattaskjólum. Sá þriðji er enn formaður flokksins sem kom honum til valda, búinn að skipa eftirmann sinn og farinn að undirbúa kosningabaráttu fyrir komandi kosningar.
Eftirmaður hans virðist einnig eiga einhvers konar met í óvinsældum, með sögulega lítið fylgi. Í umfjöllun The Telegraph um óvinsælustu þjóðarleiðtoga í lýðræðisríki fannst enginn sem hafði mælst með jafn lítið fylgi og fyrrverandi forseti Perú sem var með átta prósenta fylgi árið 2004 eftir röð spillingarmála þegar helmingur þjóðarinnar var undir fátæktarmörkum. Forsætisráðherra Íslands mældist með fimm prósenta stuðning í embættið í síðustu Gallup-könnnun.
Stuðningur við ríkisstjórnina nú er minni en þegar núverandi fjármálaráðherra krafði síðustu ríkisstjórn um að skila lyklunum - aftur til Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var orðinn þreyttur á breytingunum og vildi völdin aftur í sínar hendur.
Kosningum var lofað í haust, en þegar þessir sömu aðilar hafa áður svikið loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu og grafið niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá er ekki traustvekjandi að tímasetningin eigi að ráðast af framvindu þeirra mála sem ríkisstjórnin ætlar sér að ljúka, ekki síst í ljósi þess að enn er ekki vitað hvaða mál það eru þegar innan við þrjár vikur eru eftir af vorþingi.
Í stað þess að mæta kröfunni um kosningar strax var mantran um trausta efnahagsstjórn síendurtekin í tilraun til að sannfæra þjóðina um að það væri ábyrgðarlaust að verða við vilja hennar. Engum væri betur treystandi til að ljúka erfiðum verkefnum í efnahagslífinu en Sjálfstæðisflokknum, jafnvel þótt stærsta efnahagsáfall þjóðarinnar hafi orðið á hans vakt, undir hans eftirliti og eftir hans áherslum, þegar markmiðið var að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.
365: Milljarðaslóð eigenda í skattaskjól
Fjölmiðlum mistókst að veita nauðsynlegt aðhald í aðdraganda hrunsins, þegar þeir voru flestir í eigu hagsmunaaðila og tóku þátt í að móta jákvæða ímynd gagnvart bönkum sem síðan hrundu. Enda voru niðurstöður rannsóknarskýrslu Alþingis á þá leið að efla þyrfti sjálfstæði ritstjórna, setja eignarhaldi mörk og upplýsa um eigendur fjölmiðla.
„Reynslan sýnir að það er ekki umræðan um hagsmuni sem er fárveik, heldur hagsmunirnir sjálfir sem brengla umræðuna.“
Í því ljósi var vont að lesa leiðara aðalritstjóra 365, í víðlesnasta blaði landsins, sem dreift er frítt inn á hvert heimili, um að „dylgjur á Alþingi um að forsætisráðherra hafi leikið tveimur skjöldum“ væru „í besta falli hjákátlegar, og í versta falli sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu“ þegar hann hafði orðið uppvís að óheiðarleika og hagsmunaárekstri.
Í fallinu reyndi forsætisráðherrann að hvítþvo hendur sínar í viðtali við valda miðla, þá einu sem hann vildi ræða við, Útvarp Sögu og miðla 365, Fréttblaðið, Bylgjuna og Stöð 2, þar sem hann baðst afsökunar á frammistöðu sinni í sjónvarpinu en ekki hræsninni sem umfjöllunin afhjúpaði.
365 miðlar eru í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannssonar, en þau hjónin földu sjálf eignir í skattaskjólum eftir aðkomu sína að efnahagshruninu, afskriftir og afsökunarbeiðni, auk fullyrðinga um að hann ætti nóg fyrir Diet Coke og ekkert á Tortóla.
Aðalritstjóri fyrirtækisins hefur lengi starfað náið með þeim hjónum og gagnrýnt rannsóknir á efnahagsglæpum, eins og Jón Ásgeir hefur sætt. Þegar hann tók til starfa hættu báðir ritstjórar Fréttablaðsins með varnarorðum um inngrip, en 365 miðlar hafa síðan verið leiðandi í gagnrýni á dómskerfið í efnahagsbrotamálum.
Reynslan sýnir að það er ekki umræðan um hagsmuni sem er fárveik, heldur hagsmunirnir sjálfir sem brengla umræðuna.
DV: „Kallinn í Panama-skjölunum“
Panama-skjölin birtu ekki betri mynd af DV, sem sló upp forsíðufyrirsögninni „Búið að laga“, með mynd af ríkisstjórninni þar sem andlit Sigurðar Inga hafði verið límt yfir höfuð Sigmundar Davíðs, daginn eftir að hann sagði af sér, með þeim skilaboðum að nú væri óþarfi að ræða málið frekar, þar til það kom á daginn að ritstjórinn var sjálfur með aflandsfélag í skattaskjóli og notaði eigin miðil til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með blekkingum um að hann hefði áður greint frá málinu, þegar hann hafði aðeins sagst eiga félag erlendis.
Sami ritstjóri gagnrýndi rannsóknir á efnahagsbrotum í bók sem hann skrifaði á meðan hann var sjálfur grunaður um skattalagabrot, án þess að láta þess getið að hann hefði persónulegra hagsmuna að gæta. Nú kvartar „kallinn í Panama-skjölunum“ undan því að fá ekki aðgang að gögnunum, en enn er því haldið leyndu hver fjármagnaði yfirtökuna á DV og aðaleigandinn er sá fjölmiðlamaður sem í aðdraganda hrunsins fékk hæstu lánin frá fjármálafyrirtækjum á meðan hann ritstýrði fréttum af viðskiptalífinu, fyrrverandi framsóknarmaður, rétt eins og ritstjórinn sem benti fingri í sjónvarpsmyndavélarnar og ákallaði Sigmund Davíð.
Fyrir yfirtökuna hafði Framsóknarflokkurinn lýst vilja sínum til að komast yfir fjölmiðil sem væri hliðhollur sér.
„Rétt eins og ritstjórinn sem benti fingri í sjónvarpsmyndavélarnar og ákallaði Sigmund Davíð.“
Ábyrgðin
Aftur og aftur hefur ríkisstjórnin orðið uppvís að tilraunum til að afvegaleiða, blekkja eða beita valdi sínu til þess að stýra umræðunni sér í hag.
Með ófrægingarherferðum, pólitískum afskiptum, hótunum og niðurskurði hafa ráðamenn ráðist að RÚV vegna sjálfstæðra vinnubragða og faglegrar fréttamennsku. Þeir hafa neitað að tala við fjölmiðla sem flytja fréttir sem eru þeim ekki að skapi og gert ítrekaðar tilraunir til að sannfæra almenning um að honum sé betur borgið með því að sýna stjórnvöldum samstöðu en að stunda gagnrýna hugsun. Gagnrýnisraddir voru afskrifaðar sem „rof á milli skynjunar og raunveruleika“.
Því veikari sem fjölmiðlar eru, því skertari er sýn almennings, sem á endanum ber ábyrgð á stjórnvöldum í lýðræðisríki. Stefna stjórnvalda fyrir hrun var sett í umboði kjósenda, sem síðan kusu sömu flokka aftur til valda. Flokkarnir hafa lítið breyst, siðferði þeirra og starfsháttum er enn ábótavant, en andrúmsloftið á mótmælunum um daginn sýndi hins vegar að samfélagið er að breytast. Eins og þjóðin hefði loks öðlast sjálfstraust til þess að slíta slæmu sambandi, af því að nú er komið nóg af óheiðarleika og sérhagsmunaklækjum.
Við eigum betra skilið, en við þurfum ekki verndara á Bessastöðum heldur upplýsingar og umræðu, trú á framtíðina og okkur sjálf.
Athugasemdir