Amma var barn í stríði. Í æsku stóð hún stundum úti í glugga og horfði á sprengjur falla á borgina þar sem hún bjó. Hún var heppin að vera í stofunni þegar sprengjubrot lenti í eldhúsinu. Það var líka heppilegt að þegar eldur kviknaði í stigaganginum var hann viðráðanlegur. Móður hennar tókst að kveða hann niður með aðstoð nágranna, áður en stórtjón hlaust af. Eitt sinn fór amma inn á hersvæðið til að finna frænda sinn þegar hermaður beindi byssu að baki hennar og leiddi hana þannig til liðþjálfans.
Amma var heppin. Hún var uppi á þeim stað og þeim tíma að hægt var að senda þær systur burt á meðan það versta gekk yfir; í sveitina, yfir landamærin og til nágrannaríkis, þar sem friður ríkti og smjör var á borðum.
Stríðið sem hún lifði kenndi okkur að við megum ekki loka dyrum fyrir flóttafólki og fórnarlömbum styrjalda hvað sem líður vegabréfi, ríkisfangi, kynþætti eða trúarbrögðum. Sligaðar af samvisku samþykktu þjóðir heimsins alþjóðalög sem við höfum byggt á, þótt eitthvað hafi fjarað undan í kaldlyndi samtímans, þar sem landamærum er lokað fyrir fólki í neyð. Lík barna reka á land. Börn kafna í flutningabílum. Á flótta undan ástandi þar sem fólki er kastað niður af húsþökum, það grýtt á götum úti, afhöfðað og brennt. Fréttirnar sem fylla okkur óhug eru veruleiki fólks sem flest lifði venjulegu lífi áður en stríðið hófst og þráir ekkert heitar en að geta snúið aftur til venjulegs lífs.
„Fjöldi flóttamanna hefur ekki verið meiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni.“
Talið er að um 60 milljónir manna séu nú á flótta undan styrjöldum, mannréttindabrotum eða náttúruhamförum. Þeim fjölgar með hverjum deginum. Á síðasta ári lentu á hverjum degi 45.000 manns á vergangi, fjöldi sem fjórfaldaðist á fjórum árum. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem getur snúið aftur heim ekki verið minni í fjörtíu ár. Fjöldi flóttamanna hefur ekki verið meiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Við horfum upp á neyðarástand og verðum að bregðast við.
Fólkið sem er nú á flótta þarf fyrst og fremst öryggi, húsaskjól og atvinnu. Undanfarið hafa íslensk stjórnvöld sagt að við höfum aldrei verið í eins sterkri stöðu efnahagslega. Hér ætti því að vera hægt að veita þetta, ef forgangsraðað væri út frá mannúðarsjónarmiðum. Alveg eins og það ætti að vera hægt að fjármagna nýjan spítala og veita þeim sem minnst mega sín mannsæmandi kjör, því það er fyrst og fremst spurning um áherslur, viðhorf og gildi, þótt reynt sé að stilla þessu upp sem andstæðum pólum.
Það er sorglegt að sjá stjórnvöld hreykja sér af stöðunni á sama tíma og það stóð aðeins til að bjóða 50 flóttamönnum til landsins á næstu tveimur árum. Fimmtíu flóttamenn eru færri en þeir sem köfnuðu í flutningabílnum í Austurríki og færri en þeir sem drukknuðu eina nóttina í Miðjarðarhafinu, þar sem um 2.500 manns hafa þegar drukknað á árinu.
Hvers virði er mannslíf?
Til samanburðar tóku Svíar á móti 30.000 flóttamönnum í fyrra, sem jafngildir því að 1.500-2.000 flóttamenn kæmu til Íslands, miðað við höfðatölu.
„Ég skil ekki hvernig samfélag hefur efni á því að brjóta fólk niður með þessum hætti.“
Stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart útlendingum í neyð hefur ekki einkennst af mannúð og virðingu. Frá því í ágúst í fyrra hafa 220 hælisleitendur sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. 12 hafa fengið hæli. Flestum er vísað burt á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, sem þýðir að við höfum sent hælisleitendur á götuna, í aðstæður sem líkt er við „helvíti“, jafnvel aftur í stríð.
„Ég skil ekki hvernig samfélag hefur efni á því að brjóta fólk niður með þessum hætti,“ sagði Pia Prytz Phiri, umdæmisstjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Norður Evrópu. Í heimsókn til Íslands hafði hún eftir hælisleitanda hér á landi að þeir væru að „deyja hægt og sígandi.“
Tveir nígerískir flóttamenn sögðu sögu sína í fyrra. Annar hafði beðið í ár eftir svari um hvort umsókn hans yrði tekin til efnislegrar meðferðar, en honum hafði þegar verið neitað um hæli á Ítalíu. Á meðan sat hann fastur, aleinn og allslaus, og fann hvernig draumar hans voru að dofna. Hinn var á flótta undan ofsóknum íslamska hryðjuverkahópsins Boko Haram og hafði beðið í tvö ár eftir svari. Hann sagðist vera fastur í myrkrinu.
Í síðustu viku reyndi hælisleitandi frá Íran að kveikja í sér. Hann er ekki sá eini. Við höfum séð hælisleitendur brotna niður, fara í hungurverkföll og fremja sjálfsvíg. Við höfum sýnt þeim kaldlyndi, fært þá í fangelsi fyrir þær sakir einar að ferðast með fölsuð skilríki, ráðist inn á heimili þeirra og heyrt alþingismann leggja til að þeir beri ökklaband. Við höfum ýtt fólki úr viðkvæmasta hópi samfélagsins út af brúninni og við gerum það ítrekað.
Á hvaða gildum viljum við byggja?
„Við vitum að við getum og verðum að gera betur, ef við ætlum að halda sjálfsvirðingunni og lifa með reisn.“
Ekki erum við skárri þegar það kemur að því að senda aðstoð til fátækustu ríkja heims. Við erum sú þjóð sem gefur minnst allra Norðurlanda til þróunaraðstoðar, sem byggir á þeirri grundvallarhugmynd að ríkari þjóðum beri siðferðisleg skylda til að hjálpa fólki í ríkjum þar sem skortur á nauðþurftum getur orðið fólki að bana.
Innan við ári eftir að Alþingi ákvað nánast samhljóða að hækka framlögin smám saman þar til markmiðum Sameinuðu þjóðanna hefði verið náð árið 2019, ákvað núverandi ríkisstjórn að snúa þróuninni við og lækka framlögin verulega, eða um 30%.
„Gjaldþrota maður getur ekki borgað fyrir aðra,“ sagði núverandi formaður fjárlaganefndar. Með niðurskurðinum væri verið að finna aukið fé til heilbrigðismála. Minna fór hins vegar fyrir umræðunni um heilbrigðiskerfið þegar ríkistjórnin skar niður tekjur með því að lækka veiðigjöld, afnema auðlegðarskatt og raforkuskatt.
Þá, eins og nú, gekk ákvörðun ríkisstjórnarinnar þvert gegn vilja þjóðarinnar. 90% landsmanna hafði lýst sig samþykka sömu eða hærri framlögum til þróunaraðstoðar.
„Amma mín var heppin að tilheyra hópi sem var hjálpað.“
Nú hafa fjölmargir Íslendingar boðið fram persónulega aðstoð sína og sent frá sér ákall til ríkisstjórnarinnar um að hverfa frá fyrri ákvörðun um að bjóða aðeins 50 flóttamönnum til landsins. Kallað er eftir breytingum, nýjum gildum og meiri mannúð, gæsku og hjálpsemi. Við vitum að við getum og verðum að gera betur, ef við ætlum að halda sjálfsvirðingunni og lifa með reisn. Við getum ekki ýtt mennskunni frá og látið eins og aðstæður annarra komi okkur ekki við, eins og við séum ekki í stöðu til þess að hjálpa.
Þegar við erum ósátt við stefnu stjórnvalda er gott að hafa hugfast að á endanum erum það við sem berum ábyrgð á þeim og stefnu þeirra. Við höfum valið í hendi okkar.
Amma mín var heppin að tilheyra hópi sem var hjálpað. Hún gat síðan snúið aftur til síns heima, menntað sig, flust á milli landa, ferðast og eignast fjölskyldu. Verið frjáls.
Við getum veitt öðrum það tækifæri.
Athugasemdir