Nú þegar tuttugu manns hafa verið dæmdir í Hæstarétti fyrir efnahagsbrot í tengslum við hrunið er eitthvað sem vantar tilfinnanlega.
Það vantar ekki að þeir dæmdu njóti skilnings í fjölmiðlum, eða að leiðarar séu skrifaðir í dagblöð þeim til stuðnings, og bækur. Það vantar ekki að þeir fái fínar aðstæður í betrunarvistinni til þess að viðhalda góðum lifnaðarháttum og halda áfram störfum sínum. Þá vantaði ekki heldur góða lögmenn, skilningsríka fréttamenn eða að fólk sé í vaxandi mæli farið að finna til samúðar með þeim seku samhliða umfjöllunum um að þeir hafi verið beittir órétti.
Það vantar ekki að sérstakur saksóknari hafi náð góðum árangri, sama hvað lögmenn og þingmenn hafa sagt þegar þeir hafa viljað hætta rannsóknunum, því 90% árangur fyrir Hæstarétti er ágætiseinkunn.
Það sem vantar hérna er auðmýkt þeirra dæmdu - einhver lágmarksskilaboð um að þeir líti svo á að þeir hafi gert eitthvað rangt. Þó það væri ekki nema einhver af þessum tuttugu.
Eins og Ólafur Þór Hauksson bendir á í viðtali við Stundina um starf sitt við saksókn efnahagsbrota í aðdraganda hrunsins er almenna venjan sú að brotamenn játi og jafnvel iðrist brota sinna, en það hefur ekki gerst í þessum málum. Niðurstaða þeirra dæmdu er þvert á móti að þeir séu fórnarlömbin í málunum.
Boðskapurinn: Þeir dæmdu eru fórnarlömb
Einhvern veginn gerðist það að enginn sem hefur verið dæmdur fyrir mistök eða brot í aðdraganda hrunsins telur sig hafa gert nokkuð rangt. Hins vegar telja þeir sig vera fórnarlömb annarra.
Geir Haarde gaf tóninn þegar hann úrskurðaði sjálfan sig saklausan eftir að hann hafði verið dæmdur sekur fyrir að bregðast lögbundnum skyldum sínum sem forsætisráðherra í viðbrögðum við alvarlegri stöðu bankanna. „Sá dómur er fáránlegur og reyndar aðeins meira en það, hann er sprenghlægilegur,“ sagði Geir.
Hann taldi sig hafa verið dæmdan fyrir formsatriði, smáatriði, eitthvað sem allir á undan honum hefðu gert. Niðurstaða hans var að hann hafi ekki borið ábyrgð á neinum mistökum, en hins vegar hafi það verið alvarlegt mál og ábyrgðarhluti að dæma hann. „Nú þurfa þeir sem báru ábyrgð á þessari sneypuför að gera upp við sig hvernig þeir ætla að bera þessa ábyrgð.“
Svo var hann gerður að sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.
Firringin: Stærstu mistökin voru mistök annarra
Þeir sem voru dæmdir fyrir að blekkja almenning og markaðinn í umfangsmiklum viðskiptafléttum til að halda uppi hlutabréfaverði í Kaupþingi stigu fram í viðtali við Stöð 2 í síðustu viku þar sem þeir lýstu sýn sinni á eigin ábyrgð. Þeir hafa verið dæmdir fyrir alvarlegt lögbrot, en viðurkenna það ekki, og sýknuðu sig.
Sigurður Einarsson, sem fékk um milljarð í laun, bónusa og hlunnindi árin 2003 til 2007 vegna ábyrgðarstöðu sinnar hjá Kaupþingi, á núverandi verðlagi, áleit helstu mistökin vera að bankinn væri starfræktur á Íslandi. Önnur mistökin voru að hans mati að eftirláta fjölmiðlum og „virkum í athugasemdum“ sviðið.
Ólafur Ólafsson, vinur Al Thani, sem málið er kennt við, og einn af stærstu hluthöfum Kaupþings, greindi að mistökin hefðu ekki legið í lögbroti, sem hann var dæmdur fyrir en kannast ekki við, heldur í kerfinu. Stærstu mistök þeirra þriggja dæmdu sem komu fram í viðtalinu voru sum sé meint mistök annarra.
„Menn gerðu þau stóru mistök, lögmenn og við. Við treystum á kerfið. Við treystum dómstólum. Við lögðum traust á það að Hæstiréttur myndi alltaf dæma samkvæmt lögum. Og þarna eru okkar mistök. Við áttum strax í upphafi að ganga út frá því að kerfið héldi ekki.“
„Samfélagið er að bregðast ákveðnum þjóðfélagshópi“
Firringin frá ábyrgð á þeim gjörðum sem þeir voru dæmdir fyrir lýsir sér í þeim orðum Ólafs að verið sé að leggja fólk í einelti þegar það er dæmt fyrir lögbrot í efnahagsbrotamálum tengdum hruninu.
„Samfélagið er að bregðast ákveðnum þjóðfélagshópi,“ sagði Ólafur. „Það er að leggja ákveðinn þjóðfélagshóp í einelti.“
Hreiðar Már Sigurðsson bankastjóri fékk um átta hundruð milljónir króna á núverandi verðlagi árin 2003 til 2008 í laun vegna ábyrgðarstöðu sinnar, en hann hefur ekki heldur iðrast eða viðurkennt brot sín, þrátt fyrir dóminn og augljósa blekkingu hans gagnvart markaðnum og almenningi fyrir hrunið.
„Það að ætla að kenna nokkrum mönnum um hrunið er jafn fjandsamlegt og heimskulegt og að ætla að kenna hjúkrunarfræðingi um dauða sjúklings,“ sagði aðstandandi hans, sem kvaðst aldrei hafa elskað Ísland jafnlítið, vegna ómennsku þjóðarinnar í garð Hreiðars.
Meðvirknin: Afvegaleidd samúð
Við týndum einhverju á leiðinni. Eða höfðum það aldrei. Við týndum ábyrgðinni, sem þeir fengu samt ríflega borgað fyrir að bera, en héldu að væri hægt að afskrifa eins og kúlulán frá bankanum til þeirra. Ef enginn ber ábyrgð er ekki hægt að búast við því að ákvarðanir séu teknar af ábyrgð.
Það er gott að vera skilningsríkur og sýna samúð. En þegar maður sýnir einhverjum samúð sem firrir sig algerlega ábyrgð af neikvæðum afleiðingum gjörða sinna heitir það meðvirkni. Hún leysir engin vandamál, heldur viðheldur þeim bara og er vandamál í sjálfri sér.
Við þurfum að finna ábyrgðina aftur til að fyrirbyggja ábyrgðarleysi. Það er ekkert persónulegt, heldur spurning um framtíðarfarsæld þjóðarinnar.
Auðveldasta skrefið áfram er að þeir sem brutu af sér sýni einhverja lágmarksiðrun og uppgötvi auðmýktina. Þið vitið að það eru ekkert allir á móti ykkur. En bankahrunið er að lágmarki eitt mesta klúður Íslandssögunnar og þeir sem slógu Íslandsmet í launagreiðslum fyrir að axla ábyrgðina á því verða að sætta sig við að bera hana upp að einhverju marki, ekki síst þegar þeir eru staðnir að alvarlegum lögbrotum í starfi. Það má fyrirgefa flest mistök og lögbrot, en forsenda fyrirgefningarinnar er einhvers konar iðrun.
Viðtal við Ólaf Þór Hauksson birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.
Athugasemdir