Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd á Íslandi rúmlega 81 prósent tímans frá árinu 1974. Í annað skiptið á tíu árum hefur flokkur gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn undir formerkjum þess að innleiða nýja tegund stjórnmála.
Svona var síðasta sátt
Árið 2007 sameinuðust turnarnir tveir, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking, í stjórn sem átti að skapa sátt í samfélaginu. Með henni voru allir saman í liði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, boðaði ný stjórnmál undir heitinu „samræðustjórnmál“, þar sem eitt af höfuðtakmörkunum var eftirgjöf og dreifing valds.
Hugtakið er nokkuð sem Ingibjörg Sólrún tilgreindi, eftir ferð til London á ráðstefnu jafnaðarmanna, að væri ný leið í stjórnmálum jafnaðarmanna á heimsvísu. Tony Blair bauð Ingibjörgu Sólrúnu til ráðstefnunnar, en hann hafði þá nýverið átt samræður og samstarf við George W. Bush Bandaríkjaforseta um innrás í Írak, sem reyndist vera byggt á fölskum forsendum og hefur reyndar breytt Írak í gróðrarstíu hryðjuverka og alið af sér bylgju hryðjuverka þar og um alla Evrópu.
Tímabil ríkisstjórnar samræðustjórnmála á Íslandi einkenndist af hagsmunaárekstrum, krosstengslum, leynistyrkjum til stjórnmálaflokka, notkun skattaskjóla, árásum á gagnrýnendur og vísvitandi blekkingum gagnvart almenningi og umheiminum. Samræðustjórnmálin enduðu með fullkominni samlögun þeirra að stefnu helsta valdaflokks landsins. Eftirgjöf valdsins var ekki til fólksins heldur til helsta valdaflokksins og viðskiptablokka, og samræðan var fölsk.
Ný ný stjórnmál
Nú hefur annar flokkur, Björt framtíð, myndað ríkisstjórn undir sambærilegum formerkjum nýrra stjórnmála. Flokkurinn vísar til þeirra sem „yfirvegaðra stjórnmála“ og meiri fagmennsku og heiðarleika. „Tölum saman, segjum satt. Virðum hvert annað,“ segir í stefnuyfirlýsingu Bjartrar framtíðar.
Strax við upphaf stjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn þurfti Björt framtíð að verja það val sitt að hafa gert Bjarna Benediktsson að forsætisráðherra þrátt fyrir að dagana áður hefði komið í ljós að hann hefði sýnt alvarlegan óheiðarleika gagnvart þjóðinni og þingmönnum. Eftir kosningar kom á daginn að Bjarni hafði haldið til baka skýrslu sem varpaði ljósi á umfang skattaskjólseigna Íslendinga. Bjarni náði þannig að nota stöðu sína sem fulltrúi íslensks almennings til að koma í veg fyrir umræðu sem væri óþægileg fyrir hann og flokkinn hans og gæti valdið valdaskerðingu. Hann sýndi hvorki virðingu, né sagði satt, né bauð upp á samtal fyrr en það var orðið of seint.
„... láta trúverðugleika og heiðarleika vera okkar merki ...“
Kosningarnar 2016 snerust að miklu leyti um uppgjör á notkun stjórnmálamanna á skattaskjólum og það regluverk sem gerði það kleift, eins og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, lýsti í ræðu á Alþingi 4. apríl 2016:
„Eftir hrunið 2008 myndaðist sátt um allt samfélagið um að við skyldum byggja okkur upp, láta trúverðugleika og heiðarleika vera okkar merki, reyna að endurvinna trúverðugleika í augum heimsins eftir það sem á undan var gengið. Það sem hefur komið í ljós síðustu daga og ekki síst í gær er að það voru ekki allir með í þeirri ferð. Leyndarhyggja hefur grafið um sig hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar.“
Eftir að Óttarr myndaði ríkisstjórn á grunni þessarar sáttar um heiðarleika til endurvakningar á trausti, varð fréttin um að Íslendingar hefðu losað sig við einn stjórnmálamann úr Panama-skjölunum af forsætisráðherrastóli til þess eins að gera annan stjórnmálamann úr Panamaskjölunum að forsætisráðherra ein sú mest lesna á vef Washington Post.
Staðið á sannfæringu
En það skiptir ekki endilega máli hvort fólk af öðru þjóðerni hafi trú á okkar þjóðerni eða landinu okkar, heldur skiptir máli að við stöndum á okkar og séum samkvæm sjálfum okkur.
Ef við sem þjóð teljum rétt að stjórnmálamaður eigi að verða forsætisráðherra þrátt fyrir að hafa átt einhverjar eignir í skattaskjóli, að hafa sagt ósatt um það í sjónvarpsviðtali, hafa síðan sýnt óvild sem ráðherra gagnvart tilraunum skattrannsóknarstjóra til að kaupa upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjóli og hafa síðan grafið skýrslu um málið fram yfir kosningar, og svo sagt ósatt í viðtölum um aðdraganda þess og aðstæðurnar og atyrt þá sem gagnrýndu þennan ráðahag hans og hagsmunaárekstur, þá eigum við einfaldlega að slá til.
„Við höfum okkar sannfæringu og stöndum á henni.“
Björt framtíð boðar svokölluð „yfirveguð stjórnmál“:
„Við höfum okkar sannfæringu og stöndum á henni. En við höfum líka kjark til að hlusta á aðra,“ segir í lýsingu á þeim.
En á meðan Björt framtíð lagði áherslu á samræðustjórnmál trompaði Sjálfstæðisflokkurinn með valdi.
Viljinn til valds
Peningar eru vald. Þetta er hversdagslegt vald sem þú getur notað til að gera hluti, opna heiminn fyrir þig, upplifa, sjá og svo stjórna atferli annarra þér í hag. Peningar kaupa tíma, aðgang, orku og yfirráð.
Skattakerfið er notað til að dreifa hinu hversdagslega valdi og nýta það fyrir almannahagsmuni.
Viljinn til að dreifa verðmætum og valdi samfélagsins er misjafn eftir flokkum og stjórnmálastefnum. Flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn byggja valdakenningu sína á íhaldsstefnu og frjálshyggju. Mikilvægustu hugtökin í stjórnmálastefnu flokkanna er frelsi, sem er getan til að forðast vald eða beita því, og svo eign. Þingmaðurinn Pawel Bartoszek hefur til dæmis sagt að skattlagning sé á endanum ofbeldi. Ástæðan er að skattlagningu fylgir að eign þín sé tekin af þér með valdbeitingu ef þú berst gegn því að borga skatta.
Skattlagning, eða þess konar „ofbeldi“, getur birst í fleiri myndum en skattur til ríkisins. Allt venjulegt fólk þarf til dæmis að sækja sér lán til að eignast heimili og borga af því vexti, sem er samanburðarhæft við skattlagningu, fyrir utan að slík skattlagning byggir á sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum. Vöxtunum er ætlað að auðga enn frekar lánveitandann á kostnað lántakandans. Skattlagning ríkisins byggir hins vegar á almannahagsmunum – svo lengi sem ríkisvaldið er ekki í höndum spilltra aðila sem vinna fyrir sérhagsmuni.
Andstaðan við beina almannahagsmuni
Viðreisn segir í kynningarefni sínu að „ein af grunnstefnum Viðreisnar“ sé „almannahagsmunir ofar sérhagsmunum“.
Íhaldsflokkar sem eru frjálshyggjusinnaðir hafa jafnan á stefnunni að veikja ríkisvaldið. Þannig hafa formenn Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins það takmark að halda útgjöldum samneyslunnar niðri til að borga upp allar skuldir íslenska ríkisins. Þegar þeir stýra fyrirtækjum vilja þeir hins vegar umfram allt fá lán til þess að fjárfesta. Þeir vilja að einkaaðilar fjárfesti meira, en ríkið minna. Þeir hafna í raun þeirri forgangsröðun að íslenska ríkið fjárfesti til að auka hag þjóðarinnar í heild til frambúðar, til dæmis með bættu menntakerfi og þar með sterkari mannauði, jafnvel þótt íslenska ríkið fái bestu mögulegu vaxtakjör íslenskra aðila. Grunnurinn að stefnu þeirra er að sérhagsmunafjárfesting frekar en almannahagsmunafjárfesting leiði til betri niðurstöðu fyrir alla til lengri tíma.
Vald sem eign
Sjálfstæðisflokkurinn horfir með sambærilegum hætti á stjórnmálavald og peningalegt vald. Hann vill ekki dreifa því jafnar.
Íhaldssinnaðir flokkar telja að stjórnmálaflokkarnir, í gegnum Alþingi, séu í reynd eigendur valdsins og að valdið eigi sem minnst að færa annað, til dæmis til almennings með beinu lýðræði. Ein afleiðing þessa er til dæmis sú afstaða Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar að hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfesti niðurstöður þjóðkjörins stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá sem hefði aukið valddreifingu verulega með auknu ákvörðunarvaldi almennings. Önnur afleiðing er að Sjálfstæðisflokkurinn sveik loforð sitt um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem gefið var fyrir kosningarnar 2013. Þriðja afleiðing er að Viðreisn, sem stofnuð var vegna loforðasvika Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðsluna, fór í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og samþykkti ekki aðeins að sleppa því að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðsluna sem var svikin, heldur að koma í veg fyrir hana þangað til kjörtímabilið væri komið á enda.
Valdamálin ráða för
Andstaða Viðreisnar við dreifingu á peningalegu valdi birtist meðal annars í því að fimm flokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks gekk ekki upp vegna andstöðu Viðreisnar við dreifingu á tekjum eða eignum frá þeim allra tekjuhæstu yfir í almannaþjónustu.
Þannig vinna íhaldsflokkarnir að því að takmarka valddreifingu, bæði í formi peninga og ákvörðunarvalds þrátt fyrir loforð og fyrirliggjandi þjóðaratkvæðagreiðslur.
Sumt af því sem ungur stofnandi Viðreisnar tilgreindi í kosningagrein um flokkinn sinn sem hann hafði óskað sér hljómar framandlegt núna eftir að flokkurinn hefur gert stjórnarsáttmála við Sjálfstæðisflokkinn: „Kornið sem fyllti mælinn hjá þessum hópi var ákvörðun [Sjálfstæðisflokksins] í ársbyrjun 2014 að svíkja kosningaloforð um þjóðaratkvæðisgreiðslu varðandi áframhaldandi aðildarviðræður Íslands við ESB ... Undanfarin ár höfum við lagt kapp á að móta þann frjálslynda flokk sem við höfum alltaf viljað sjá á Alþingi. Flokk sem þorir að taka afstöðu til mála sem aðrir hunsa. Róttækar breytingar og markaðslausnir í landbúnaði og sjávarútvegi standa þar framarlega, en listinn er langt frá því að vera tæmandi“.
„Ekki skal gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga“
Þrátt fyrir að hafa boðað miklar kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði, og uppboð á fiskveiðiheimildum svo ríkið geti fengið markaðsvirði fyrir afnot af auðlindinni, er sérstaklega tekið fram í stjórnarsáttmála að „ekki skal gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess.“ Þar sem „málefnin ráða för“ reyndist samhljómur í valdamálum skipta mestu.
Auðvitað geta Viðreisn og Björt framtíð náð fram umbótum sem allir, og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, eru sáttir við. En í helstu málum sem varða valdið varð íhaldsstefna Sjálfstæðisflokksins ofan á.
Sátt við rótgróinn valdaflokk
Á endanum snúast stjórnmál um vald. Rótgrónasta valdaflokki landsins tókst að viðhalda valdakerfi sínu í kosningum og stjórnarmyndun í skugga tilfella hagsmunaárekstra og óheiðarleika, þrátt fyrir boðaðar kerfisbreytingar, róttækar umbætur og siðbót sem forsendu sáttar.
Sáttin sem lagt er upp með er sáttin við það rótgróna vald sem hefur verið ríkjandi fjóra af hverjum fimm dögum á lýðveldistíma Íslands.
Athugasemdir