Það voru réttmætar áhyggjur hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra þegar hann varaði við því að fylgi við nýja flokka gæti ógnað íslenskum gildum.
„Ef… Píratar fengju 30-40 prósenta fylgi þá myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið,“ sagði Sigmundur í forsíðuviðtali við DV, sem var frídreift inn á heimili í lok júní.
Þegar stefna Pírata er skoðuð er fljótt ljóst í hverju ógnin við ríkjandi gildi felst. Fyrsta grein fyrsta kaflans í stefnu Pírata er: „Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.“
Sigmundur sjálfur, ásamt forsetanum og fleiri ráðamönnum, hafa lagt sérstaka áherslu á samstöðu og útilokun á „neikvæðni“, til að auka „samtakamátt þjóðarinnar“. Gagnrýnin hugsun og umræða er andstæða hinnar fullkomnu samstöðu. Lesa má um áhrif samstöðunnar á ákvarðanatöku í bókinni Wiser: Getting Beyond Groupthink.
Í næstu grein í stefnu Pírata segir: „Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.“
Þarna má greina augljósa ógn við flokksræði, klíkuræði og leiðtogaræði, sem hafa verið áberandi í gildum íslenskra stjórnmálamanna.
Þá segir: „Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.“ Þetta rímar illa við hugmyndina um hinn óskeikula leiðtoga og að keyra skuli í gegn ákvarðanir ríkjandi flokks eða flokksforystu með valdi í krafti flokkshollustu.
„Þarna má greina augljósa ógn við flokksræði, klíkuræði og leiðtogaræði, sem hafa verið áberandi í gildum íslenskra stjórnmálamanna.“
Auk þess segja Píratar í stefnu sinni: „Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.“
Þetta gengur gegn því leynda og ljósa viðhorfi meðal íslenskrar stjórnmálastéttar um liðin ár að þeir séu kosnir á fjögurra ára fresti og hafi þess á milli óskert umboð til að gera það sem þeir vilja og geta í krafti valds síns, í „vinnufriði“ frá öðrum, svo lengi sem það sé túlkanlegt sem hluti af stefnu þeirra eða málamiðlun.
Í síðasta tölublaði Stundarinnar var tekið saman hvaða einstaklingar færu á þing ef kosið yrði núna, miðað við fylgi í skoðanakönnunum og framboðslista flokkanna í kosningunum fyrir tveimur árum. Greinilegur munur var á hópnum sem félli af þingi og þeim sem kæmust á þing. Í fyrrnefnda hópnum var algengast að einstaklingar hefðu reynslu af stjórnmálum eða úr frumframleiðslugeiranum. Þar voru meðal annars minnst þrír sauðfjárbændur, en algengast var að viðkomandi hefðu reynslu úr sveitarstjórnarmálum eða stjórnmálum á landsvísu. Í síðarnefnda hópnum, sem kæmist nýr inn á Alþingi, var einnig fjölbreytt reynsla, en mest áberandi var að viðkomandi einstaklingar hefðu reynslu úr nýja hagkerfinu fremur en því gamla.
Í stefnu Pírata er ekki að finna margar sértækar lausnir eða grunnafstöðu gagnvart útgjöldum ríkissjóðs eða skattheimtu. Þeir lofa ekki tilteknum greiðslum til almennings, tilteknum framkvæmdum og svo framvegis, heldur lofa þeir ákveðnum vinnubrögðum við ákvarðanatöku. Ólíkt eldri hugmyndum um stjórnmálamann, sem leiðtogann sem blæs þjóð sinni kjark í brjóst og leiðir hana með styrkri hönd, gera Píratar ráð fyrir því að þurfa að afla sér upplýsinga og ígrunda og endurskoða ákvarðanir sínar.
Jafnvel þótt ekki ætti sér stað upplausn góðra gilda við innleiðingu þessarar stefnu við stjórn landsins er ljóst að áhrifin á valddreifingu í þjóðfélaginu gætu orðið töluverð, eins og Sigmundur varar við.
„Ef almenn óánægja yrði til þess að byltingarflokkar og flokkar með mjög óljósar hugmyndir um lýðræði og flokkar sem vilja umbylta grunnstoðum samfélagsins nái áhrifum þá væri það mikið áhyggjuefni fyrir samfélagið allt og yrði stærri breyting en svo að staða einstakra stjórnmálamanna skipti máli. En ég ítreka að ég tel ekki að það muni gerast,“ sagði Sigmundur í viðtalinu. („Bæði andstæðingar og stuðningsmenn þessa frambjóðanda geta rólegir kosið samkvæmt samvizku sinni, því að enginn möguleiki er fyrir því, að hún nái kjöri,“ var sagt um frambjóðandann sem átti eftir að verða fyrsti lýðræðislega kjörni kvenkyns forseti heims.)
Hugmyndir Pírata í lýðræðismálum eru í einföldu máli að auka aðkomu fólks að ákvörðunum sem varðar það og gera því kleift að taka upplýstari ákvarðanir með aðgengi að viðeigandi upplýsingum á aðgengilegu formi.
Þetta er að mestu leyti í samræmi við afstöðu Sigmundar áður en hann sjálfur komst til valda, til dæmis þegar hann vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við Evrópusambandið og studdi gerð nýrrar stjórnarskrár með lýðræðislegu fyrirkomulagi.
Ef íslenskum gildum stafar mikil hætta af áherslunni á gagnrýna hugsun, sjálfsgagnrýni stjórnmálamanna og valddreifingu, er kannski kominn tími til að endurskoða og endurskilgreina hvað felst í íslenskum gildum. Hugsanlega viljum við læra af reynslunni og þróa þau.
Athugasemdir