Rannsóknarlögreglumaður fyrrverandi Jón Óttar Ólafsson sat fundi með namibískum mútuþegum Samherja og fékk afrit af tölvupóstum þar sem rætt var um greiðslur í skattaskjól. Forsvarsmenn Samherja segja hann hafa farið til Namibíu árið 2016 til að taka starfsemina í gegn. Hann var þvert á móti í innsta hring Namibíuveiðanna og starfaði með Jóhannesi Stefánssyni, sem síðar gerðist uppljóstrari, að verkefnum þar sem kvóti hafði fengist frá namibískum yfirvöldum með mútugreiðslum.
Í yfirlýsingu áður en umfjöllun Stundarinnar, RÚV, Wikileaks og Al Jazeera fór í loftið héldu forsvarsmenn Samherja því fram að fyrirtækið hefði farið eftir öllum lögum og reglum í Namibíu. Var í því samhengi sérstaklega nefnt að Jón Óttar, sem áður starfaði hjá sérstökum saksóknara sem rannsóknarlögreglumaður, hefði rannsakað starfsemina á vettvangi.
„Það sem við teljum rétt að koma á framfæri á þessum tímapunkti er að þegar við urðum þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu sendum við fyrrverandi rannsóknarlögreglumann hjá sérstökum saksóknara til Namibíu,“ sagði í yfirlýsingunni og er þar átt við Jón Óttar og Jóhannes. „Eftir nokkurra mánaða vinnu hans var niðurstaðan að segja umræddum starfsmanni upp störfum án tafar vegna óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar. Mikill tími hefur farið í að ná tökum á rekstrinum en starfsmaðurinn fyrrverandi hefur samhliða, beint og ásamt samstarfsmönnum sínum, krafist hárra fjárhæða frá Samherja.“
Samherjaskjölin, sem Stundin hefur undir höndum, sýna hins vegar glöggt að Jón Óttar var hátt settur starfsmaður við Namibíuútgerð Samherja. Í maí árið 2016 snæddi hann til dæmis með Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, um borð í togara Samherja, Heinaste.
Jón Óttar sat meðal annars fund um starfsemina með Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, Baldvini syni hans, Aðalsteini Helgasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Kötlu Seafood, Örnu Bryndísi Baldvins McClure, yfirlögfræðingi Samherja, og Jóhannesi. Fundurinn var haldinn 11. apríl 2016 og hann sóttu einnig namibísku þremenningarnir James og Tamson Hatukulipi og Sacky Shangala, sem allir hafa þegið mútur frá fyrirtækinu til að greiða aðgang að fiskveiðikvóta. Samkvæmt fundargerð var rætt um starfsemina í Namibíu, yfirvofandi leiðtogakjör í SWAPO flokknum í Namibíu sem þeir eru allir meðlimir í og væntanlegar þingkosningar í lok árs 2019. Einnig var talað um verkefni í Angóla og Suður-Afríku.
Þremenningarnir komu til Íslands á árshátíð Samherja sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri tveimur dögum áður, þann 9. apríl, og greiddi Samherji fyrir þá flug og hótel í tengslum við komuna á árshátíðina.
Í skjali til undirbúnings fyrir fundinn með þremenningunum er fjallað um sýn þeirra á framtíð mála í Namibíu, en ekki skráð hvaða Íslendingar fengu það í sínar hendur.
„Þeir hafa lagt mikið í að koma okkur þangað sem við erum (breytt lögum og farið með það í gegnum þingið),“ segir í skjalinu. „Þetta er að sjálfsögðu pólitískt. Það er margt búið að gerast á bakvið tjöldin. Við erum í dag með 3ja stærsta kvótann ekki af ástæðulausu [sic].“
„Það er margt búið að gerast á bakvið tjöldin. Við erum í dag með 3ja stærsta kvótann ekki af ástæðulausu“
Þá er lýst pólitísku mikilvægi mannanna, en James er stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fishcor og Sacky var á þessum tíma ríkissaksóknari, en síðar dómsmálaráðherra Namibíu. „Þeir vilja vinna með okkur en tíminn er á þrotum,“ segir ennfremur. „Ef þeir fara óánægðir frá Íslandi þá er samstarfinu lokið og þá er betra að segja það strax.“
Eftir að Jóhannes hætti hjá fyrirtækinu í júlí 2016 héldu mútugreiðslurnar áfram. Síðustu millifærslurnar sem heimildir eru fyrir eru frá því í byrjun þessa árs, frá 9. og 31. janúar 2019 en þá var Jóhannes búinn að setja sig í samband við Wikileaks út af Namibíumálinu með það fyrir augum að upplýsa um millifærslurnar.
Vann náið með uppljóstraranum
Í fundargerð frá 28. júní 2016 kemur fram að Jón Óttar hafi aðstoðað Jóhannes Stefánsson uppljóstrara við ákveðna þætti sem varðar Angólaverkefnið svokallaða. Verkefnið snérist um misnotkun á milliríkjasamningum á milli tveggja Afríkulanda, Namibíu og Angóla, til að tryggja félagi í eigu Samherja kvóta í Namibíu sem ekki var talið verjandi að yrði gefinn út einhliða í Namibíu. Þá kemur einnig fram að hann hafi hjálpað við Fishcor verkefnið, sem snéri að kvóta sem Samherji fékk frá ríkisfyrirtækinu Fishcor, sem James Hatuikulipi, einn af namibískum mútuþegum Samherja, var stjórnarformaður hjá.
Í fundargerðinni segir einnig að Jón Óttar sé „byrjaður að bakka upp“ Jóhannes í vinnu við lobbíisma. Þar eru nefndar leiðir til hagsmunagæslu, meðal annars að halda sambandi við þá sem skipta máli, bjóða ráðherranum um borð í skip Samherja og til Íslands. Loks unnu Jóhannes og Jón Óttar hlið við hlið að fyrirhugaðri útgerð Samherja í Suður-Afríku sem ekkert varð að lokum úr, en hafði verið rædd með Þorsteini Má og þremenningunum eftir árshátíðina.
Í tölvupóstsamskiptum má einnig sjá að Jón Óttar fékk afrit af póstum þar sem fjallað var um greiðslur sem renna áttu í skattaskjólið Máritíus. Einn póstanna sendir Ingvar Júlíusson, framkvæmdastjóri Esju Shipping á Kýpur, til Jóhannesar og Jóns Óttars og fjallar hann um greiðslu upp á 41 milljón króna til félags Samherja, Mermaria Investments á Máritíus.
Samherji tók hluta af hagnaðinum af fiskveiðum sínum í Namibíu út úr landinu í gegnum lágskattasvæðið Kýpur og skattaskjól eins og Marshall-eyjar og Máritíus til að koma sér undan því að greiða lögbundna skatta og gjöld til namibísks samfélags. Mermaria Investments gerði samning við útgerð Samherja í Namibíu, Arcticnam Fishing, árið 2014 um að fá greiddar 5 prósent af tekjum fyrirtækisins sem sérleyfisgjöld (e. royalty). Samtals námu greiðslurnar til félagsins um 640 milljónum króna á þremur árum.
Jón Óttar Ólafsson starfaði áður hjá embætti sérstaks saksóknara, en var rekinn þaðan árið 2012 fyrir meint brot á þagnarskyldu. Var hann kærður í málinu, en ríkissaksóknari taldi það ekki nægjanlegt til sakfellis og lét það falla niður árið 2013. Hann hefur einnig skrifað tvær glæpaskáldsögur sem heita Hlustað og Ókyrrð.
Athugasemdir