Þegar Geir Haarde viðurkenndi loksins eftir hrun íslenska efnahagskerfisins að allt væri fallið bað hann Guð að blessa Ísland. Í þessu fólst bæði að hlutirnir hefðu farið á versta veg hjá okkur og að það væri á valdi Guðs hvernig færi fyrir okkur, en ekki á ábyrgð okkar og þeirra sem við kusum til að taka ákvarðanir fyrir okkar hönd (til dæmis Geirs Haarde).
Ein meginniðurstaða Rannsóknarskýrslu Alþingis um orsakir efnahagshrunsins var að íslenskir fjölmiðlar hefðu verið of gagnrýnislausir og birt óeðlilega jákvæðar fréttir um ástand mála hérlendis, meðal annars vegna þess að þeir voru í eigu stærstu hagsmunaaðila samfélagsins.
Frá þessum lærdómi hafa átt sér stað ævintýralegir atburðir sem útskýrast af virkni hagsmuna í samfélaginu.
Morgunblaðið, einn stærsti fjölmiðillinn okkar, var fljótlega yfirtekinn af útgerðarmönnum sem gerðu stærsta einstaka pólitíska og efnahagslega ábyrgðaraðila hrunsins að ritstjóra. Guð blessi Morgunblaðið.
Ríkisútvarpið fór fljótlega eftir valdaskipti að fá opinberar hótanir frá stjórnmálamönnum sem ráða framtíð þess, vegna frétta um þá sjálfa. Og varð síðan fyrir niðurskurði sem óttast er að lami getu þess til gagnrýninnar fréttamennsku. Guð blessi Ríkisútvarpið.
Fyrrverandi upplýsingafulltrúi Baugs og einn helsti gagnrýnandi landsins á rannsóknir á efnahagsglæpum vegna hrunsins hefur verið gerð að aðalritstjóra 365 miðla, sem gefa út Fréttablaðið, Vísi.is, Bylgjuna, X-ið, FM 957, Stöð 2 og fleira. Tveir ritstjórar hættu í kjölfarið og vöruðu við hagsmunatengdum inngripum hennar í fréttaflutning. Guð blessi 365.
Sá fjölmiðlamaður, sem sagt var frá í Rannsóknarskýrslu Alþingis að hefði fengið hæst lán frá fjármálafyrirtækjum, sem sameinaði persónulega hagsmuni hans og þeirra sem hann fjallaði um, er orðinn aðaleigandi DV ásamt aðilum sem stóðu að yfirtöku til að hefna fyrir umfjallanir. Guð blessi DV.
Nú eru upptalin þrjú af stærstu blöðum landsins, fimm langstærstu fréttavefir landsins og stærstu útvarpsstöðvarnar og sjónvarpsstöðvarnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra blæs aftur og aftur til sóknar gegn þeim sem sýna neikvæðni opinberlega og segir þá skaða hagsmuni Íslands með gagnrýni sinni. Hann gaf nýlega til kynna að þjóðin, en ekki stjórnmálamenn, ætti að læra af tilfelli þar sem starfsmaður ráðherra braut lög í starfi og ráðherrann neyddist til að segja af sér eftir að hafa ófrægt fjölmiðla og aðhaldsstofnanir sem sinntu skyldu sinni gagnvart ráðuneyti hennar. Markvisst er innleitt gildismat sem segir að við sem góðir borgarar eigum að trúa blindandi á Ísland og forðast að gagnrýna ráðandi yfirvöld eða hugmyndafræði.
Hagsmunaaðilar vilja stjórna flæði upplýsinga og gildismat okkar hefur áhrif á það sem við fáum að heyra. Við erum lítil og einsleit þjóð og sagan sýnir að við höfum tilhneigingu til að þagga niður upplýsingar sem okkur líkar ekki og jaðarsetja þá sem færa okkur þær. Félagsfræðilegt heiti yfir þetta er hóphugsun, eða „group think“, sem er einn skæðasti orsakavaldur slæmrar ákvarðanatöku sem hópar eða samfélög verða fyrir.
Við getum valið að sameinast í bæn og beðið Guð að blessa okkur aftur. En við getum líka gert eitthvað í þessu á meðan við lifum og barist fyrir málfrelsi og frelsi fjölmiðla undan hagsmunaöflum, þótt við séum ekki alltaf sammála þeim. Við getum blessað okkur sjálf.
Athugasemdir