Lífsgleði getur verið bæði orsök og afleiðing hamingju, sem er æðsta takmark flestra. Íslendingar mælast með einna mestu lífsánægju allra þjóða í heiminum. Samt kemur reglulega upp veruleg óánægja með hvað við séum neikvæð. Sú óánægja er ekki tilviljun, heldur hluti af hagsmunabaráttu hóps sem reynir að nota jákvæða sálfræði til að draga úr aðhaldshlutverki almennings.
„Við vorum einu sinni stolt …“
Athafnakonan Katrín í Lýsi sagði í viðtali við Viðskiptablaðið fyrr í júní að Íslendingar væru í „andlegri kreppu“ vegna gagnrýni fólks á atvinnulífið. „Við vorum einu sinni öll stolt yfir því að vera Íslendingar og við vorum öll stolt yfir okkar atvinnulífi, okkar fyrirtækjum og afreksfólki … Kreppan er búin og komið góðæri en eftir situr andlega kreppan.“
En getur verið að við höfum ástæðu til að vera ekki alstolt af atvinnulífinu og öllu fólki af okkar þjóðerni?
Katrín gaf sjálf ástæðu til að rýra atvinnu- og þjóðarstolt þegar fyrirtækið hennar, Hnotskurn ehf., sem átti Lýsi hf., fékk afskrifaðar tæplega 3 milljarða króna skuldir. Hún hafði þá selt vinkonu sinni Lýsi út úr félaginu daginn eftir að neyðarlögin voru sett á, en keypti það síðan aftur síðar af henni á góðum díl.
Þetta einkahlutafélag Katrínar hafði fengið lán í Glitni til að kaupa í FL Group, en hún var einmitt stjórnarmaður í Glitni þegar hún fékk lánið, sem hún borgaði síðan ekki, og forðaði síðan Lýsi undan.
Ættum við kannski að gleypa þetta lýsi, þótt það bragðist undarlega?
„Sálræn vandamál“ okkar
Vinkona Katrínar í Lýsi, sem keypti af henni Lýsi og seldi henni það aftur, útgerðarkonan Guðbjörg Matthíasdóttir, er aðaleigandi Morgunblaðsins.
Einn forsetaframbjóðandinn, sem var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins af Guðbjörgu,er líka á því að við séum að glíma við andlega misbresti. Hann orðaði það þannig að sál þjóðarinnar hafi farið úr skorðum. „Það eru sálræn vandamál,“ sagði Davíð Oddsson. Þau lýsa sér í því að „heilmargir menn [séu] í því að tala okkur niður“. Dæmi sem hann nefndi var fræðileg gagnrýni Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings og forsetaframbjóðanda, á oftúlkun á samstöðu þjóðarinnar í þorskastríðunum í þjóðernispopúlískum tilgangi. Hið algera þjóðarstolt og hin algera samstaða er nefnilega ýkt goðsögn, sem betur fer, því slíkt ástand á sér fyrst og fremst stað í samfélögum sem eru ekki lýðræðislega heilbrigð og skortir getu til sjálfsgagnrýni, eru til dæmis haldin hóphugsun.
Ekki efast, gleypum þetta lýsi þótt það sé skrítið á bragðið.
„Reið yfir öllu mögulegu“
Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson steig svo fram með aðra gagnrýni á neikvæðni þjóðarinnar í grein sinni „Hálftóm glös“. Logi kallaði eftir meiri jákvæðni.
„En af hverju verðum við svona reið yfir öllu mögulegu?“ sagði Logi og benti á nokkur dæmi máli sínu til stuðnings: „Bara síðustu daga hef ég séð fólk taka kast yfir því að Morgunblaðið komi inn um lúguna hjá því (óumbeðið), hljóðunum í töskum hjá ferðamönnum, of mörgum forsetaframbjóðendum … Það er hægt að mæta þessu öðruvísi. Maður fær Moggann ókeypis. Ferðamenn hafa gjörbreytt efnahagnum og fyllt landið af skemmtilegu fólki. Það er frábært að allir geti boðið sig fram …“ skrifaði Logi.
Dæmin sem Logi tiltekur snúa flest að raunverulegum málefnum sem skipta miklu máli. Fólk er til dæmis ekki reitt yfir því að fá gefins blað, heldur ósátt við frídreifingar á blaði Davíðs og vinkonu Katrínar í Lýsi, þar sem keppinautur Davíðs í forsetaframboði er endurtekið ataður auri í þeirra boði á meðan ritstjórinn freistar þess að verða forseti í sumarfríinu sínu. Því Morgunblaðið er vanhæft til að fjalla um ritstjórann sinn og keppinauta hans.
Raunveruleikinn
Ólíkt því sem Logi gefur til kynna eru 95% íbúa Reykjavíkur jákvæðir gagnvart ferðamönnum, samkvæmt könnun sem var birt í síðasta mánuði. En það eru margar ástæður til að hafa áhyggjur, því við erum ekki að gera þetta nógu vel. Ferðamenn hjálpa efnahagslífinu, en hins vegar erum við ekki búin að bregðast nægilega vel við gríðarlega hraðri fjölgun þeirra. Þeim fjölgaði um 35% á milli ára fyrstu fjóra mánuði ársins. Áætlað var í fyrra að velta vegna ferðamanna hefði aukist um tæpa 80 milljarða króna á sex árum. Á móti höfum við lagt 1,5 milljarða króna í uppbyggingu á ferðamannastöðum. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir því að þeir þurfi að fara á klósettið á ferðum sínum. Flestir telja hins vegar að sveitarfélögin fái of lítinn hluta af tekjunum, en of mikinn hluta kostnaðarins. Sveitarfélögin fá fyrst og fremst fasteignagjöld og útsvar af tekjum starfsmanna í ferðaþjónustu, en sitja uppi með mikinn kostnað ef ekki á illa að fara. Hluti af góðri afkomu ríkissjóðs, sem ríkisstjórnarflokkarnir eigna sér, kemur til vegna vanrækslu á uppbyggingu og fjárfestingu í tengslum við örast vaxandi tekjulið þjóðarbúsins.
Fólk er lítið á móti fjölda forsetaframbjóðenda, heldur aðferðum sumra þeirra, til dæmis þess sem afneitar staðreyndum, varpar frá sér ábyrgð yfir á aðra sem báru hana ekki, klínir stimpli á aðra og upphefur sjálfan sig í hrópandi mótsögn við sögulegar staðreyndir.
Veruleikafirrt þjóð
Fyrrverandi samstarfsmaður Loga og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tók í svipaðan streng og Davíð og Katrín, þegar hann lýsti því að þjóðin væri veruleikafirrt fyrir ári síðan. Þá var þjóðin að vísu firrt veruleikanum að því leyti að hún hafði ekki aðgengi að upplýsingum um skattaskjólsfélag hans og eiginkonu hans, sem átti kröfur á föllnu bankanna, sem hann mótaði stefnu ríkisins gagnvart.
„Bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi,“ sagði Sigmundur, sem sjálfur var afar neikvæður yfir gagnrýni. „Að einhverju leyti skýrist þetta kannski á þessu rofi milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar.“
Skilaboðin sem er verið að reyna að koma á framfæri hljóma sakleysislega og velviljuð, en þau eru oft hluti af tilraun til að breyta gildismati á hátt sem hentar þeim sem eiga peningana og halda utan um völdin.
Erum við virkilega veik?
Skilaboðin eru tvíþætt:
1. Í fyrsta lagi að hlutirnir komi okkur ekki við, því aðrir sjái um þetta. Við eigum bara að fara í búðina.
2. Í öðru lagi að það sé eitthvað að þeim sem eru ósáttir við eitthvert tiltekið fyrirkomulag, þróun eða ástand. Þeir séu veikir, sjálfum sér og öðrum skaðlegir, dragi úr okkur samtakamátt, tali okkur niður, líði illa andlega.
Viðvarandi kvíði eða neikvætt sjálfstal er fólki skaðlegt, en við ættum ekki að gleypa við hverju sem er. Það skaðar lýðræðið, mannauðinn og okkur sem heild að við firrum okkur gagnrýni og ábyrgð á ríkjandi ástandi. Ef almenningur vinnur ekki að heildarhagsmunum með öflugri þjóðfélagsumræðu verða sérhagsmunir öflugustu þrýstihópanna ofan á, til dæmis þeirra sem fara með auðlindir okkar og stjórnmálavaldið.
Lýðræðið er ekki fótboltaleikur. Við þurfum ekki öll að standa saman og hugsa það sama. Og Davíð Oddsson er ekki kúl inni á teignum að negla honum inn fyrir okkur hin. Hann er að sparka upp torfið, toga í peysur og senda dómaranum og stúkunni fingurinn.
Þau sem eru að stinga skeiðinni upp í okkur eru einmitt þau sem við ættum helst að veita aðhald og hjálpa með þeirra eigin hegðun svo þau valdi ekki skaða í kringum sig. Við getum vel verið hamingjusöm þótt við öxlum ábyrgð okkar sem faglegir borgarar í lýðræðisríki.
Athugasemdir