Félag sem tengst hefur jarðakaupum breska auðkýfingsins James Ratcliffe á Norðausturlandi hefur aukið hlut sinn í veiðiréttindum Laxár í Aðaldal. Talsmaður Ratcliffe hafnar því að hann sé að reyna að eignast réttindi í ánni sem er ein þekktasta laxveiðiá landsins.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Félagið Aðaldalur ehf. er í eigu félagsins Dylan Holdings SA í Lúxemborg, en eignarhald þess er ekki þekkt. Talið er að Jóhannes Kristinsson, áður kenndur við Fons og Iceland Express, sé meðal eigenda, en hann situr í stjórnum margra dótturfélaga þess. Félagið átti fyrir hluti í þremur jörðum með veiðiréttindi í Laxá í Aðaldal, en keypti í september hluta jarðarinnar Austurhaga.
Félög í eigu Dylan Holdings hafa áður verið seld Ratcliffe ásamt jörðum og samstarf hefur verið þeirra á milli, meðal annars í gegnum Veiðiklúbbinn Streng. Framkvæmdastjóri hans og talsmaður Ratcliffe á Íslandi, Gísli Ásgeirsson, segir Ratcliffe hins vegar ekki eiganda Dylan Holdings og að hann seilist ekki til áhrifa í Laxá í Aðaldal. Hann hyggist einbeita sér að þeim svæðum sem hann hefur þegar fjárfest í.
Fasteignir og jarðir sem Ratcliffe, Jóhannes og viðskiptafélagar þeirra hafa keypt á Austurlandi liggja margar hverjar að gjöfulum laxveiðiám og hefur mikið verið lagt í framkvæmdir, til að mynda byggingu laxastiga til að efna laxastofna. Samanlögð stærð landsins sem þeir eiga hlut í er ríflega 1000 ferkílómetrar, eða 1% alls landsvæðis Íslands.
Athugasemdir