Það sem er mér efst í huga þessa dagana er jólabókaflóðið. Ég er sjálf að gefa út tvær bækur; ljóðabók sem heitir Mislæg gatnamót og barnabók sem heitir Randalín, Mundi og leyndarmálið. Þær komu báðar út núna í vikunni [í síðustu viku].
Svo er það jólabókaflóð hinna líka, ég var að klára bók í nótt sem heitir Svínshöfuð, eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, og ég tendraðist svo upp, þetta er svo áhugaverð bók að ég hef eiginlega ekki getað hugsað um annað síðan ég lauk við hana áður en ég fór að sofa í gærkvöldi.
En á þessari stundu, fyrir utan þetta, ég var að hjóla heiman frá mér í Norðurmýri og hérna niður í bæ á leiðinni í vinnuna mína, sem er á Túngötunni, og sumum finnst kannski kalt en þegar maður er kominn út og klæðir sig vel þá er aldrei eins kalt og maður heldur.
Það er ekkert mál að hjóla í kulda og það er leiðinlegt að Laugavegurinn sé ekki orðinn göngugata. Þar hjóla ég niður og bæði er ég með bíla á eftir mér og svo mæti ég bílum á öðrum stað. Það á að fara að breyta þessu en mér finnst að það eigi bara að drífa í því, bara núna, loka Laugaveginum.
Athugasemdir