Bára Halldórsdóttir, sem steig fram á síðasta ári eftir að hafa tekið upp samtal þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á barnum Klaustri, stendur fyrir söfnun vegna lögfræðikostnaðar sem skapaðist vegna málsókna þingmanna Miðflokksins gegn henni.
Lögmannsstofan Réttur hefur haldið úti vörnum fyrir Báru, en eftir stendur kostnaður upp á 300 þúsund krónur, eða 10% raunvirðis. Bára, sem er öryrki, hefur safnað fyrir eftirstöðvunum.
Hatari kemur inn á lokametrunum
Hljómsveitin Hatari, sem gefur sig út fyrir að vera „andkapítalískt margmiðlunarverkefni og neysluvara“, hefur gengið til liðs við söfnunina. Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst fjölmiðlum rétt í þessu.
„Bára og hópurinn „Takk Bára” eru hreinlega orðlaus“
Í tilkynningunni segir að góð viðbrögð hafi verið við söfnuninni. „Gríðarlegur áhugi hefur verið fyrir söfnuninni og náðist að safna 300 þúsund krónum fyrir málskostnaðinum strax á fyrsta sólarhring. Bára og hópurinn „Takk Bára” eru hreinlega orðlaus og lýsa yfir þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóg. Greinilegt er að aðgerðarsinninn Bára nýtur mikils stuðnings meðal almennings á Íslandi sem er sannkallað gleðiefni.“
9 dagar eru nú eftir af söfnuninn á hópfjármögnunarsíðunni Karolina fund. Framlag Hatara eru 10 miðar á útgáfutónleika hljómsveitarinnar sem haldnir verða í Austurbæ í febrúar næstkomandi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, stefndu Báru fyrir dóm 11. desember í fyrra vegna þess sem þeir töldu brot á lögum um Persónuvernd, þegar háværar umræður þeirra á barnum Klaustri um nafngreinda aðila voru teknar upp. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í maí síðastliðnum að upptakan hafi brotið gegn lögum um persónuvernd.
Orð þingmannanna stórt fréttaefni
Fjölmargar fréttir voru sagðar upp úr upptökunni, en þar kom fram að þingmennirnir höfðu notað niðrandi orð um þingkonur og viðhaft kynferðislega orðræðu um þær. Eftir að ummælin urðu ljós sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra meðal annars að þingmennirnir væru „ofbeldismenn“. Að auki kom fram á upptökunni að Gunnar Bragi Sveinsson hafði talið sig átt inni greiða hjá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að verða sjálfur skipaður sendiherra, vegna þess að hann skipaði Geir H. Haarde, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sendiherra í Washington, í utanríkisráðherratíð sinni.
Gunnar Bragi lýsti fléttunni á Klaustri, sem fól í sér að hann skipaði fyrrverandi þingmann Vinstri grænna einnig sendiherra, þrátt fyrir að hann teldi hann „fávita“, til að sefa gagnrýni frá vinstri væng stjórnmálanna. Í því skyni hafi hann fundað með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, sem hefði í kjölfarið ekki gagnrýnt skipun Geirs.
Eftir að upptakan varð opinber sagðist Gunnar Bragi hafa verið að „bulla og ljúga“, en Sigmundur Davíð staðfesti hins vegar frásögn hans á fundinum á Klaustri, eins og greina mátti á upptökunni.
Athugasemdir