Það er kaldhæðnislegt að vinsælasta forsetaframbjóðandanum á Íslandi sé fundið það helst til foráttu að hafa notað orðalagið „fávís lýðurinn“ í fyrirlestri sínum í háskóla, á sama tíma og heimsfriðnum stafar ógn af stuðningi bandarísks almennings við forsetaframbjóðandann Donald Trump, sem kallaður hefur verið hættulegasti maður í heimi.
Þegar allt kemur til alls eru forsetaframboð Donalds Trump í Bandaríkjunum og Davíðs Oddssonar á Íslandi ákveðnar hliðstæður.
Óttinn
Bæði Trump og Davíð gera út á þörf þjóða sinna á sterkum leiðtoga, það sem kallað er foringjaræði. Báðir leggja sérstaka áherslu á að þjóðum þeirra stafi ógn af öðrum íbúum heimsins, og að þeir séu mennirnir sem fólkið þurfi sér til verndar. Þegar Davíð kynnti framboð sitt lagði hann áherslu á að þjóðin þyrfti forseta sem gæti „brugðist við“ í „hinum válynda heimi, nær og fjær“. Báðir leggja áherslu á þjóðernishyggju. Trump vill endurheimta mikilfengleika Bandaríkjanna – „make America great again“ – ekki síst með því að auðsýna valdbeitingu.
Davíð leggur áherslu á ógnir umheimsins og hefur náð að láta kosningabaráttuna á Íslandi snúast um deilur Íslendinga við aðrar þjóðir, þorskastríðin fyrir 40 árum og Icesave-deiluna. Hann gerir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing að sökudólgi í Icesave-málinu, þegar hann sjálfur sýndi athafnaleysi og alvarlega vanrækslu í aðdraganda Icesave-málsins, meðan hann stóð vaktina.
Trump og Davíð leggja báðir áherslu á ótta gagnvart restinni af heiminum, átakaleiðir og ákveðna aflokun.
Donald Trump vill „altæka og fullkomna lokun landamæranna“ fyrir öllum múslimum. Og sér „ekkert að því“. Davíð hefur gengið skemur en leggur áherslu á að leyfa ekki „þöggunarmönnum að banna umræðu“ um hættuna af múslimum og varar við uppgangi þeirra.
Davíð vill horfa inn á við: „Það er voða margt gott fólk erlendis, en núna eiga menn að horfa heim,“ útskýrði hann og vísaði þar til þeirra 7,4 milljarða manna sem ekki eru Íslendingar. Hann ætlar að ferðast minna, tala minna við útlendinga og opna Bessastaði fyrir þjóðinni, þar sem hann mun taka á móti henni sem þjóðhöfðingi hennar.
Heimskan
Heimska og ótti við ytri heiminn fara saman í íslenskri merkingu orðsins – sá sem ferðast ekki, kynnist ekki heiminum, lokar sig af.
Lítið menntaðir eru líklegri til að styðja Trump en aðrir. Með stuðningi við Trump er fólk að kalla yfir sig ógnir vegna ótta síns við mögulegar ógnir.
Spurður hvort hann myndi hefja stríð við Kína, ef hann yrði kjörinn forseti, sagði hann: „Hver veit?“ Gróðurhúsaáhrifin voru að hans sögn fundin upp af Kínverjum til að lama bandarískt atvinnulíf. Hann trúir ekki á þau.
Það sem helst einkennir stuðningshóp Davíðs er lítil menntun og stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn. Davíð er með áberandi minni stuðning meðal háskólamenntaðra en annarra. Alls 12,7% háskólamenntaðra myndu kjósa hann, samkvæmt könnun Maskínu, en 23% þeirra sem hafa grunnskólapróf. Það segir ekkert um einstakling sem hefur grunnskólapróf eða einstakling með háskólapróf, heldur að það virðist í heild vera neikvæð fylgni milli aukinnar menntunar og stuðnings við Davíð Oddsson.
Á sama tíma leggur fyrrverandi aðstoðarmaður og samflokksmaður Davíðs, Illugi Gunnarsson, fram frumvarp um breytingar á námslánum sem háskólarektor og formaður Bandalags háskólamenntaðra (BHM) segja að skerði jafnrétti fólks til náms og leiðir til þess að doktorsnám verður ekki lánshæft.
Fyrir nokkru tilkynnti Lánasjóður íslenskra námsmanna breytingar sem fela í sér að margir Íslendingar verði að hætta við að læra erlendis. „Hætta er á að fjöldi námsmanna erlendis hrökklist frá námi vegna hennar. Slíkt yrði til mikils skaða fyrir íslenskt samfélag enda hefur sú fjölbreytta þekking sem námsmenn hafa í áranna rás aflað sér utan landsteinanna skilað því miklum ávinningi.“
Samstaðan um hagsmuni gegn þekkingu
Í Bandaríkjunum er formaður vísindaráðs þingsins frægur fyrir að afneita loftslagsbreytingum og þróunarkenningunni. Hann afneitar bæði vísindalega viðurkenndum kenningum um uppruna mannkyns og einni helstu ógn þess. Á sama tíma eru vísindamenn ofsóttir með lögsóknum fyrir niðurstöður rannsókna sinna sem henta ekki hagsmunaöflum.
Á Íslandi var sérfræðingur í hafrétti hvattur til að endurskoða niðurstöður sínar af forstöðumanni Hafréttarstofnunar Íslands. „Þú hlýtur hins vegar að gera þér grein fyrir því að íslensk stjórnvöld og stofnanir á þeirra vegum eru ekki líkleg til að vilja bjóða þér til þátttöku í ráðstefnum um hafréttarmál, t.d. á vettvangi S.þ. í New York eins og gert hafði verið ráð fyrir, ef þú vinnur gegn mikilvægum íslenskum hagsmunum á þessu sviði,“ voru skilaboðin.
Því þjóðin á að standa saman og ekki á að tala hana niður.
Bandarískur vísindamaður sem heimsótti Ísland á dögunum varaði við áhrifum ákvarðana almennings: „Ég tel mig ekki vera að ýkja þegar ég segi að örlög plánetunnar gætu oltið á niðurstöðum forsetakosninganna í haust.“
Áróðurinn
Báðir hafa Trump og Davíð grafið markvisst undan persónum andstæðinga sinna í kappræðum og viðtölum, hvor með sínum hætti, en báðir með einfaldri áherslu á mannkosti frekar en málefni.
Trump sagði um mótframbjóðanda sinn að hann „svitnaði mikið“ sem væri vandræðalegt þegar semja ætti við „sterka leiðtoga eins og Vladimir Putin“. Hann sakaði annan um að vera með litla orku, slengdi því fram að sá þriðji gæti ekki orðið forseti vegna þess að hann fæddist erlendis og spurði síðan hvernig Hillary Clinton ætti að fullnægja þörfum Ameríku ef hún gæti ekki fullnægt eiginmanni sínum.
Davíð hefur einbeitt sér að því að grafa undan helsta keppinaut sínum með því að klína á hann samfylkingarstimpli, og væna hann endurtekið um að „hlaupast undan“ orðum sínum, og sýna þannig bæði ragmennsku og óheilindi. Icesave-málið, sem orsakaðist meðal annars af athafnaleysi og vanrækslu Davíðs þegar hann var seðlabankastjóri, er að mati Davíðs einkennandi um hvers vegna mótframbjóðandi hans eigi ekki að verða forseti, heldur hann. Því hann standi vaktina svo vel.
Munurinn á Trump og Davíð er einna helst að Trump er margfaldur milljarðamæringur, en Davíð er höfuð helsta valdaflokks á Íslandi, holdgervingur valdasamþjöppunar og var líklega sá einstaklingur á Íslandi sem bar mesta ábyrgð á bankahruni á heimsmælikvarða sem varð hér þegar hann stóð vaktina í Seðlabankanum eftir að hafa verið helsti mótandi leikreglna samfélagsins í meira en áratugabreytingarskeið í átt að nýfrjálshyggju.
Með stuðningi við Davíð leggur fólk blessun sína yfir það sem hefur helst ógnað hagsmunum almennings á Íslandi undanfarin ár. Foringjaræðið, sem leyfði meðal annars tveimur mönnum að ákveða að við styddum styrjöld, flokksræðið, sem setti helstu stofnanir samfélagsins í hendurnar á þröngri klíku, og svo hóphugsunar sem einkenndist meðal annars af því að þeir sem gagnrýndu ríkjandi strauma og ástand voru jaðarsettir fyrir það eitt að gagnrýna. Þetta lýsti sér gjarnan í því að þeir sem settu fram gagnrýni voru sakaðir um að „tala niður“ efnahagslífið. Rétt eins og Davíð hefur sakað mótframbjóðanda sinn um að „tala niður“ þjóðina. „Menn verða að hætta að tala þjóðina niður, eins og sumir fræðimenn í háskólanum eru að gera. Það gengur ekki,“ sagði hann, vegna þess að Guðni hafði bent á að ákveðin goðsögn um mikilfengleika og afrek þjóðarinnar stæðust ekki sagnfræðilega skoðun.
Hvort samfélagið viljum við?
Í forsetakosningunum holdgervast grundvallarátök gilda. Tvö samfélög framtíðar takast á. Annars vegar samfélagið þar sem gagnrýnin umræða er látin lönd og leið fyrir samstöðu og þjóðernishyggju. Hins vegar samfélagið þar sem frjálsri umræðu er fagnað og ekki refsað fyrir hana, þótt hún henti ekki endilega hagsmunum ráðandi afla. Fjölræðislegt samfélag eða foringjamiðað. Valddreift samfélag eða valdasamþjöppun. Ótti eða óttaleysi. Heimska eða þekking.
Donald Trump og Davíð Oddsson nærast á ótta og heimsku og framleiða ógnir.
Athugasemdir