Svarið við stærstu spurningu heimsins, hvernig það gerðist að vestræn þjóð gerði Donald Trump að forseta, er að hluta að finna á Íslandi.
Bandaríkjamenn hafa verið sakaðir um heimsku eftir að hafa kosið Trump sem forseta, en Íslendingar hafa sjálfir kosið flest það sem Trump er samsettur úr.
Hvítt fólk sem deyr fyrr
Samhengið hafði verið greint áður en það gerðist. Áður en Donald Trump náði að vinna forval Repúblikanaflokksins hafði verið reiknað út að á þeim svæðum sem Trump naut mesta stuðningsins var líf hvíts fólks að styttast. Þetta voru svæði þar sem lífskjör millistéttarinnar höfðu staðið í stað eða versnað, og lífskjörin skertust, lífið endaði fyrr. Síðar víkkaði stuðningurinn við hann út, en grundvöllurinn var sá sami. Fólk upplifði svik, jaðarsetningu, fulltrúaleysi og fjárhagslegt og líkamlegt óheilbrigði.
„Frábær forseti“
Orsökin fyrir kjöri Trumps er uppreisn fólks sem hefur orðið eftir í lífskjörum í landi þar sem stórfelld aukning hefur orðið á framleiðslu en lítil á kaupmætti fólksins. Frá því Ronald Reagan var kjörinn forseti árið 1980 til okkar tíma hefur ríkasta 1 prósentið farið úr því að fá undir tíu prósent innkomunnar í meira en 20 prósent.
Ronald Reagan innleiddi stórfelldar skattalækkanir, sérstaklega fyrir þá auðugustu. Á sama tíma jók hann skuldir ríkisins um 186 prósent.
Mörgum þykir gagnrýnivert að Reagan hafi þannig náð að stórauka misskiptingu og senda reikninginn á framtíðarborgara landsins síns. Við höldum kannski að þetta sé fjarlægt íslenskum stjórnmálum. En Bjarni Benediktsson, formaður stjórnmálaflokksins sem fékk mestan stuðning í íslensku alþingkosningunum, lýsti því yfir glaðhlakkalega á Stöð 2 daginn eftir kjör sitt í lok október að Ronald Reagan hefði verið „frábær forseti“.
Áætlað er að stefna Trumps muni auka skuldir bandaríska ríkisins úr 19 trilljónum dala í 25 trilljónir. Bjarni gagnrýndi ekki sérstaklega Trump, eða aðferðir hans eða gildismat, eftir forsetakjörið, heldur sagði að honum biðu „áskoranir“ að „standa við öll stóru orðin og vinna að því að gera Bandaríkin að því stórveldi sem boðað er“.
Jaðarsetning fólks í dreifbýli er án vafa ein af grundvallarorsökum fyrir stuðningi við Trump, ásamt versnandi hag hvítu millistéttarinnar í dreifbýlinu. Svar fólks er að krefjast lægri skatta, því skattarnir renna í miklum mæli til borganna, ríkishöfuðborganna og Washington. En skattalækkanir hafa verið framkvæmdir þannig, í Bandaríkjunum eins og hér, að draga úr tekjujöfnunaráhrifum og valda misskiptingu sem aftur veldur margvíslegum félagslegum vandamálum og styttir meðal annars líftíma.
Einföldunin
Eitt helsta stefnumál Donalds Trump var að lækka skatta og einfalda skattkerfið. Trump ætlar að lækka fjármagnstekjuskatt, um fjögur til tíu prósentustig, lækka hátekjuskatt um 6,6 prósentustig og snarlækka fyrirtækjaskatt niður í flöt 15% úr 15 til 39%.
Stefna Donalds Trump í skattamálum á sér hliðstæðu í stefnu íslensku hægri flokkanna. Enda eru „skattar ofbeldi“, eins og Pawel Bartoszek, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, orðar það í viðhorfslega afhjúpandi og afbakandi röksemdafærslu.
Einföldun skattkerfisins hefur verið eitt helsta áherslumál Bjarna Benediktssonar sem fjármálaráðherra. Viðreisn hefur einföldun skatta líka á stefnuskránni, og reyndar Björt framtíð líka. „Minna vesen – gerum skattkerfið réttlátara, einfaldara og auðskiljanlegra.“
En skattar eru ekki bara skattar og einfaldir skattar eru ekki betra hagstjórnartæki en flóknir. Skattar móta samfélagið okkar. Þeir geta gert það heilbrigt eða gert það veikt.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að minnka skattlagningu – sérstaklega á þá sem hafa mestar tekjur – og einfalda hana, jafnvel með því að hækka skatta á nauðsynjavörur og æskilegar vörur, en lækka skatta á óæskilegar vörur. Hann lækkaði veiðigjöldin, afnam auðlegðarskattinn en var til í að hækka skatta á mat úr 7 prósent í 11 prósent, til að einfalda. En hann hækkaði ekki verð á öllum mat, því hann lækkaði álögur á þann mat sem er talinn einn af orsakavöldum alvarlegasta heilbrigðisfaraldurs samtímans.
Innleiðing óheilbrigði
Niðurstaðan var sú að hækka verð á grænmeti og öðrum mat, en hrósa sér af því að lækka verðið á kílói af sykri um 210 krónur og færa verð á gosdrykkjum niður um 21 krónu á lítrann. Á sama tíma er verið að innleiða gosdrykkjaskatt í fjölmörgum löndum til að letja frá neyslu á þeim og fjármagna viðbrögð við vandanum sem mikil neysla þeirra skapar, vegna þess að þeir eru einn orsakavaldurinn í alvarlegasta heilbrigðisfaraldri Vesturlanda, sykursýkis-, offitu- og hjartasjúkdómafaraldrinum, sem er talinn hluti af orsökinni fyrir því að ævi stórra hópa er hætt að lengjast og jafnvel farin að styttast. Meðal landa sem hafa ákveðið að innleiða sykur- eða gosdrykkjaskatt eru Noregur, Írland, Bretland og Suður-Afríka og borgirnar Philadelphia, San Fransisco og Chicago ákváðu slíkan skatt eftir að kjósendur samþykktu það með yfirgnæfandi stuðningi í atkvæðagreiðslu. Bjarni Benediktsson ákvað hins vegar að fara öfuga leið og gera hollan mat dýrari en óhollan ódýrari – til einföldunar á skattkerfinu.
Hvers vegna deyja þeir yngri?
Tengslin á milli stuðnings við Trump og skemmri líftíma hvítra karla eru flókin, en þau skertu lífskjör sem birtast í bráðari dauða eiga sér margar orsakir sem eru afleiðingar breytanlegra samfélagsaðstæðna. Fátækara fólk deyr fyrr en ríkara og mikið menntaðir deyja seinna en lítið menntaðir. Hluti af ástæðunni fyrir skertum líftíma er offitufaraldurinn, sem orsakast einna helst af neyslu sykraðra unninna matvæla, en líka skorti á hreyfingu, meðal annars vegna borgarskipulags með áherslu á bíla umfram fólk; sömu stefnu og Sjálfstæðisflokkurinn stóð og stendur fyrir í Reykjavík.
Bandaríkjamenn deyja á undan öðrum vestrænum þjóðum af þremur helstu ástæðum, samkvæmt nýlegri rannsókn: Byssuglæpir, umferðarslys og lyfjadauði útskýra 48 prósent af muninum á ævilengd Bandaríkjamanna og annarra í auðugum ríkjum. Donald Trump ætlar að rýmka reglur um vopnaburð og val á tegundum vopna, hann vill að það verði löglegt að bera skotvopn á sér í öllum 50 ríkjunum og hætta að takmarka vopnaeign: „Byssu og skotfærabann – ríkið hefur ekkert að gera með að stjórna því hvers konar skotvopn gott, heiðarlegt fólk má eiga … Lögreglan vinnur gríðarlegt starf, en hún getur ekki verið alltaf alls staðar.“
Þannig mynda orsakir sjúkdómsins og lyfið við honum vítahring. Fleira ungt fólk er nú að deyja í Bandaríkjunum vegna lyfjaneyslu en áður. Fólk er að deyfa sig. Ekki bara í eigin lífi, heldur stjórnmálum. Fólk leitar að fixi og fixer.
Við höfum líka gert það.
Aðferðin
Íslendingar virðast hafa kosið stefnu í skattamálum sem svipar til áherslu Trumps. En fleiri þættir í stjórnmálum Trumps eiga sér hliðstæðu hér. Árið 2013 gerðum við okkar eigin uppreisn og kusum Framsóknarflokkinn til valda. Hliðstæðan við Trump er margþætt.
Trump náði eyrum kjósenda með loforði um „massífa skattalækkun“, sem hagnast reyndar mest þeim tekju- og eignamestu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson náði óvænt 24,4% fylgi 2013 og forsætisráðherrastólnum með því að lofa að færa 300 milljarða króna í hendurnar á kjósendum, sem endaði í um 80 milljörðum sem runnu ekki síst til þeirra eignamestu.
Trump og Sigmundur Davíð eru báðir milljarðamæringar, hluti af ríkasta 1 prósentinu. Trump hlaut grunn auðæfa sinna frá föður sínum, en Sigmundur hlaut auðæfi sín að mestu leyti í gegnum fyrirframgreiddan arf sem hann og eiginkona hans knúðu í gegn frá foreldrum hennar, en faðir Sigmundar varð einnig vel auðugur af viðskiptum sínum með félag sem hann tengdist gegnum stjórnmál.
Trump og Sigmundur lögðu báðir áherslu á hræðsluáróður gegn útlöndum. Sigmundur varaði við snýkjudýrinu toxoplasma í erlendum matvælum, sem „breytti hegðun heilu þjóðanna“ og sagðist ekki taka mark á „erlendum skammstöfunum“ þegar alþjóðastofnun gagnrýndi ástand hér. Flokkurinn hans komst síðan til áhrifa í borgarstjórnarkosningum með því að leggjast gegn trúarhópnum múslimum.
Trump varaði við múslimum, vildi banna þeim að koma til Bandaríkjanna, bað þá um að fylgjast hver með öðrum, og ætlaði að byggja múr við Mexíkó og flytja tvær til þrjár milljónir ólöglega innflytjendur á sakaskrá úr landi, jafnvel þótt aðeins rúmlega 160 þúsund þeirra teljist á sakarskrá. Trump lagðist gegn erlendu samstarfi, sagðist ekki ætla að standa við skyldur sínar gagnvart Nató-ríkjum og ætlaði að hætta samstarfi gegn loftslagsbreytingum.
Trump ýkti stórkostlega misgjörðir pólitískra andstæðinga og gerði lítið úr persónu þeirra, Sigmundur sagði vinstri stjórnina hafa valdið meira tjóni „en af efnahagshruninu sjálfu“ og talaði um að gagnrýnendur sínir væru „hagsmunaverðir svartnættisins“ og kæmu úr „innstu myrkviðum netsins“ og væru „netbúar“.
Trump talaði um lygar fjölmiðlanna, Sigmundur talaði um „loftárásir“ og samsæri RÚV gegn sér.
Trump varaði við því að það væri samsæri ef hann myndi tapa, Sigmundur lýsti því sem svikum og samsæri þegar hann tapaði formannskjöri.
Sigmundur er hættur sem leiðtogi Íslendinga en við erum hér enn. Við höfum sýnt að við erum fær um að kjósa okkar útgáfur af aðferðum og stefnu Trumps. Með ótta og í leit að einfölduðum lausnum er hægt að skapa það vandamál sem ætlunin er að leysa.
Árétting: Upphaflega var vísað til þess að líf hvítra karlmanna hefði styst á þeim svæðum sem Donald Trump naut vinsælda, en hið réttara er að skerðing ævilengdar er ókynbundin og á við um bæði kyn.
Athugasemdir