Um helgina urðu kaflaskipti þegar framsóknarmenn kusu sér nýjan formann. Fráfarandi formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra hefur leitt okkur í gegnum lærdómsríkt tímabil, svo ekki sé meira sagt, enda litríkur karakter með eindæmum, svo mjög að stundum minnir helst á sögupersónu í góðri teiknimynd.
Hann steig fram á sjónarsviðið eftir hrun og stillti sér upp sem hetju til varnar þjóð sinni gegn illum hrægömmum. Strax í menntaskóla hafði hann látið teikna mynd af sér þar sem hann stóð frammi fyrir skólafélögunum með sverð og skjöld, merktan íslenska fánanum, og að baki honum kastali og íslenskur sveitabær. Það var svo þegar allt var hrunið hér heima sem honum tókst að sannfæra fólk um að hann væri sá sem það þyrfti á að halda, í orrustum sem hann skapaði að miklu leyti sjálfur, ekki aðeins gegn erlendum vogunarsjóðum heldur einnig fjölmiðlum, fræðimönnum, alþjóðastofnunum, pólitískum andstæðingum og seinna samherjum. Myndin sem hann reyndi að draga upp var sú að hann væri maður fólksins, sá sem kom því til bjargar með leiðréttingu á lánum í láglaunaríki og sá sem bjargaði okkur frá Icesave. Auðvitað var það einföldun, en með þetta að vopni bjó hann til goðsögn og gerði þá sem gagnrýndu framgöngu hans eða hugmyndafræði að óvinum, árásaraðilum eða svikurum. Í þessu sjálfskapaða stríði var hvorki svigrúm fyrir rökræður né ólík sjónarmið, enda taldi hann sig sjálfan fulltrúa „róttækrar rökhyggju“. Annaðhvort varstu með honum eða á móti, honum sem var miðpunktur alls, sá sem allt hverfðist um. Sá sem átti að vera hinn óskeikuli leiðtogi þurfti hvorki að fylgja sömu leikreglum og aðrir, viðurkenna mistök eða biðjast afsökunar.
Nú er hann farinn, hættur sem forsætisráðherra, hættur sem formaður og farinn úr ríkisstjórn sem hrökklaðist frá völdum vegna framgöngu hans. Hann skiptir kannski ekki máli lengur, eftir að hann var afhjúpaður fyrir það sem hann er, ríkur forréttindakarl í leit að völdum. Sá sem reyndi að telja okkur trú um að allt útlenskt væri hættulegt en reyndist ekki hafa meiri áhyggjur af því en svo að hann valdi frekar að geyma auð sinn í skattaskjóli erlendis en á Íslandi, sem átti þó að vera best í heimi. Hann – eða konan hans, var á laun nákvæmlega það sem hann sagðist vera að veita andstöðu fyrir hönd okkar hinna, í hópi þeirra sem áttu kröfur í gegnum bankana. Á einu augnabliki hrundi hann niður af stallinum sem hann hafði klöngrast upp á, rúinn trúverðugleika og trausti. Áfram hrópaði hann: Verið hrædd. Kjósið mig!
Eftir stendur að hann leiðir samt listann í sínu kjördæmi, kemur aftur á þing eftir kosningar og verður líklega ráðherra haldi ríkisstjórnin velli. Enn er fólk, lítill hópur reyndar, minni en áður, sem kaupir hugmyndina um hetjuna og svikarana.
„Í raun má þakka Sigmundi Davíð fyrir það hvað hann gekk fram af miklu offorsi.“
Í raun má þakka Sigmundi Davíð fyrir það hvað hann gekk fram af miklu offorsi. Annars hefðum við kannski marað svo miklu, miklu lengur í þessu hálfkæfða andrúmslofti, þar sem forsætisráðherrann talar aðeins við fjölmiðla sem eru honum þóknanlegir, niðurskurði er hótað vegna fréttaflutnings og reynt er að jaðarsetja allar gagnrýnisraddir.
Auðvitað er enginn fullkominn. Stundum eru stjórnmálamenn jafnvel mjög lengi við völd þó að þeir taki slæmar ákvarðanir, svo lengi sem þær eru ekki of slæmar til að hægt sé að hrista óþægindin af sér og halda áfram. Þeir gera jafnvel eitthvað alveg ömurlegt sem verður þó ekki til þess að gripið sé til aðgerða til að tryggja að það geti ekki gerst aftur. En núna var ekki hægt að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Hann gekk of langt.
Um leið má þakka áminninguna. Með framgöngu sinni sýndi hann okkur hvað það er sem við viljum ekki. Vonandi verður það til þess að við vitum betur hvað við viljum þá í staðinn. Í því felst tækifæri, því við getum valið annað. Breytingar gerast yfirleitt ekki af sjálfu sér, því þær reyna á og oft er þægilegra að halda sig við það sem maður þekkir heldur en að stökkva út í óvissuna. Núna höfum við tækifæri til þess að endurmeta hvernig samfélag við viljum skapa.
Þá má hafa í huga að þótt fáir hafi stillt sér með jafn afgerandi hætti upp sem hetju í tilbúnu stríði eru þeir fleiri sem leika þann leik að stilla fólki upp í andstæðar fylkingar, með eða á móti, gagnrýna síðan allt sem frá andstæðingunum kemur. Þá er lykillinn að taka meira pláss en aðrir, tala hærra og meira, en ekki hvað þú segir eða hefur fram að færa. Fólk hreykir sér jafnvel af því að hafa komið vonlausum málum í gegn með offorsi og frekju.
Í slíku andrúmslofti er hætt við því að þeir sem eru hófstilltir í framkomu séu afskrifaðir sem veikir leiðtogar, þegar það þykir nánast skömm að því ef þeir nálgast umræður málefnalega, eru tilbúnir til þess að hlusta á önnur sjónarmið og finna lausnir sem þjóna flestum. Þannig er umræðan hertekin. Þekking og reynsla er höfð að engu og sannleikur og staðreyndir þykja engu merkilegri en skoðanir eða áróður. Orðin eru bara endurtekin í sífellu þar til þau hljóma eins og sannleikur.
Eins og frasinn um trausta efnahagsstjórn. Lengi vel trúði fólk því að hagkerfið færi á hliðina kæmust vinstri flokkar til valda. Enn klifar Sjálfstæðisflokkurinn á þessari möntru, jafnvel þótt hann hafi verið við völd og innleitt það kerfi sem síðar hrundi með ömurlegum afleiðingum. Jafnvel þótt sami flokkur þurfi nú aftur að boða til kosninga á miðju kjörtímabili, því ráðherrar hans virðast ekki treysta íslenska kerfinu betur en svo að þeir stofnuðu félög í skattaskjólslöndum. Nú stendur flokkurinn fyrir sölu á ríkiseignum. Þannig varð pabbi Sigmundar Davíðs ríkur. Um daginn keypti frændi fjármálaráðherra Borgun á gjafverði.
Þegar styttist í kosningar dynur áróðurinn á okkur og kosningaloforðin fljóta um eins og gull sem þarf að grípa. Gleymum ekki að þeir sem lofa núna að endurreisa heilbrigðiskerfið eru þeir sömu og gerðu það síðast að sínu fyrsta verki að lækka skatta á þá sem þurftu síst á því að halda, og héldu þeirri stefnu allt kjörtímabilið. Þeir standa vörð um kerfi sem tryggir að þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku jafn bláfátækir og áður. Þeir hafa aukið einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, þyngt kostnaðarþátttöku sjúklinga, svelt spítala og heilsugæslustöðvar, skorið niður þróunaraðstoð, vísað börnum á flótta úr landi, takmarkað möguleika fólks á menntun með því að loka á framhaldsskólana fyrir þá sem eru eldri en 25 ára og skert lán til doktorsnema. Fyrst núna ætla þeir að fara að hjálpa öryrkjum og sjúkum, en aðeins eftir kosningar, svo fremi sem við kjósum þá aftur til valda. Ef við trúum því.
Þetta er orðið gott. Takk fyrir okkur.
Takk fyrir að ganga fram með jafn afdráttarlausum hætti. Takk fyrir að gera það strax. Takk fyrir að sýna okkur allt sem við viljum ekki vera. Því okkar er valið.
Athugasemdir