Páll Skúlason heitinn benti eitt sinn á að við stæðum frammi fyrir alvarlegum siðferðisvanda og að vandinn væri þríþættur; Í fyrsta lagi væri virðing fyrir siðferðislögum, boðum og bönnum, af skornum skammti – menn virtust telja allt leyfilegt sem ekki væri bannað með lögum. Í öðru lagi léku brestir of lausum hala í samfélaginu. Í þriðja lagi væri gildismati okkar alvarlega ábótavant og við gerðum okkur ekki grein fyrir því hvað skiptir raunverulega máli.
Ísland er á meðal ríkustu þjóða heims, en samt er tilfinningin sú að Ísland sé fátækt land, andlega veikt. Það er eins og okkur skorti tengsl, við okkur sjálf, við samferðarfólk okkar, við landið og náttúruna. Eins og samkennd og virðing víki fyrir græðgi sem mengar alla hugsun og gerir okkur ginkeypt fyrir slæmum hugmyndum og skyndilausnum, jafnvel þegar augljóslega er verið að klæða sérhagsmuni í búning almannahagsmuna. Eins og þegar forsætisráðherra tengdi saman kjaraviðræður og áform ríkisstjórnarinnar um að heimila fleiri virkjanir með þessum orðum: „Til að hægt sé að verða við verulegum kröfum um launahækkanir og væntingum um áframhaldandi kaupmáttaraukningu þá þurfum við að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og þar strandar býsna margt á orkuöfluninni.“
„Þeir græddu lítið sem ekkert, nema skuldir og dautt Lagarfljót. Var það þess virði?“
Orðræða forsætisráðherra er afturhvarf til fyrirhrunsáranna þegar reisa átti risastóra virkjun austur á fjörðum sama hvað, beygja til þess reglur og reglugerðir, svo hægt væri að leggja land undir stóriðju, sökkva hluta þess og selja rafmagn á gjafverði. Þjóðinni var seld sú hugmynd að hún gæti ekki annað en grætt á þessu. Í þeirri trú að samfélagið myndi blómstra með stóriðjunni reistu Austfirðingar ný hverfi, lögðu götur og byggðu blokkir sem stóðu tómar næstu árin. Þeir græddu lítið sem ekkert, nema skuldir og dautt Lagarfljót. Var það þess virði?
Nú reyndu stjórnarflokkarnir að þröngva því í gegnum þingið að fimm virkjunarkostir yrðu færðir úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk, án þess að gefa fræðimönnum færi á að ljúka sinni vinnu við mat á svæðunum sem um ræðir og áhrifum virkjana. Á meðal fyrirætlana þeirra var að ráðast inn í hjarta landsins, hálendið sem er einstakt í sjálfu sér, víðerni sem verða ekki metin til fjár. Hversu sorglegt er það að þeir sem þjóðin valdi til að verja hagsmuna sína séu þeir sömu og vilja rústa helstu verðmætum hennar? Hvers virði er að búa í landi þar sem allt er til sölu, fyrir hagvöxtinn, von um skyndigróða, stóriðju og sæstreng?
„Hversu sorglegt er það að þeir sem þjóðin valdi til að verja hagsmuna sína séu þeir sömu og vilja rústa helstu verðmætum hennar?“
Forsætisráðherra talar um rof á milli raunveruleika og skynjunar.
Áttatíu prósent orkunnar fer nú þegar til stóriðju á gjafverði, eða um fjórðungi þess sem heimili landsins borga. Stóriðjufyrirtækja sem borga litla sem enga skatta á Íslandi vegna skattaívilnana. Íslendingar eiga ekkert í þessum fyrirtækjum, þannig að arðurinn fer allur úr landi. Viljum við halda þessu áfram?
„Ég er orðin ansi óþreyjufull,“ sagði nýr iðnaðarráðherra nokkrum mánuðum eftir að hún tók við völdum og skammaði forstjóra Landsvirkjunar fyrir að vera ekki búinn að redda orku fyrir nýja stóriðju, eins og Helguvíkurálverið. Helguvík er í hennar kjördæmi.
Fjármálaráðherra segir Íslendinga aldrei hafa verið í eins sterkri stöðu efnahagslega. Landsframleiðsla hafi aldrei verið meiri, kaupmáttur hafi aukist og undirstöðuatvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn, orkuiðnaðurinn og ferðaþjónustan standi betur en áður. Ríkasta eitt prósentið á um 40 prósent meira í dag en árið 2002. Samt hefur auðlegðarskattur verið afnuminn, gistináttaskattur lækkaður og hækkun á veiðigjöldum látin niður falla, á sama tíma og öryrki þarf að lifa á samlokum til að geta gefið börnunum sínum að borða. Greiðslur til öryrkja hækkuðu um þrjú prósent í janúar. Hversu mikið kaldlyndi er hægt að sýna?
„Hversu mikið kaldlyndi er hægt að sýna?“
Átján ára piltur sem hefur verið fatlaður frá fæðingu þarf að sanna fyrir Tryggingarstofnun að hann sé fatlaður svo hann fái örorkubætur. Fiskverkunarfólkið í HB Granda sem stóð vaktina við að skapa fyrirtækinu verðmæti átti ekki að fá kjarabót þegar eigendur fyrirtækisins ætluðu að greiða sér milljarða í arð, heldur frostpinna. Lægstu laun duga ekki fyrir framfærslu. Hvernig er hægt að réttlæta misskiptinguna sem felst í því að á meðan ríkasta tíu prósentið á næstum þrjá fjórðu alls eiga 30 prósent landsmanna minna en ekkert, ekkert nema skuldir?
Forsætisráðherra gaf til kynna að kaupmáttaraukning og launahækkanir strönduðu á andstöðu við frekari virkjanir. Þurfum við ekki frekar hugarfarsbreytingu, annað gildismat og réttlátara samfélag, heldur en að drekkja meira landi? Hvammsvirkjun getur ekki bjargað okkur. Jafnvel þótt allar þessar virkjanir yrðu að veruleika myndi það ekki bjarga okkur. Af gjörðum ríkisstjórnarinnar má vera ljóst að hún mun ekki gera það. Það gerir það enginn nema við sjálf.
Athugasemdir