„Mikilvægt er að búa í haginn fyrir framtíðina,“ sagði starfandi fjármálaráðherra í Kastljósi, sama dag og niðurstöðurnar úr Pisa-könnuninni birtust, þar sem í ljós kom að menntun íslenskra barna hefur aldrei verið verri.
Staðreyndin er sú að jafnvel þótt starfandi fjármálaráðherra undirstriki mikilvægi þess að búa í haginn fyrir framtíðina í sjónvarpsviðtali um fjárlagafrumvarpið virðast Íslendingar hafa tekið ákvörðun um að fjárfesta ekki í því dýrmætasta sem þeir eiga, mannauði og þekkingu, og leggja lægra hlutfall af landsframleiðslu í menntakerfið en aðrar Norðurlandaþjóðir.
Laun grunnskólakennara eru líka langt undir hæstu launum, vel undir OECD-meðaltalinu, lægri en á Spáni en aðeins hærri en í Kóreu. Kennarar eru vanvirtir, ósáttir, undir ómældu álagi og í stöðugri kjarabaráttu með þeim afleiðingum að þeir hætta í hrönnum og hrun hefur orðið á aðsókn í kennaranám. Fyrir vikið hafa íslensk börn aldrei staðið verr gagnvart jafnöldrum sínum, verst allra á Norðurlöndunum, undir OECD-meðaltalinu og á niðurleið.
Áhrif á framtíðina
Niðurstöðurnar úr Pisa-könnuninni eru ekki eina áhyggjuefnið. Aðeins 79% grunnskólanema nær lágmarksviðmiðum í lestri, sem er forsenda alls. Þeir sem ná góðum tökum á lestri eiga ekki aðeins auðveldara með að standast námskröfur heldur eru þeir einnig líklegri til að njóta góðrar heilsu, vera með atvinnu og virkir þátttakendur í samfélaginu.
Í ofanálag ljúka færri framhaldsskólanemar námi á réttum tíma á Íslandi en í flestum öðrum OECD-löndum, eða aðeins um 44% nemenda. Samanburðurinn er óþægilegur. Ein ástæðan er talin vera sú að hópur nemenda fái ófullnægjandi undirbúning fyrir framhaldsskóla í grunnskólanum, en sýnt hefur verið fram á tengsl á milli líðanar barna í efstu bekkjum grunnskóla og námsstöðu við 24 ára aldur.
Um þriðjungur landsmanna á aldrinum 25–65 ára hefur ekki lokið framhaldsskólamenntun, en hátt hlutfall fólks án framhaldsskólamenntunar getur haft alvarlegar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar fyrir samfélagið allt, þar sem líkur á atvinnuleysi margfaldast, félagslegur vandi eykst, sem og áhættuhegðun og heilsuleysi.
Meirihluti þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá árið 2015 höfðu aðeins lokið grunnskólaprófi.
Peningar og allskonar
Í Hvítbók Illuga Gunnarssonar, fráfarandi menntamálaráðherra, er megináhersla lögð á þrjá þætti, að auka læsi, draga úr brottfalli nemenda á framhaldsskólastigi – sem er meðal annars gert með því að skerða aðgengi að skólunum fyrir ákveðnum hópi fólks, og að stytta framhaldsskólann. Ritari Sjálfstæðisflokksins endurómaði þessa stefnu þegar hann talaði til yngstu nemenda grunnskóla á krakkakosningavef RÚV og sagði nauðsynlegt að stytta tímann sem þau eru í skóla því „heimurinn er fullur af fólki og peningum og allskonar“.
„Heimurinn er fullur af fólki og peningum og allskonar.“
Boðskapurinn gengur reyndar þvert gegn þeirra eigin reynslu. Fjölmargir í þingflokknum voru lengur í námi en hefðbundið er. Það á við um formanninn, ritarann og menntamálaráðherrann, sem var sjö ár að skila sér í gegnum grunnnám og lauk framhaldsnámi 33 ára gamall.
Tækifærin takmörkuð
Fyrir utan að meina fólki eldra en 25 ára aðgang að framhaldsskólum og svipta það vali um að ljúka stúdentsprófum þar eða fara í háskólabrú sem kostar mörg hundruð þúsund, óháð því hvort það á eftir nokkrar einingar eða er að byrja frá grunni, hefur Illugi einnig gert breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem hafa verið gagnrýndar fyrir að draga úr félagslegu hlutverki sjóðsins, stuðla að ójöfnuði og koma verst niður á nemendum í viðkvæmri stöðu. Stefnan sem rekin hefur verið í menntamálum hér á síðustu árum er í takt við annað hér á landi, ójöfnuður eykst og viðkvæmir hópar verða verst úti á meðan staða hinna sterku styrkist.
Eins og þeir sem þurfa að taka hærri námslán vegna framfærslu barna, eru tekjulágir að loknu námi eða hefja námsferilinn seint. Skerðing á lánstíma og upphæðum til nemenda erlendis skerðir svigrúm fólks til þess að skipta um nám, bæta við sig og fjármagna doktorsnám.
Með breytingunum allt að þrefaldast vaxtaprósenta námslána, afnám tekjutengingar setur þá lægst launuðu í þá stöðu að þurfa að borga mun meira á ári en áður, þannig að nú greiða kennarar jafn háar afborganir og alþingismenn, sem voru ekki aðeins á mun betri launum fyrir, heldur hafa laun þeirra hækkað um 75% á meðan almenn laun hækkuðu um 29%. Kennarar voru að semja um 11% hækkun á komandi ári eftir langvarandi kjarabaráttu.
Framtíðin – einkavæddur lánasjóður
„Á þetta að vera skref í einkavæðingu menntakerfisins? Að gera námslán svo lág að það borgar sig í rauninni ekki að fá sér ríkisnámslán svo maður fari í einkarekið námslánaviðskipti?“ spurði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingkona Pírata, þegar fjallað var um breytingarnar fyrr á árinu.
Á svipuðum tíma og sjálfstæðismenn beittu sér fyrir umdeildum breytingum á lögum um lánasjóðinn færði fjármálafyrirtækið GAMMA, sem greiddi eigendum sínum 100 milljónir í arð árið 2015, okkur Framtíðina. Einkarekinn lánasjóð fyrir háskólanema.
Tengsl viðskipta og stjórnmála
GAMMA er ekki aðeins á lista yfir fyrirtæki sem hafa styrkt Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár heldur hafa margir starfsmenn fyrirtækisins tengsl við flokkinn. Framkvæmdastjórinn situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og er formaður fjármálaráðs. Þar starfar fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og framámaður í sveitastjórnarpólitíkinni um árabil. Annar var skipaður stjórnarformaður RÚV og formaður fjömiðlanefndar af Illuga, sat í bankaráði Seðlabankans fyrir hönd flokksins og er fyrrverandi formaður og varaformaður ungra sjálfstæðismanna.
„Hver skyldi verða næstur fyrir aftökusveitina?“
„Hver skyldi verða næstur fyrir aftökusveitina?“ spurði enn annar starfsmaður GAMMA, sem kom Illuga til varnar, skömmu áður en hann var skipaður í stjórn RÚV af menntamálaráðherranum, nokkrum árum eftir að hann stýrði banka sem veitti Illuga fyrirgreiðslu til að fyrirbyggja fjárnám um og eftir hrun, þegar umræðan um Orku Energy-málið stóð sem hæst. Mál þar sem Illugi varð uppvís að því að nýta stöðu sína sem ráðherra til þess að hygla þeim sem höfðu komið honum persónulega til aðstoðar í fjárhagserfiðleikunum á erlendum vettvangi, og leyna hagsmunaárekstrinum. Í rannsóknarskýrslu Alþingis er einnig rakið hvernig Illugi stóð vaktina á skrifstofu einkafyrirtækisins Stoða, verandi stjórnarmaður í Sjóði 9 hjá Glitni, klofvega milli stjórnmála og viðskipta, nóttina fyrir þjóðnýtingu Glitnis, og beitti sér svo fyrir fjárframlagi ríkisins í sjóðinn.
Áhersla á einkavæðingu
Sjálfstæðismenn hafa talað fyrir aukinni einkavæðingu í menntakerfinu. Ungir sjálfstæðismenn sendu frá sér ályktun þess efnis: „Frelsa verður mennta- og heilbrigðisstofnanir úr viðjum ríkisrekstrar.“
„Frelsa verður mennta- og heilbrigðisstofnanir úr viðjum ríkisrekstrar“
Illugi hefur talað fyrir því að samfélagið ætti að vera opið fyrir öllum möguleikum á einkavæðingu í menntakerfinu. „Það er rými fyrir meiri fjölbreytni í okkar skólakerfi,“ sagði hann þegar kennarar voru í verkfalli.
Á meðan Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins var einn stærsti framhaldsskóli landsins einkavæddur, Iðnskólinn í Reykjavík, nú Tækniskólinn í eigu atvinnulífs og sjávarútvegs. Seinna kom hún inn í stjórn skólans fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Eftir að hún hætti á þingi hóf hún störf hjá Samtökum atvinnulífsins þar sem hún vann að þróun einkareksturs í menntamálum, með áherslu á styttingu alls skipulags náms um allt að tveimur árum. Hún er nú komin aftur á þing fyrir Viðreisn, eftir að hafa dansað á milli sviða sérhagsmuna og almannahagsmuna.
Það var líka í hennar tíð sem menntamálaráðuneytið afskrifaði 20 milljóna króna skuld menntaskólans Hraðbrautar, þegar samningur ríkisins við skólann var endurnýjaður, á sama tíma og eigandinn greiddi sér 27 milljóna króna arð.
Fjársvelt kerfi
Ein leið til að grafa undan kerfi er að svelta það, láta það éta sig upp að innan, vanrækja það sem skiptir máli þar til óþægindin eru orðin svo mikil að rökin með því að einkavæða það verða sterkari, vegna þess að ríkið standi sig verr í starfseminni, hleypa fjársterkum aðilum inn til þess að hirða leifarnar og græða á því. Oft er þetta hin ósagða stefna hér á landi. Það birtist einna best í heilbrigðiskerfinu, þar sem forstjóri Landspítalans varaði við styrjaldarástandi með nýju fjárlagafrumvarpi og sagði niðurskurðarkröfuna meiri nú en í kreppunni, á sama tíma og skref eru tekin til einkareksturs heilsugæslu.
Fjárfesting í verndun náttúrunnar er í lágmarki, Umhverfisstofnun fær ekki fjármagn til þess að sinna því hlutverki að friðlýsa svæði í verndarflokki, sem þýðir að svæði sem átti að vernda verða aftur undir í hvert sinn sem verkefnastjórn um rammaáætlun er að störfum, með nýjar óskir á borðinu um virkjanakosti.
Þegar stjórnmálamenn komast upp með að setja sérhagsmuni ofar almannahag er allt til sölu. Innmúraður sjálfstæðismaður lýsti stjórnmálamenningunni eitt sinn þannig að þar væru engin prinsipp, engar hugsjónir, ekki neitt nema tækisfærismennska og valdabarátta. Á meðan drifkraftur stjórnmálamanna er fyrst og fremst að viðhalda völdum á fjögurra ára grunni frekar en að gæta hagsmuna kynslóðanna erum við föst í viðjum skyndilausna. Ef kjósendur gera ekki kröfu um langtímahugsun er hægt að selja hugmyndir um einfaldar lausnir og atkvæði út á loforð um bætt lífskjör strax, í stað þess að stjórnmálamenn þurfi að setja sér markmið sem eru á endanum hagkvæmari, skynsamlegri og betri fyrir alla.
Aldrei betra
Þegar Bjarni Benediktsson talaði til framtíðar í Kastljósinu, snerist umræðan um peninga en ekki fólk. Hann hreykti sér af hagvexti, tekjum ríkissjóðs og auknum kaupmætti, því að hann sæi fram á að það væri ekki aðeins hægt að skila hallalausum ríkissjóði heldur að eiga 28 milljarða afgang. Í góðæri er nefnilega mikilvægt að búa í haginn fyrir framtíðina, sagði hann, án þess að minnast á fjársvelt skólakerfi og grunnskóla sem veita börnum lélegri menntun en áður og þjóðinni rýrnandi samkeppnishæfni.
Versnandi vegakerfi, menntakerfi í molum og heilbrigðiskerfi sem er að hruni komið skerðir framtíðarmöguleika okkar, en aðspurður hvort það sé ekki orðið tímabært að treysta innviðina enn frekar sagði hann ekki hægt að gera allt. „Fólk segir: Nei, það þarf að gera svo miklu, miklu meira. Þessu er ég bara ósammála,“ sagði Bjarni og áréttaði mikilvægi þess að kunna sér hóf.
„Fólk segir: Nei, það þarf að gera svo miklu, miklu meira. Þessu er ég bara ósammála“
Hann sem var svo nýbúinn að fá svo ríflega launahækkun að hækkunin ein og sér er hærri en lágmarkslaun í landinu. Laun sem margir ungir, einstæðir og ómenntaðir foreldrar eru á, sami hópur og situr fastur á leigumarkaði, þar sem fjárfestingarfélög eins og GAMMA keyptu upp ódýrt húsnæði í kreppunni á sérkjörum frá Íbúðalánasjóði, og verðið hefur hækkað svo svívirðilega að langir biðlistar hafa myndast eftir félagslegu húsnæði og fólk flýr í ósamþykkt húsnæði, lendir á vergangi eða þarf að láta börnin frá sér vegna húsnæðisvanda, búa í bíl eða tjaldi.
Á meðan laun alþingismanna hækkuðu margfalt á við aðra, fengu öryrkjar ellefu þúsund króna hækkun á ráðstöfunartekjum á mánuði og eru því enn langt undir lágmarkslaunum, og hundruð barna eru alin upp til varanlegrar fátæktar og munu þess vegna aldrei geta nýtt hæfileika sína til fulls, þeim sjálfum og samfélaginu til góða. Við töpum öll á kerfi og skattastefnu sem tryggir að hinir ríku verða ríkari en hinir sitja eftir.
„Við höfum aldrei haft það eins gott,“ sagði Bjarni Benediktsson. Átti hann við sig og sína, eða okkur öll?
Athugasemdir